fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Stærsti lúxusinn er salsa alla daga

Edda Blöndal færði Salsa til Íslands:

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 27. maí 2017 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Edda Blöndal er að eigin sögn dellumanneskja, sem heillaðist af salsa á keppnisferðalagi í karate. Hún færði það hingað til lands og í dag er salsa allt í senn atvinna hennar, áhugamál og félagslíf. Og um helgina stendur hún fyrir glæsilegri salsahátíð, Midnight Sun Salsa, sem fer fram á Hilton og í Iðnó.

„Fyrir rúmu ári fékk ég sjaldgæfan níu tíma svefn, vaknaði full af orku og dreif mig í að sækja um og fá réttindin til að halda hátíðina, svona áður en ég hætti við, og þess vegna er þessi fjögurra daga hátíð hér um helgina á Hótel Nordica og í Iðnó,“ segir Edda. „Midnight Sun Salsa er langþráður draumur hjá mér til nokkurra ára, en ég og vinir mínir í Salsa Ísland höfum farið og dansað á svona hátíðum erlendis.“

Edda er einstakur orkubolti sem færði Íslendingum salsa fyrir rúmum áratug. Vikulega mæta 80–100 manns á danskvöld í Iðnó, hún heldur námskeið og er með sýningarhópa sem keppt hafa og unnið erlendis. Nú um helgina er hún drifkrafturinn í fjögurra daga salsahátíð.
Orkubolti Edda er einstakur orkubolti sem færði Íslendingum salsa fyrir rúmum áratug. Vikulega mæta 80–100 manns á danskvöld í Iðnó, hún heldur námskeið og er með sýningarhópa sem keppt hafa og unnið erlendis. Nú um helgina er hún drifkrafturinn í fjögurra daga salsahátíð.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fjögurra daga hátíð

„Það eru allir velkomnir að koma, sjá og upplifa, hvort sem er til að dansa salsa eða ekki,“ segir Edda. „Níu erlendir gestakennarar koma til landsins, dj-arar og fleiri, böll verða haldið bæði í Iðnó og á Hilton og hápunkturinn er Norðurlandmót í salsa og bachata sem haldið verður á Hilton laugardagskvöldið 27. maí.

Við verðum ekki með tíma í boði fyrir byrjendur, en öllum gefst kostur á að koma á ball á laugardaginn, þar verðum við með tvö dansgólf. Keppnin sjálf á laugardag er síðan þvílík sýning, þar etja níu lið kappi, þar af fjögur erlend. Síðan tekur ballið við þar sem allir sem hafa gaman af að dansa við aðra eru velkomnir.“

Salsa er félagsskapur fyrst og fremst

„Það sem er mest heillandi við salsa er að þetta er félagslíf, af því að salsa er spuni, ekki fyrirfram ákveðin rútína eins og til dæmis í samkvæmisdönsum. Þar er parið búið að æfa ákveðna rútínu sem það getur bara dansað saman,“ segir Edda. „Þegar þú mætir á námskeið geturðu skráð þig, þarft ekki að mæta með félaga. Þar eru kennd grunnspor sem eru eins og hlutlausi gírinn í dansinum. Herrunum eru kenndar ákveðnar bendingar og stýritækni, þannig að með ákveðinni hreyfingu á ég að snúa til hægri og með annarri hreyfingu til vinstri. Maður lærir ákveðið tungumál í dansi, sem má svo nota hvar sem er og með hverjum sem er. Síðan er maður bara kominn í það að fara út að dansa einu sinni í viku.“

Edda segir að það sem geri salsa svo vinsælt sé að ekki sé bara um eitt námskeið að ræða, heldur verður salsa hluti af félagslífi þeirra sem það stunda. „Í Reykjavík erum við með vikuleg danskvöld í Iðnó á miðvikudögum. Ég er ekki alin upp sem dansari, byrjaði sem unglingur að dansa og ég var orðin þrítug þegar ég lærði salsa. Salsa er fyrir venjulegt fólk.“

Salsa Ísland

Í rúman áratug hefur Edda rekið Salsa Ísland sem býður upp á námskeið á fimm getustigum og því er hægt að mæta á námskeið í fimm ár, án þess að endurtaka sig. Margir hafa gert það og á salsakvöldin í Iðnó mæta að meðaltali 80–100 manns.

„Ég kynntist salsa erlendis og þegar ég kom heim dauðlangaði mig að dansa salsa hér og því kom ég því af stað hér heima,“ segir Edda.

„Salsa er svo stórkostlegt og það er svo gaman að fara út og kynnast fjölda fólks. Margir sem stunda salsa segja mér líka að þeir séu svo ánægðir að eiga þennan valkost í stað þess að vera alltaf í hefðbundnu næturklúbbastemningunni.“

Áhugamál og atvinna

„Ég er starfandi sjúkraþjálfari í fullu starfi, rek Salsa Ísland og er tveggja barna móðir. Ég sef afar lítið og á engan frítíma en ég er mjög rík í hjartanu. Þetta er svolítið „kreisí“, en þetta er alveg þess virði, ég er umkringd vinum mínum sem elska þetta með mér,“ segir Edda.

Salsa Ísland er frumburður hennar, en hún stofnaði það áður en hún kynntist manninum sínum og eignaðist börn. „Maðurinn minn er dæmigerður íslenskur karlmaður, hann er smiður. Við ákváðum að fara til Kúbu þegar við vorum nýbúin að taka saman og þar sá hann upprunalegu útgáfuna af salsa og féll jafnmikið og ég fyrir dansinum,“ segir Edda.

„Ég er algjör dellumanneskja og held áfram minni ástríðu í dansinum, hann fer með mér að dansa, við kennum saman og við hlustum á salsa heima. Börnin okkar dilla sér við tónlistina líka.“ Saman eiga Edda og Páll Sigurðsson, maðurinn hennar, son sem er fjögurra ára og dóttur sem er átta ára. Fyrir átti Páll sautján ára dóttur. Edda segir að stundum á kvöldin, þegar hún tilkynni að hún þurfi að vinna, heyri hún börnin segja: „Nei mamma, þú ert bara að fara að dansa.“

„Salsa er bæði vinnan mín og áhugamál, en ég myndi gera þetta hvort sem er sem áhugamál,“ segir Edda. „Það er stærsti lúxusinn að vera að leika sér í áhugamálinu sínu allan daginn.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Salsa gefur manni breyttan lífsstíl

Aðspurð hvort salsa sé bara fyrir Reykvíkinga svarar Edda að það sé systraklúbbur á Akureyri. „Við höfum fengið fyrirspurnir frá landsbyggðinni og höfum haldið námskeið þar. Við erum ekki með námskeið fyrir börn eða unglinga, meðalaldurinn hjá okkur er 35 ár.

Ég heyri mitt fólk hafa orð á hvað salsa hefur gefið því mikið. Þetta fjallar um breyttan lífsstíll, fara út og dansa í stað þess að horfa á sjónvarp enn eitt kvöldið. Svo mætir maður bara ferskur í vinnu daginn eftir.“

Salsa Ísland er með nemendasýningarhópa sem fá að læra rútínu og dansa á sviði. „Við erum komin með nokkrar kynslóðir af sýningarhópum og síðastliðið haust tókum við þátt í Stargate-keppninni, þar sem haldnar eru fimm undankeppnir, og gerðum okkur lítið fyrir og unnum undankeppnina í Berlín. Síðan tókum við þátt í úrslitakeppninni í Dusseldorf og urðum þar í þriðja sæti. Við bara tókum þetta alla leið og komum sjálfum okkur örlítið á óvart, en með þessu settum Ísland á kortið og þetta hjálpar auðvitað til við að auglýsa okkur og halda hátíð af þeirri stærðargráðu sem hún er núna um helgina. Það er svo jákvætt fyrir Reykjavík þegar gefst tækifæri til að upplifa eitthvað nýtt,“ segir Edda.

„Það er fjölmarga iðkendur salsa að finna í stórborgum þar sem latín-samfélagið er stórt, þannig að það telst óvenjulegt að okkur hér hafi tekist að byggja upp svona öflugt samfélag hér, jafn einangruð og við erum. Það þarf svona klikkaðan hamstur í hjóli eins og mig til að halda þessu gangandi,“ segir Edda og hlær. „Sá er síðan alltaf með gott fólk í kringum sig og það hef ég.“

Heimasíða Salsa Ísland

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Í gær

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi