fbpx
Föstudagur 20.maí 2022
Fréttir

Missti ökuleyfið fyrir að hafa ekki vottorð um ADHD: Alexandra – „Ég næ bara ekki upp í þetta“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 6. mars 2019 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikil umræða hefur skapast inn á Facebook-hóp fyrir fullorðna með ADHD eftir að lögmaður í hópnum greindi frá því að aðili hefði verið sviptur ökuréttindum sínum tímabundið fyrir að keyra undir áhrifum ADHD lyfja, sem hann hafði þó löglega fengið uppáskrifuð af lækni sínum. Ástæðan var sú að viðkomandi hafði ekki undirritað vottorð læknis meðferðis.

Þetta kom mörgum meðlimum hópsins í opna skjöldu, enda hefðu læknar þeirra í engu minnst á þessa staðreynd, þegar lyfin voru ávísuð þeim.

Alexandra Ósk Guðbjargardóttir er meðlimur í hópnum. Hún sagði í samtali við blaðamann að þetta hafi komið henni mikið á óvart.

„Mér finnst þetta allt mjög loðið. Sem sjúklingur á mjög mörgum lyfjum vil ég hafa hlutina á hreinu því ég keyri ekki ein. Ég er með dætur mínar og aðra fjölskyldumeðlimi og vini og ég er ekki tilbúin að taka sénsa. Ekki með sjálfa mig og þess þá heldur með aðra í bílnum.“

Sviptur fyrir að hafa ekki vottorð

Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef dómstóla þegar fréttin er skrifuð en samkvæmt umræðum inn á ofangreindum Facebook-hóp þá var einstaklingur sviptur ökuréttindum í tvo mánuði eftir að hafa greinst með metýlfenídat í blóði. Þessi aðili tekur lyf við ADHD og má útskýra niðurstöðu blóðsýna með þeim hætti. Þó neitaði dómari að líta þeirrar staðreyndar þar sem umræddur aðili hefði ekki verið með vottorð meðferðis líkt og lögin krefjast og því skyldi beita hann viðurlögum.

Engu breytir um þetta þó vottorðs sé aflað eftir að einstaklingur er stöðvaður við akstur. Ökumaður þarf að hafa vottorðið á sér.

Engin fræðsla

Alexandra segir að þrátt fyrir margar læknaheimsóknir, í mismunandi landshlutum hafi hún aldrei fengið upplýsingar um að henni bæri að hafa vottorð meðferðis til að eiga ekki á hættu að vera beitt viðurlögum af lögreglu.

„Enginn hefur minnst á það og ég hef verið hjá fjölmörgum, í Reykjavík, á Akureyri, Sauðárkróki og Blönduósi. Enginn hefur nefnt neitt í sambandi við þetta.“

„Ég næ bara ekki upp í þetta. Fyrir utan það að það er allt orðið rafrænt í dag svo hvorki lög né lyfseðlar stemma og svo er þetta allt þversögn og mótsögn og maður skilur ekki neitt.“

Í umferðarlögum er tekið fram að ökumaður bifreiðar skuli ekki beittur viðurlögum ef hann uppfyllir þrenns konar skilyrði. Sé með vottorð frá lækni meðferðis, sýni fram á útgefið lyfjakort og gangist undir læknisskoðun að beiðni lögreglu.

Þetta þurfa þeir sem taka lyf við ADHD, eða önnur lyf að hafa í  huga.

Í lyfjabók á vef Lyfju segir eftirfarandi um Concerta: „Lyfið skerðir aksturshæfni. Ekki aka bíl á meðan lyfið er tekið.“ Það sama segir um sambærileg lyf á borð við Rítalín og Metýlfenídat.

„Nú er þetta hópur sem telur 6200 manns og miðað við kommentin þá vissi nær enginn af þessu,“ sagði Alexandra. Eitthvað vantar því uppá að einstaklingar sem taka inn lyf á borð við ADHD-lyf sé veitt fræðsla um að þeir þurfi að hafa læknisvottorð til staðar í ökutækinu, ef lögreglan skyldi stöðva þá. Ellegar verða þeir sektaðir og/eða sviptir ökuréttindum.

Skylda að uppfylla öll skilyrði

Vilhjálmur Hjálmarsson, varaformaður ADHD-samtakanna, segir inn á Facebook hópnum að eina ástæðan fyrir því að ADHD-lyf séu þríhyrningslaga sé þekkt en sjaldgæf aukaverkun sem valdi sjóntruflunum og svima. Að öðru leiti séu lyfin ekki talin hafa áhrif á aksturshæfni.

„Nema þvert á móti, einstaklingur með ADHD sem tekur þessi lyf er að öllum líkindum betri ökumaður – jafnvel betri en gengur og gerist“

Vilhjálmur segist jafnframt efast um að lögregla geti krafist þess af mönnum að þeir gangi með vottorð á sér dags daglega.

Þetta tiltekna ákvæði umferðarlaga er undantekningarákvæði sem sett var til að ökumenn gætu í vissum aðstæðum komist hjá viðurlögum, svo sem vegna þess að þeim væri nauðsynlegt að taka inn lyf sem geti mælst í blóði sem ólögmæt ávana- og fíkniefni. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi sem varð að umræddu ákvæði, þurfa ökumenn að uppfylla öll þrjú ofangreind skilyrði. Í greinargerðinni segir:

„Skorti sönnun einhverra framangreindra atriða, skal ökumaður beittur viðurlögum.“

Þetta er algjört rugl

Einn meðlimur í áðurnefndum Facebook hóp hafði samband við lögregluna til að fá svör við því hvort það væri virkilega svo að ADHD einstaklingar þurfti að ganga með vottorð á sér, séu þeir undir stýri.

Í svari lögreglunnar segir að engar líkur séu á því að ADHD einstaklingar, með löglega ávísuð lyf, missi réttindin. Hins vegar ef mælist margfaldur ráðlagður dagskammtur lyfs í blóði einstaklings, þá sé lyfið ekki notað í samræmi við tilgang og í þeim tilvikum geti það leitt til viðurlaga.

Því eru aðrir meðlimir ósammála, lögin séu skýr og veiti lögreglunni ekki svigrúm til að beita suma viðurlögum fyrir að bera ekki vottorð, en aðra ekki.

Í athugasemd við áðurnefndan þráði á Facebook sagði Alexandra að hún teldi eðlilegt að fyrst slíkt vottorð verði að vera í fórum ökumanna, þá væri eðlilegt að læknar skrifuðu slíkt vottorð samhliða lyfjunum.

„Þetta er málefni sem ÞARF að koma á framfæri og fólk þarf að vera betur upplýst. Því ég get alveg lofað þér því að það er mjög lág prósenta þeirra sem taka bílpróf að fara að þræða lögin inni á vef Alþingis. Megnið einblínir aðeins á að ná bóklega prófinu.“

Í samtali við blaðamann segir Alexandra að lögin séu óaðgengileg fyrir almenning, þau séu flókin og erfitt að lesa úr þeim.
„Einhvers staðar passar smáa letrið sem almenningur veit ekki af, bara einfaldlega ekki saman. Þetta er algjört rugl. Almennur og óbreyttur borgari getur ekki lesið út úr þessari krossgötuflækju sem þetta er. Þetta er ekkert nema þver- og mótsögn þvers og kruss og ekkert passar saman. “

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Ökumaður vímu og sviptur ökuréttindum í óhappi – Reyndi að stinga lögregluna af

Ökumaður vímu og sviptur ökuréttindum í óhappi – Reyndi að stinga lögregluna af
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Ótrúlega lélegur búnaður rússneska hersins – Límband og tæki frá áttunda áratugnum

Ótrúlega lélegur búnaður rússneska hersins – Límband og tæki frá áttunda áratugnum