fbpx
Föstudagur 03.maí 2024

Sirkus kynvillinga og vondra listamanna

Ásta Kristín Benediktsdóttir skoðar orðræðu um samkynhneigð og samkomustaði hinsegin fólks á sjötta áratugnum – Samkynhneigðir og vondir listamenn sagðir merki um erlenda siðspillingu

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 30. ágúst 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það frjálsræði sem felst í rými listarinnar hefur í gegnum tíðina oft laðað að sér fólk sem er á skjön við hið hefðbundna borgaralega samfélag. Þannig hefur hinsegin fólk til dæmis oft verið hluti af bóhemískum kreðsum listamanna og róttæklinga þar sem það hefur fengið aukið frelsi til lífs og athafna.

Þannig var það til að mynda á sjötta áratugnum á Íslandi þegar karlmenn sem töluðu óvenju fjálglega og opinberlega um hinsegin hneigðir sínar fóru í fyrsta skipti að safnast saman á óformlegum samkomustöðum, til að mynda kaffihúsinu Adlon við Laugarveg 11.

Ásta Kristín Benediktsdóttir vinnur að doktorsritgerð um verk Elías Mars, en til þess að skilja þau fannst henni hún þurfa að kynna sér umræður um samkynhneigð á sjötta áratugnum.
Skoðar umræðu um hinsegin fólk á sjötta áratugnum Ásta Kristín Benediktsdóttir vinnur að doktorsritgerð um verk Elías Mars, en til þess að skilja þau fannst henni hún þurfa að kynna sér umræður um samkynhneigð á sjötta áratugnum.

Mynd: Bettina Vass Photography

Í nýlegri grein í bókinni Svo veistu að þú varst ekki hér – hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi bendir Ásta Kristín Benediktsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum, á það að í umfjöllun íslenskra fjölmiðla um samkynhneigð á sjötta áratugnum hafi oft verið sett hálfgert samasemmerki milli „kynvillinganna“ og ákveðinnar gerðar „slæmra og iðjulausra“ listamanna – hvorir tveggja voru álitnir til marks um útlenska siðspillingu sem kom til landsins með nútímavæðingunni.

Meira frjálsræði í listamannakreðsum

„Í kringum árið 1950 fóru íslenskir fjölmiðlar í fyrsta skipti að tala um samkynhneigð hér á landi – það er að segja ekki bara sem eitthvert loftkennt órætt fyrirbæri sem er bara til í útlöndum. Þessi orðræða um „kynvillinga“ á Íslandi var nánast alltaf neikvæð og fordæmandi. Eitt af því sem mér fannst merkilegt þegar ég skoðaði þetta var að það var stundum talað um þá sem á þeim tíma voru kallaðir „kynvillingar“ á svipaðan hátt og um ákveðna gerð listamanna,“ segir Ásta Kristín.

„Þetta kemur skýrast fram í Mánudagsblaðinu, sem var slúðurfjölmiðill þess tíma, en þar er dregin lína beint á milli þess að vera kynvillingur og að vera vondur og iðjulaus listamaður. Það er talað um þessa tvo hópa á mjög svipuðum nótum, þeir voru sagðir siðspillandi, gætu haft slæm áhrif og væru vondar fyrirmyndir fyrir ungt fólk,“ segir hún og vísar meðal annars í umfjöllun um yfirvofandi „kynvillumál“ árið 1958. Þar var lögð sérstök áhersla á hlutverk vinnustaðarins Þjóðleikhússins og kaffihússins Adlon við að viðhalda og ala á kynvillu í Reykjavík.

„Það eru eflaust margar ástæður fyrir þessari áherslu. Í fyrsta skipti á Íslandi voru hinsegin karlmenn orðnir sýnilegir, karlmenn sem prófuðu sig áfram með ýmislegt og meðal annars það að vera með öðrum karlmönnum – þótt þeir væru ekki endilega allir hommar. Þeir voru að verða sýnilegir í rými þar sem fólk vissi af þeim, fyrst og fremst á þessu kaffihúsi við Laugaveg 11. Þar hittist ákveðin bóhemía, kreðsa af alls konar fólki, listamönnum, tónlistarmönnum og öðrum sem voru viljandi eða óviljandi svolítið á skjön við hið borgaralega samfélag,“ segir Ásta Kristín og í greininni nefnir hún til að mynda rithöfundinn Elías Mar, Þórð Sigtryggsson orgelleikara, Sturla Tryggvason fiðluleikara, Ásgeir Beinteinsson píanóleikara og Harald Björnsson leikara.

Fordæmandi orðræða

Úr Mánudagsblaðinu 27. október 1958
Fordæmandi orðræða

Síðustu ár hefur þó kynvilla farið í vöxt hér á Íslandi. Ein opinber stofnun hefur verið annáluð fyrir brot á velsæmi í þessum efnum, svo mjög að til umtals og ráðstafana hefur komið hjá forstöðumönnum hennar. Sjoppa ein við Laugaveginn, aðsetursstaður mislukkaðra og lukkaðra listamanna, skólakrakka og lýðs, hefur fengið á sig orð sem stefnumótsstaður kynvillinga. Þá er og mjög haft í orði, að ýmsir „klúbbar“ slíkra manna séu við lýði, og enn fremur að einstaka menn haldi „frillur“.

Sirkus kynvillinga og vondra listamanna

„Þessi þróun helst eflaust í hendur við það að Reykjavík var farin að stækka og orðin að borg – víða um heim hefur verið sýnt að það fer fyrst að bera á sýnileika samkynhneigðra í borgarumhverfi. Þetta voru eflaust líka erlend áhrif, því í löndunum í kringum okkur vissi fólk almennt hvað samkynhneigð var og það var farið að tala um hana. Þetta gerist seinna hér en víða annars staðar. Margir af þessum mönnum sem voru svona áberandi á Laugavegi 11 höfðu verið erlendis og kynnst bóhemkreðsum annars staðar og vildu koma svipaðri menningu á koppinn á Íslandi,“ segir Ásta um ástæður þess að sýnileiki þessa hóps jókst í Reykjavík á þessum tiltekna tíma.

„Þegar um svona sjokkerandi umræðuefni er að ræða í jafn litlu samfélagi þarf líka lítið til að fólk verði sýnilegt – sögurnar eru fljótar að breiðast út. Margir þeirra sem héldu til á Laugavegi 11 á þessum tíma hafa einmitt sagt í viðtölum að almenningur í Reykjavík hafi hreinlega mætt til að skoða þá – þetta hafi verið eins og sirkus.“

Erlend siðspilling

Þú segir að í umfjöllun Mánudagsblaðsins hafi samkynhneigðir og lélegir listamenn verið lagðir að jöfnu, eru þá þarna undirliggjandi hugmyndir um tengsl vondrar fagurfræði og slæms siðferðis?

„Já, í þessum skoðunum kemur fram ótrúlega áhugaverð samsuða af því að vondir listamenn séu ákveðin tegund af manneskju og að þeim fylgi vont siðferði. Þannig að það helst í hendur að skapa vonda list og vera siðspilltur. Það er annað rannsóknarefni út af fyrir sig hvort listin sem fólkið á Laugarvegi 11 hafi verið að skapa hafi verið sérstaklega róttæk eða kallað á þessi viðbrögð. Mér finnst þó líklegt að ein af ástæðunum fyrir því að listamennirnir sem héldu til á Laugavegi 11, og fengu orð á sig fyrir að vera lélegir eða iðjulausir, hafi verið að þeir hafi hallast að módernisma. Eitt dæmi er ljóðskáldið Dagur Sigurðarson, hann ögraði gagngert öllum borgaralegum gildum og skrifaði ljóð sem voru langt frá því að vera hefðbundin.

Í umræðunni á sjötta áratugnum er augljóst að samkynhneigð er mikið tengd við útlönd, bæði var hún tengd við útlönd í þau fáu skipti sem hún var nefnd í fjölmiðlum og svo var hún álitin beintengd við almenna erlenda spillingu. Það talað um hana í sömu andrá og almenn spillandi áhrif stórborga og nútímavæðingar og alls slíks. Það er mjög sterk tilhneiging til að tengja hana við það sem er erlent.“

Þetta minnir mig á að þú nefnir að Halldór Laxness skrifað einhverjum áratugum áður að Reykjavík væri loksins að nútímavæðast og til marks um það væri framkoma fyrirbæra eins og „football og hómósexúalisma.“ Þetta virðist vera sama grunnhugmynd en þó umburðarlyndari, eða hvað?

„Þegar Laxness skrifar þetta árið 1925 er hann ungur og róttækur og vill hrista upp í samlöndum sínum. Hann er að hampa nútímavæðingunni og vill að Ísland nútímavæðist. Það er vissulega áhugavert að hann taki „hómósexúalisma“ sem dæmi um eitthvað sem hann vill að Reykjavík taki upp – en hvað af þessu er eitthvað sem vísar í raunveruleikann og að hvaða leyti hann er bara að reyna að hrista upp í lesendum er erfitt að segja.“

Á sjötta áratugnum var mikið pískrað um samkynhneigð sem sögð var látin viðgangast innan Þjóðleikhússins.
Sagður ala á kynvillu Á sjötta áratugnum var mikið pískrað um samkynhneigð sem sögð var látin viðgangast innan Þjóðleikhússins.

Mynd: © Hörður Sveinsson

Minni þörf fyrir sérstök rými

Hefur þú hugmynd um hvort listarýmið sé enn einhvers konar athvarf fyrir hinsegin fólk? Ég velti fyrir mér hvort tengslin minnki ekki þegar samfélagið verður einstaklingshyggjumiðaðra og fólk ekki jafn fast í hefðbundnum hlutverkum – ætli hinsegin fólk þurfi þá nokkuð ennþá að leita í skjól listheimsins, sem er að sama skapi ekki í jafn mikilli uppreisn og oft áður?

„Það er aldalöng saga um allan heim að í listamannakreðsum hafi þrifist meira frjálsræði en annars staðar, þar hefur fólk fengið meira rými til að vera það sjálft að tjá sig á hátt sem að ögrar borgaralegu siðferði. Erlendis var það vitað að margir þekktir listamenn voru hinsegin. Þeir hafa eflaust haft mikil áhrif og ýtt undir það að hinsegin fólk hafi séð ákveðið rými í listinni til að tjá sig og vera eins og það er án þess að fylgja reglum samfélagsins á allan hátt.

Ég get hins vegar trúað því að um leið og samfélagið verður almennt opnara fyrir hlutum sem voru áður taldir á skjön, þá minnki þessi þörf fyrir að eiga sérstaka staði. Hér á landi virðist það til dæmis stöðugt erfiðara að halda hinsegin skemmtistöðum gangandi. Auðvitað er hinsegin samfélagið lítið til að byrja með, en þegar fordómarnir minnka – þótt þeir séu alls ekki horfnir – og fólk getur fengið að vera það sjálft nánast hvar sem er minnkar þörfin fyrir að eiga sér einn sérstakan stað til að fara á. Kannski er það þó bara þörf homma og lesbía fyrir slík rými sem er að minnka, kannski hafa aðrir undirokaðir minnihlutahópar enn þörf fyrir það. Í þessu samhengi má kannski nefna að það hefur verið mjög öflug starfsemi í Gallerí 78 á Suðurgötu 3 en þar fær að blómstra list alls konar hinsegin fólks þar sem það fær að tjá sig um hin ýmsu hugðarefni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Gæti snúið aftur um helgina eftir meiðslin

Gæti snúið aftur um helgina eftir meiðslin
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Horfðu á nýjasta þátt af Íþróttavikunni – Kjartan Atli gestur

Horfðu á nýjasta þátt af Íþróttavikunni – Kjartan Atli gestur
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Síbrotakona á Suðurnesjum dæmd

Síbrotakona á Suðurnesjum dæmd
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Juventus leiðir kapphlaupið

Juventus leiðir kapphlaupið
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Clattenburg segir upp hjá Nottingham eftir stutt stopp

Clattenburg segir upp hjá Nottingham eftir stutt stopp
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Eftir hörmulegt slys á Íslandi hefur hann þetta að segja um Landspítalann og starfsfólk hans

Eftir hörmulegt slys á Íslandi hefur hann þetta að segja um Landspítalann og starfsfólk hans
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Vilhjálmur spyr hvort ríkið ætli að láta Harald komast upp með að hafa gefið starfsmönnum hundruði milljóna í heimildaleysi

Vilhjálmur spyr hvort ríkið ætli að láta Harald komast upp með að hafa gefið starfsmönnum hundruði milljóna í heimildaleysi
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Færsla Þorsteins um fótboltastráka umdeild – „Þú ert að gera það sama og þeir gera sem níða kvenfólk eða kynþætti“

Færsla Þorsteins um fótboltastráka umdeild – „Þú ert að gera það sama og þeir gera sem níða kvenfólk eða kynþætti“