Jóna K. Gunnarsdóttir er kennari og móðir – og hún er með ADHD. Jóna er mjög ósátt við þann áróður sem hún telur sé í gangi gegn ADHD-lyfjum. Jóna skrifaði grein um þetta á vef ADHD-samtakanna og segir þar meðal annars:
„Það er árið 2019 og ef ég lít um öxl, ekki lengra en til ársins 2010 þegar ég fór fyrst að vinna með börnum með ADHD, verð ég verulega stolt. Alltaf fleiri og fleiri segjast vera með ADHD án þess að skammast sín og halda að það sé eitthvað sem komi til með að eyðileggja líf þeirra. Í dag verða foreldrar og börn fegin þegar greining liggur fyrir og komin skýring á afhverju hlutirnir virka ekki eins hjá þeim og öðrum. Foreldrarnir eru ekki lélegir uppalendur, krakkarnir ekki siðblind eða óþokkar og fullorðið fólk fær loksins skýringar á erfiðleikum sem hafa truflað þau svo lengi sem þau muna.“
En á sama tíma og skilningur hefur aukist og lyf valdið straumhvörfum í lífi þeirra sem þjást af ADHD þá skýtur upp kollinum, að mati Jónu, villandi umræða um ADHD og lyfin við því. Jóna skrifar:
„Því er sorglegt að nokkuð reglulega þurfa þeir sem eru með ADHD að lesa um að við séum að setja met í notkun örvandi lyfja og framsetningin að mínu mati illa ígrunduð, oft á tíðum með sláandi fyrirsögn sem virkar neikvæð og setur þá sem ekki misnota lyfin í varnarstöðu. Foreldrar fá jafnvel á tilfinningu að þeir séu að dópa börnin sín og eldri einstaklingar velta fyrir sér hvort þau séu að dópa sjálf. Þar með elur þetta því miður líka stundum á skömm. Skömm sem við höfum hægt og bítandi reynt að koma burt.“
Jóna segir tímabært að eineltinu gegn ADHD-lyfjum linni. Börn með ADHD eru farin að spyrja foreldra sína hvort þau séu á örvandi lyfjum og hvort verið sé að gefa þeim eiturlyf, vegna umræðunnar sem á sér stað um þessi lyf í fjölmiðlum og víðar.