Þorleifur Örn Arnarsson Aðalheiður S. Eysteinsdóttir myndlistarkona hlýtur Menningarverðlaun DV fyrir leikstjórin Njálu
Það var Þorleifur Örn Arnarsson sem hlaut menningarverðlaun DV 2015 í flokki leiklistar fyrir leikstjórn Njálu í Borgarleikhúsinu, en verkið er byggt á handriti sem hann samdi ásamt Mikael Torfasyni.
Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Verkið er saman sett úr nokkrum sjálfstæðum en samhangandi þáttum sem blanda saman leik, dansi, söng og húskarlavígum á rappbardagaformi sem allt myndar eina listilega kóreógraferaða heild, þar sem hvort tveggja skiptir jafn miklu máli: gáskafullur leikurinn að miðaldaritinu og virðingin fyrir því. Ekki síður eiga leikararnir allir sinn hlut í því hversu áhrifamikil Njála er, líka búningahönnuðurinn Sunneva Ása Weisshappel, leikmyndahönnuðurinn Ilmur Stefánsdóttir og danshöfundurinn Erna Ómarsdóttir. Krefjandi verk hefur verið að halda öllu þessu stórvirki saman og þar á Þorleifur Örn mestan heiður.“
Þorleifur Örn er staddur í langþráðu fríi á Balí í Indónesíu en sendi Kristínu Eysteinsdóttur, leikhússtjóra Borgarleikhússins, til að taka við verðlaununum fyrir hans hönd og lesa upp ræðu. Í ræðunni lagði Þorleifur áherslu á mikilvægi listarinnar sem vettvangs til þess að vera og hugsa um hvað í því felst að vera manneskja.
„Þegar við lögðum af stað í ferðalagið að setja þetta stórvirki íslenskra bókmennta á svið, þá var helsta hugsunin sú, að leita uppi hvað þetta verk þýðir fyrir nútíma Íslendinga, hvað leyndist í þessum gamla merka texta. Ekki að búa til „sýningu“ eða leita uppi „frumlegustu nálgunina“ til þess að koma henni á framfæri, heldur að leggja í raunverulega rannsókn á því hvað þetta verk er – og með því kannski komast aðeins nær kjarnanum í okkur sjálfum,“ skrifaði Þorleifur í ræðunni og bætti við hann hefði aldrei lagt út í uppsetningu vitandi minna um hvernig sýningin myndi líta út þegar upp væri staðið.
„Því þó svo það væri betra fyrir taugarnar – þá er það svindl ef maður ákveður niðurstöðu rannsóknarinnar áður en lagt er í hana. Ég reyndi að stilla ferlinu þannig upp að það endurspeglaði þá rannsókn sem lá til grundvallar vinnunni, að niðurstaðan viki fyrir rannsókninni (sem er líklega það skelfilegasta sem maður getur lagt á sig sem leikstjóri) og að sýningin yrði að lokum niðurstaða þessarar sameiginlegu rannsóknar þeirra sem að verkinu komu. Ekki niðurstaða minnar rannsóknar, heldur yrði leikhúsið í þessu tilfelli eins og smækkuð samfélagsleg tilraun í kringum þetta höfuðverk okkar Íslendinga,“ sagði í ræðunni.
Að lokum þakkaði hann öllum þeim sem komu að sýningunni og tileinkaði þeim verðlaunin, en þakkaði umfram allt leikhússtjóranum (og upplesaranum) Kristínu Eysteinsdóttur og bað alla viðstadda að klappa fyrir henni og Borgarleikhúsinu. Hann sagðist vonast til þess að viðurkenningin yrði hvatning til þeirra sem trúa á leikhúsið sem miðstöð rannsókna og framfara – fyrir manninn og samfélagið. „Leikhúsið er staður mannsandans og sálarinnar. Það er erfitt hlutskipti á tímum gegndarlausrar efnishyggju. Og ef leikhúsið gleymir því að það er fyrst og fremst staður rannsókna um manninn og tilurð hans, þá mun það hægt og rólega deyja út og verða tómlegur kassi utan um sprell og spaug,“ sagði í ræðunni.