Þórður Þórðarson var þjálfari ÍA þegar ofbeldismaðurinn Mark Doninger lék með liðinu. Guðrún Dögg Rúnarsdóttir fyrrum unnusta Mark Doninger opnaði sig í samtali við Fréttablaðið um skelfilegt ofbeldi sem hún varð fyrir af hálfu Doninger. Þjálfari ÍA bjargaði henni í eitt skiptið þegar Mark var að ganga í skrokk á Guðrúnu þar sem hún taldi að Mark ætlaði að drepa hana.
Þórður segir í samtali við DV að þegar hann kom á vettvang hafi þau staðið í sitt hvoru horninu og öskrað á hvort annað. Hann kveðst ekki hafa séð áverka á Guðrúnu. Það stangast á við það sem Þórður sagði fyrir dómi um málið en þá sagði hann að Guðrún hefði verið með bólgna vör. Doninger var síðan með kúlu á enninu en hann skallaði Guðrúnu í andlitið. Sagði Þórður að Guðrún hefði ekki greint sér ítarlega frá atburðarásinni. Mark var seinna dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir árásina en þrátt fyrir minnst tvær kærur og að þrír leikmenn og þjálfari hafi vitað að hann hefði beitt Guðrúnu ofbeldi var samningi ekki rift, þvert á móti. Mark Doningar var áfram á Akranesi yfir veturinn en árásin átti sér stað í október 2011. Þórður Þórðarson þjálfari átti eftir að velja ofbeldismanninn átta sinum í sitt byrjunarlið áður en hann var loks lánaður til Stjörnunnar þegar dómur var kveðinn upp. Samt heldur Þórður fram að tekið hafi verið strax á málinu.
Guðrún lýsir atvikinu þegar Þórður kom að málinu á þennan hátt í samtali við Fréttablaðið:
„Hann hélt áfram að koma fyrir utan heimili mitt og lét mig ekki í friði. Hann sendi mér ítrekað myndir af sér að rispa á sér úlnliðina og sagðist ætla að drepa sig ef ég kæmi ekki og hótaði því líka að setja myndir og myndbönd af mér á netið sem hann hafði tekið í leyfisleysi. Í eitt skiptið var ég verulega hrædd og lét til leiðast. Hann var mjög almennilegur þegar ég kom og við náðum að ræða saman á rólegum nótum. En þegar hann sagðist vilja byrja með mér aftur og ég sagði það ekki inni í myndinni, sturlaðist hann gjörsamlega.“
Mark Doninger bjó á þessum tíma með þremur öðrum leikmönnum ÍA. Þegar hann heyrði að leikmennirnir væru að koma heim dró hann hana inn í herbergið sitt á hárinu.
„Hann henti mér upp í rúm og byrjaði að berja mig. Strákarnir heyrðu hrópin í mér, en voru of hræddir til að koma inn. Ég komst að því eftir á að þeir hringdu í þjálfara liðsins frammi á gangi. Á þeim fimm mínútum sem liðu þar til þjálfarinn kom á staðinn náði Mark næstum því að drepa mig. Hann festi hendurnar á mér og var kominn það langt í að kyrkja mig að ég var öll orðin blá í framan og háræðarnar á hálsinum slitnuðu niður að brjóstum. Ég man að það sem ég hugsaði var: ,,Ég trúi ekki að ég sé að fara að deyja á þennan hátt!“Ég fór að hugsa um foreldra mína og fjölskyldu og hélt bara að ég væri að deyja. Það síðasta sem ég man áður en þjálfarinn kom loks á staðinn var að hann skallaði mig í andlitið, þannig að báðar varir mínar sprungu illa.“
Þórður kom Guðrúnu út úr herberginu og kom henni heim. Hann segir að hann hafi ekki orðið vitni að ofbeldinu heldur komið að þeim á sitt hvorum staðnum í herberginu. Guðrún hafði í kjölfarið samband við lögreglu og kærði Mark. Hann fékk átta mánaða skilorð. Er Guðrún óhress með hvernig tekið var á málinu á sínum tíma. Árásin átti sér stað 30. október 2011. Áður hafði Mark verið kærður fyrir árás sem átti sér stað í maí 2011. Mark fékk nýjan samning í september til eins árs við ÍA. Mánuði síðar reyndi hann að kyrkja Guðrúnu. Þórður sagði í samtali við Vísi fyrr í dag:
„Við tókum á þessu máli innan félagsins strax og þó að það hafi ekki verið gert „en, to, tre,“ þá var unnið í því. Það er ekkert hlaupið að því að henda leikmanni í burtu. Það er náttúrulega enginn sekur uns sekt er sönnuð og á þessum tímapunkti var ekki búið að dæma í þessu máli. Hvað ef við hefðum hent honum í burtu og svo hefði komið í ljós að þetta var lygi. Þá hefðum við verið hengdir af hans hálfu, af hans lögfræðingum. Þetta er ekki alveg svart og hvítt sko.“
Móðir Guðrúnar sagði hjá lögreglu að Þórður hefði komið heim með dóttur hennar sem hafi verið í áfalli með brotna tönn og sprungna vör. Hann hefði setið ofan á hálsi dóttur hennar þegar Þórður kom inn.
„Hún kvaðst hafa verið heima hjá sér 30. október sl. er Þórður hafi komið heim með brotaþola. Hún hafi verið grátandi, öll tætt, skyrta hennar hefði verið rifin. Hún hafi veitt því athygli að brotaþoli var rauð á hálsi og hafi séð að um háræðaslit væri að ræða. Hún hafi síðan skoðað áverka brotaþola betur og séð að hún hafi verið með lausar framtennur, spöng í framtönnum hafi verið sprungin og svo hafi vinstri kinn verið stokkbólgin. Aðspurð um frekari áverka sagði hún að blætt hafi úr tönnum og vörum brotaþola, hún hafi verið marin og hár hennar hefði verið reytt. Hún hafi tekið teygju úr hári hennar og hárlubbi fylgt með.“
Þórður átti síðan eins og áður segir eftir að velja ofbeldismanninn átta sinnum til að leika fyrir Skagamenn. Þórður kveðst ósáttur við umfjöllun Vísis.
„Þetta er asnalega orðað hjá blaðamanninum. Hún orðar það þannig að ég hafi stíað þeim í sundur. Þau stóðu í sitthvoru horninu og ég segi honum að drulla sér út og tek hana með mér. Það er ekki eins og ég hafi tekið ofan á henni eða verið í handalögmálum.“
Þórður neitar að hafa séð áverka á Guðrúnu. Það stangast eins og áður segir á við það sem hann sagði fyrir dómi. Hann kveðst hissa á að verið sé að fjalla um málið mörgum árum eftir að það gerðist.
„Það er einhver sem vantar athygli einhvers staðar, ég er ekki alveg að kaupa þetta. Þetta er eitthvað skrítið núna. Á að vera ýfa þetta upp á 4 ára fresti út ævina hennar. Þetta er skrítin blaðamennska,“ segir Þórður.
„Ég veit svo mikið um þetta mál sem ég læt ekki hafa eftir mér,“ segir Þórður án þess að vilja greina nánar frá hvað hann eigi við með þessum ummælum, en hann og fleiri sem sátu í stjórn ÍA á þessum tíma hafa verið harðlega gagnrýndir. ,,Það eru tvær hliðar á öllum málum, ég er ekki að verja þennan gaur, því þetta er djöfulsins druslusokkur. Þú lemur ekki konur. Það er það versta sem ég veit um. Ég er ekki að verja þennan mann rassgat en mér finnst voða skrítið að það sé verið að taka þetta mál upp núna. Ég skil ekki tilganginn með því. Það er búið að fjalla um þetta áður og búið að kveða upp dóm.“
Hún hefur kannski fundið þörf hjá sér og verið tilbúin til að segja sögu sína núna.
„Ég kom ekkert að þeim í neinum slagsmálum. Þau stóðu í sitthvoru horninu öskrandi á hvort annað. Það var tekið á þessu innan félagsins alveg þvílíkt.“
Hann var í Skagaliðinu heilan vetur eftir þetta. Var ekki erfitt að velja hann í liðið eftir að hafa orðið vitni að …
„Mig minnir ekki, eða ég man ekki hvort hann hafi spilað leik eftir að ég fer þarna niður eftir og fer með hana heim til sín.“
Þú valdir hann átta sinnum í lið þitt. Hann spilaði átta leiki í byrjunarliði eftir þetta og fór ekki fyrr en eftir dómsuppkvaðningu í Stjörnuna að láni.
„Var það svoleiðis. Þetta er mál er eins og önnur, þú hleypur ekki til og rekur fólk. Hvað ef þetta hefði verið ósatt að hluta til, hvað þá, þú verður að vinna þetta rétt. Félagið taldi sig á þessum tíma vinna þetta í rétt.“