fbpx
Laugardagur 04.maí 2024

Brautryðjandastarf í íslenskum bókmenntarannsóknum

Þórunn Sigurðardóttir fyrir fræðiritið Heiður og huggun: erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld

Kristján Guðjónsson
Mánudaginn 14. mars 2016 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórunn Sigurðardóttir bókmenntafræðingur hlaut menningarverðlaun DV í flokki fræðirita fyrir bókina Heiður og huggun: erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld.

Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Heiður og huggun er merkilegt rit um bókmenntagreinar sem voru vinsælar fyrr á öldum. Þórunn hefur með rannsókn sinni á erfi- og harmljóðum á 17. öld unnið brautryðjandastarf í íslenskum bókmenntarannsóknum. Verkið er afar yfirgripsmikið og í því birtast í fyrsta sinn á prenti textar sem varðveittir eru í handritum. Rannsóknin er ýtarleg og Þórunn leggur áherslu á tengsl bókmennta og samfélags og gefur innsýn í hugsunarhátt og menningarheim 17. aldar og ber saman við hugmyndir okkar tíma. Afar vandað fræðirit og þarft innlegg í íslenskar bókmenntarannsóknir.“

Mörg ljóð prentuð í fyrsta skipti

Dr. Þórunn Sigurðardóttir er bókmenntafræðingur sem hefur um árabil stundað rannsóknir á bókmenntum síðari alda auk þess að starfa við handritaskráningu og útgáfu texta úr handritum. Lengst hefur hún starfað á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, bæði sem starfsmaður stofnunarinnar í ýmsum verkefnum og sem gestafræðimaður.

Þórunn segir að bókmenntir 17. og 18. aldarinnar hafi verið furðulega lítið rannsakaðar – enda hafi almennt verið álitið að þar fyrirfyndist aðallega fábreyttur trúarlegur kveðskapur undir miklum áhrifum erlendis frá. Hún segir að tímabilið hafi þó að mörgu leyti verið frjótt og áhugavert.

Við rannsóknina fór Þórunn í gegnum mikið magn handrita að leita uppi tækifæriskvæði tengd andláti einstaklinga. Mikið af slíkum ljóðum er því prentað í fyrsta skipti í bókinni.

Gaman að fólk sýni 17. öldinni áhuga

Í bókinni setur Þórunn ljóðin enn fremur í samhengi við samfélag þess tíma og tíðarandann sem þau eru samin í.

Í rannsókninni voru kvæði ort eftir andlát samtímamanna skáldanna flokkuð í þrjár bókmenntagreinar, og skiptir máli fyrir lestur og túlkun einstakra kvæða við hvaða kvæðagrein miðað er. „Erfiljóð voru ort til heiðurs hinum látna og fjölskyldu hans, en í þeim er sagt frá lífi hins látna í þriðju persónu frásögn. Minna þessi kvæði um margt á minningargreinar í dagblöðum í dag,“ segir Þórunn.

„Harmljóð eru aftur á móti í fyrstu persónu. Í þeim talar ljóðmælandi um sinn eigin ástvinamissi, harm sinn og söknuð, en kvæðin enda jafnan í sátt. Líkja mætti þessari kvæðagrein við sálfræðimeðferð í nútímanum. Syrgjendur fá tæki (texta í bundnu máli) til að nota í sorgarferli sínu. Í þriðja lagi eru það svo huggunarkvæði þar sem ljóðmælandi ávarpar ákveðna syrgjendur og mælir til þeirra huggunarorðum.“

Þórunn segist vonast til að þessum bókmenntagreinum og tímabilinu verði gefinn meiri gaumur þegar íslensk bókmenntasaga er skoðuð í framtíðinni.

Bókin var tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis og hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Hún segist upp með sér að hljóta verðlaunin, og þakklát fyrir að fólk sýni bók um 17. aldar kveðskap slíkan áhuga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Helga spurði Jón Gnarr óvæntrar spurningar sem vakti kátínu

Helga spurði Jón Gnarr óvæntrar spurningar sem vakti kátínu
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Er Stórfótur raunverulegur og hvers vegna nær enginn að fanga hann á góðri mynd?

Er Stórfótur raunverulegur og hvers vegna nær enginn að fanga hann á góðri mynd?
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Arteta skilur lítið í fréttunum – „Veit ekki hvaðan þær koma“

Arteta skilur lítið í fréttunum – „Veit ekki hvaðan þær koma“
Eyjan
Fyrir 13 klukkutímum

Sex milljóna stjórnendadegi borgarinnar lauk með móttöku í boði borgarstjóra

Sex milljóna stjórnendadegi borgarinnar lauk með móttöku í boði borgarstjóra
Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

Katrín og Vilhjálmur að „ganga í gegnum helvíti“

Katrín og Vilhjálmur að „ganga í gegnum helvíti“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Neðri deildir karla rúlla af stað um helgina

Neðri deildir karla rúlla af stað um helgina
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Fyrrum markvörður Arsenal á leið til Chelsea?

Fyrrum markvörður Arsenal á leið til Chelsea?
Eyjan
Fyrir 18 klukkutímum

Halla Hrund með góða forystu í nýrri könnun

Halla Hrund með góða forystu í nýrri könnun