fbpx
Laugardagur 14.desember 2024

Dómur um FIFA 18: Draumur þeirra skotglöðu

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 3. október 2017 11:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það ríkir jafnan talsverð eftirvænting á þessum árstíma enda nóg um að vera í útgáfu tölvuleikja. Á dögunum leit FIFA 18 dagsins ljós og er óhætt að fullyrða að margir hafi varið dágóðum tíma í spilun um liðna helgi.

Á undanförnum árum hafa FIFA-leikirnir borið höfuð og herðar yfir helsta keppinaut sinn, PES, en eins og kom fram í umfjöllun DV í fyrra saxaði PES talsvert á það forskot með PES 2017.

Flottur pakki

FIFA-leikirnir hafa á undanförnum árum vakið verðskuldaða athygli, ekki bara fyrir flottan fótbolta og góða grafík heldur einnig fyrir flotta umgjörð; hér heita félögin sínum réttu nöfnum, öfugt við til dæmis PES, og mikil vinna er lögð í að skapa rétta andrúmsloftið á leikjum og rétta stemningu. Heildarpakkinn er alltaf flottur þó færa megi rök fyrir því að fótboltinn í PES-leikjunum sé raunverulegri. Það er að minnsta kosti tilfinning þess sem hér ritar og eflaust margra annarra. En nóg um það. Hér er viðfangsefnið nýjasti FIFA-tölvuleikurinn sem er sá tuttugasti og fimmti í FIFA-seríunni.

Til að gera langa sögu stutta tekst EA Sports mjög vel upp að skapa eigulegan tölvuleik sem mun endast fram að næstu útgáfu. Í fljótu bragði eru ekki ýkja miklar breytingar á FIFA 18 miðað við FIFA 17, að minnsta kosti hvað varðar útlit og grafík. Í FIFA 17 notaðist EA Sports við Frostbite-grafíkvélina í fyrsta skipti og hún er notuð aftur í ár og virkar vel; flest smáatriði líta vel út, lýsingin er flott og dýptin góð.

Langskot enda oft í netinu

Þó að leikurinn sé svipaður útlitslega og FIFA 17 hefur spilunin verið tekin aðeins í gegn. Nú er hægt að gera skiptingar á skilvirkari hátt – með einni einfaldri aðgerð – sem bætir flæði leiksins talsvert. Gervigreindin virðist einnig betri en í FIFA 17 og tölvan, ef svo má segja, óútreiknanlegri en áður. Nú taka samherjar þínir, til dæmis vængmennirnir, útpældari hlaup til að fá boltann í svæðið fyrir aftan vörnina. Allt gefur þetta leiknum raunverulegan blæ og það getur verið hrein unan að láta bestu miðjumenn heimsfótboltans stinga boltanum inn fyrir varnir andstæðingsins . Í FIFA 17 var tiltölulega auðvelt að skora úr langskotum fyrir utan teig og það er að minnsta kosti ekki erfiðara núna. Ef þú færð flugbrautina fyrir utan teig þá syngur boltinn mjög oft í netinu ef þú ert með góðan spyrnumann. FIFA 18 er draumur þeirra sem elska að skjóta á markið – það gerist nánast í hverjum leik að skorað er fyrir utan teig með langskoti. Þá er eins og fram kemur hér að framan tiltölulega auðvelt að spæna upp varnir andstæðingsins með hnitmiðuðum stungusendingum eða með því að hlaupa framhjá varnarmönnunum.


Skorað úr langskoti:

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=Gmt2GKU9ixQ&w=560&h=315]


Leikurinn refsar þeim sem grimmilega sem ekki hafa náð góðum tökum á varnarleiknum. Það er jú erfiðara að ná tökum á varnarleiknum en sóknarleiknum og því má segja að ákveðin slagsíða sé til staðar fyrir þá sem aðhyllast sóknarleik. Þetta getur gert það að verkum að lygilega mörg mörk eru skoruð í leikjum. Það getur verið erfitt, jafnvel ómögulegt, að stöðva leikmenn eins og Lionel Messi eða Cristiano Ronaldo þegar þeir fara af stað.

Eigulegur gripur

Í FIFA 17 var The Journey kynnt til sögunnar en þá gátum við stýrt ungum og efnilegum knattspyrnumanni, Alex Hunter, sem var að stíga sín fyrstu skref í hörðum heimi atvinnumennskunnar. Í FIFA 18 heldur The Journey áfram en Hunter er orðinn eldri, reyndari og eftirsóttari. Hér er um skemmtilega tilbreytingu að ræða fyrir þá sem vilja hvíla sig á netspilun eða Ultimate Team sem er á sínum stað. Þá verður auðvitað að geta þess að íslenska karlalandsliðið er í leiknum í fyrsta sinn og er það kærkomin nýjung. Þó má setja spurningarmerki við það að íslenska liðið sé bara með þrjár og hálfa stjörnu af fimm mögulegum. Landslið sem er í 22. sæti á heimslistanum á ekki að vera með minna en fjórar stjörnur. Danska landsliðið er til dæmis með fjórar stjörnur. En hvað um það. Ísland er í leiknum og það er kannski fyrir mestu.

Þegar allt kemur til alls er FIFA 18 mjög eigulegur tölvuleikur sem fótboltaunnendur ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Þó að fótboltinn sem slíkur í leiknum sé ekki fullkominn eru umbúðirnar og umgjörðin með því besta sem gerist í íþróttaleikjum í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 9 klukkutímum

Uggandi auðmaður varaði kollega sína við afleiðingum misskiptingarinnar – „Þá verður heygöflunum beint að okkur“

Uggandi auðmaður varaði kollega sína við afleiðingum misskiptingarinnar – „Þá verður heygöflunum beint að okkur“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Harmleikurinn í Kiðjabergi – Gediminas varð Victoras að bana

Harmleikurinn í Kiðjabergi – Gediminas varð Victoras að bana
Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Líf sendir Einari væna pillu – „Hér má sjá algera uppgjöf og metnaðarleysi borgarstjóra“

Líf sendir Einari væna pillu – „Hér má sjá algera uppgjöf og metnaðarleysi borgarstjóra“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Hraunaði yfir eigin leikmann eftir gærkvöldið

Hraunaði yfir eigin leikmann eftir gærkvöldið
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Lýsir súrealísku augnabliki – Var beðinn um að hringja í Gylfa Þór og bjóða honum út að borða

Lýsir súrealísku augnabliki – Var beðinn um að hringja í Gylfa Þór og bjóða honum út að borða
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Vestri staðfestir komu Ganverja

Vestri staðfestir komu Ganverja
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Þórhildur segir þetta einu ástæðuna fyrir því að fólk eigi að vera í sambandi

Þórhildur segir þetta einu ástæðuna fyrir því að fólk eigi að vera í sambandi