fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024

Ég er stolt af því að vera konan hans eins og hann er stoltur af því að vera maðurinn minn

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 6. júní 2020 07:00

„Ég er líka frumkvöðull, blaðamaður og rithöfundur, móðir og innflytjandi," segir Eliza Reid. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eliza Reid tók þá ákvörðun að vera virk í hlutverki sínu. Maki forseta Íslands er ekki á launaskrá hjá embættinu og hefur engum skilgreindum skyldum að gegna.

Þetta viðtal birtist í síðasta helgarblaði DV og er hér aðgengilegt í heild sinni.

„Rödd mín hefur alltaf verið sterk. Það er kannski ákveðin kaldhæðni fólgin í því að hún fær nú að hljóma víðar vegna árangurs sem maðurinn minn hefur náð. Ég ákvað hins vegar að nýta mér það púlt sem ég hef fengið. Það er ekki aðalatriðið hvernig ég komst hingað, heldur hvað ég geri meðan ég er hérna,“ segir Eliza Reid. Hún er eiginkona Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, en hún er líka svo margt annað, og var þegar orðin svo margt annað áður en Guðni var kjörinn forseti fyrir fjórum árum.

„Ég er stolt af því að vera konan hans, eins og hann er stoltur af því að vera maðurinn minn. Það getur þó verið skrýtið að vera stundum helst þekkt fyrir að vera eiginkona einhvers. En eins og flestir Íslendingar er ég með marga hatta. Ég er líka frumkvöðull, blaðamaður og rithöfundur, móðir og innflytjandi. Ég er Eliza.“

Hvíta dragtin táknræn

„Að vera femínisti þýðir fyrir mig að styðja jafnréttismál og jafnrétti allra kynja.“
Mynd/Valli

Engar reglur eru til um hlutverk maka forseta Íslands en Eliza ákvað fljótt að vera virk, vera sýnileg og leyfa rödd sinni að heyrast, með kanadíska hreimnum. Það er varla tilviljun að hún tekur á móti blaðamanni og ljósmyndara á Bessastöðum í hvítri dragt, þeirri sömu og hún klæddist þegar Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, var hér í opinberri heimsókn á síðasta ári. Eliza tjáði sig aldrei um ástæðu þess að hún klæddist þá hvítri dragt en dragtin fangaði sannarlega athygli fjölmiðla, sem bentu á að fyrr á árinu hefðu bandarískar þingkonur fjölmennt á þingpallana íklæddar hvítum drögtum til heiðurs konum sem barist hafa fyrir kvenfrelsi og jafnrétti. Það var í þessari sömu heimsókn Pence sem regnbogafánar voru dregnir að húni víða í nágrenni Höfða en kvenfrelsi og réttindi hinsegin fólks hafa ekki verið hátt skrifuð hjá varaforsetanum bandaríska. Bæði Eliza og Guðni báru regnbogaarmband þegar þau hittu Pence en Guðni ber alltaf þetta armband ásamt armbandi frá Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Rekur enn eigið fyrirtæki

Eliza Reid fæddist í Kanada árið 1976 og er alin upp í útjaðri Ottawa ásamt tveimur bræðrum þar sem fjölskyldan hélt hænur, endur og íslenskar kindur. Hún lauk gráðu í alþjóðasamskiptum frá Torontoháskóla en kynntist Guðna þegar þau voru við nám í Oxford-háskóla á Englandi, þaðan sem hún lauk meistaragráðu í nútímasögu. Bæði voru þau í róðrarliðinu og renndi hún hýru auga til hans, en fyrsta stefnumótið kom til eftir happdrætti sem var hluti af fjáröflun róðrarliðs Guðna. Síðan varð ekki aftur snúið og Eliza flutti með honum til Íslands árið 2003. Um tíma var Eliza ritstjóri flugtímarits Icelandair og blaðamaður hjá Iceland Review. Áður en hún varð forsetafrú kom oft fyrir að erlendir fjölmiðlar leituðu til hennar vegna frétta sem tengdust Íslandi. Hún er annar stofnenda Iceland Writers Retreat, ritlistarbúða fyrir rithöfunda alls staðar að úr heiminum, sem koma hingað til að sækja námskeið í skrifum en einnig kynnast sögueyjunni Íslandi. Fyrirtækið var á lista áhugaverðustu sprotafyrirtækja landsins hjá Frjálsri verslun sama ár og Eliza flutti á Bessastaði.

„Ég hef haldið rekstrinum áfram með óbreyttu sniði síðustu ár. Stundum hefur það komið þátttakendum á óvart þegar þeir komast að því að forsetafrúin sé að útdeila nafnspjöldum og upplýsingabæklingum. Þetta er gefandi og skemmtilegt starf sem ég mun sannarlega sinna áfram,“ segir Eliza. COVID-19 hefur þó sett sitt strik í reikninginn varðandi ritlistarbúðirnar í ár, sem halda átti í apríl en nú er í skoðun að halda þær í haust.

Glöggt er gests augað

Í október á síðasta ári var tilkynnt að Íslandsstofa hefði gengið frá samkomulagi við Elizu um að hún verði talsmaður Íslandsstofu á völdum viðburðum árlega erlendis og vinni með stofunni að kynningu á íslensku atvinnulífi gagnvart fjölmiðlum og samstarfsaðilum íslenskra fyrirtækja. Þetta kom illa við suma sem fannst ekki við hæfi að forsetafrú tæki að sér launað starf þar sem hún hefði nú feikinóg að gera við að fylgja eiginmanninum í hans störfum. Eliza segir að þau viðbrögð sem hún persónulega hafi fengið vegna þessa hafi verið mjög jákvæð. „Ég hef auðvitað sinnt mínum starfsferli síðan löngu áður en Guðni varð forseti og rek mitt eigið fyrirtæki,“ segir hún og vísar þar til Iceland Writers Retreat.

„Mér finnst mjög skemmtilegt að vinna fyrir Íslandsstofu. Ég hafði fyrir mikla reynslu af því að kynna Ísland á erlendum vettvangi og ég held að það sé kostur í þessu starfi að ég sé af erlendum uppruna því eins og menn segja, glöggt er gests augað. Nú er mikilvægara en oft áður að kynna Ísland sem land tækifæranna og land framtíðarinnar. Ég er ekki talsmaður einstakra fyrirtækja heldur snýst þetta um að vera talsmaður fyrir Ísland, því velmegun okkar byggir á útflutningi vara, hugvits og menningar. En ég fer líka líka enn í opinberar heimsóknir með Guðna hérlendis og erlendis, er verndari fjölda samtaka hér á landi, flyt fjölmörg ávörp og sæki fjölmarga viðburði. Ég sinni þessum sjálfboðaverkefnum áfram þó ég bæti þessu verkefni við,“ segir hún.

„Ég hef auðvitað sinnt mínum starfsferli síðan löngu áður en Guðni varð forseti.“
Mynd/Valli

Alzheimersamtökin, Samtök lungnasjúklinga, SOS barnaþorp, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Pieta-samtökin og kokkalandsliðið eru dæmi um samtök þar sem hún er verndari. Árið 2017 var hún útnefnd sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna fyrir ferðamennsku og sjálfbærnimarkmið.

Mín ákvörðun að vera sýnileg

Spurð hverju hún sé stoltust af á þeim fjórum árum sem hún hefur verið forsetafrú segir Eliza að það sé þáttur hennar í að móta það óskilgreinda hlutverk sem maki forseta hefur. „Þar sem ég er kvenkyns maki hefur mér fundist mikilvægt að sýna að ég er ekki skraut mannsins míns heldur kona með mína eigin rödd og eigin skoðanir sem vill gera samfélaginu gagn. Auðvitað er mikill heiður og forréttindi að gegna þessu hlutverki, og fyrir það er ég mjög þakklát. Fyrri makar forseta hafa allir verið kvenkyns og staðið sig afar vel í sínu hlutverki. Það er ekki til nein handbók um hlutverk maka forseta og sem slíkur er ég ekki skuldbundin til að gera neitt. Það var mín ákvörðun að vera sýnileg og ég reyni að gera mitt besta á hverjum degi. Mér finnst mikilvægt að ef þjóðhöfðingi á maka, sem að sjálfsögðu er ekki nauðsynlegt, þá geti makinn sjálfur tekið ákvarðanir um verkefni sín. Þegar við förum saman í opinberar heimsóknir og Guðni fer á sína fundi þá fer ég á mína fundi þar sem ég ræði mál sem skipta mig máli. Ég myndi aldrei vilja skilgreina þetta hlutverk fyrir maka komandi forseta en fyrir mig var mikilvægt að hafa þennan valkost.“

Eliza hefur haldið rekstri eigin fyrirtækis með óbreyttu sniði síðustu ár.
Mynd/Valli

Aðspurð hvort það sé eitthvað sem hún sjái eftir á þessum fjórum árum á Bessastöðum segist Eliza almennt vera jákvæð manneskja sem kjósi frekar að læra af mistökum en að dvelja við þau. „Við gerum öll mistök og ég trúi því að þá reynum við að vera heiðarleg, biðjumst afsökunar á mistökum okkar og drögum af þeim lærdóm. Þannig vil ég lifa mínu lífi,“ segir hún.

Hvar er konan þín?

Mikla athygli vakti grein eftir Elizu sem birtist í The New York Times í fyrra þar sem hún fjallaði um hlutverk sitt sem forsetafrú og skrifaði meðal annars: „Ég er ekki handtaska mannsins míns, sem má grípa í þegar hann hleypur út um dyrnar og stilla á upp hljóðlega við hlið hans við opinbera viðburði.“ Aðdragandi greinarskrifanna var meðal annars óvænt upplifun hennar á einstaka viðburðum sem hún hefur sótt með Guðna. „Þegar ég hitti fólk í fyrsta skipti finn ég strax hvort það sér mig sem manneskju eða hvort það sér mig sem eiginkonu mannsins míns. Það hefur komið upp að Guðna hefur verið boðið á viðburð og fólk spyr hann undrandi af hverju konan hans sé ekki með. Eins og ég skrifaði þá er ég ekki handtaska sem hann dregur með sér. Ef mér er ekki boðið þá mæti ég auðvitað ekki. Ég er ekki til skrauts.“

Stolt af auðmýkt Guðna

Eliza hefur lýst því yfir að hún sé femínisti og henni finnst mikilvægt að á Bessastöðum sé fólk sem finnst jafnrétti mikilvægt. „Í raun er alveg sama hvaða orð fólk notar yfir það. Að vera femínisti þýðir fyrir mig að styðja jafnréttismál og jafnrétti allra kynja. Mér finnst frábært ef ég hef náð að hvetja einhverjar konur til að láta rödd sína heyrast. Karlmenn þurfa líka að losna úr viðjum staðalímynda og þeir eiga að fá rými til að sýna tilfinningar. Það er ekki til fyrirmyndar þegar aðalgildi karlmennskunnar er að vera sterkur. Sem móðir þriggja drengja er ég mjög meðvituð um kynjuð gildi. Ég verð hvað stoltust af Guðna þegar hann sýnir auðmýkt, sem er mikilvægur eiginleiki. Allt er þetta hluti af jafnréttisbaráttunni.“

Hlífa börnunum við kastljósinu

„Nú ræður almenningur.“
Mynd/Valli

Saman eiga Eliza og Guðni fjögur börn, Duncan Tindur er 13 ára, Donald Gunnar er 11 ára, Sæþór Peter er 9 ára og Edda Margrét er 7 ára. Þá á Guðni dótturina Rut með fyrri eiginkonu sinni, Elínu Haraldsdóttur. Spurð hvernig þau hjónin hafi útskýrt kosningabaráttuna fyrir yngri börnunum og að útkoma kosninga hafi mikil áhrif á daglegt líf fjölskyldunnar, segir Eliza að börnin hafi alltaf verið upplýst um að pabbi þeirra hafi aðeins verið kjörinn til fjögurra ára. „Við höfum útskýrt að kjörtímabil sé í fjögur ár og síðan sé hægt að bjóða sig fram aftur. Það sé hins vegar í höndum fólksins í landinu sem ákveður hvern það vill hafa sem þjóðhöfðingja. Þetta sé því ekki okkar ákvörðun. Við höfum haldið uppi jákvæðri umræðu um mikilvægi lýðræðisins þannig að kosningarnar eru ekkert sem kemur þeim á óvart.“

Hún tekur fram að þau vilji almennt hlífa börnunum við opinberu kastljósi. „Þau fóru aldrei í framboð og eiga rétt á sínu einkalífi,“ segir hún. Eliza tekur þó fram að fjölskyldan njóti þess mikið að fara saman í sund og þegar þau ferðist saman innanlands reyni þau alltaf að heimsækja sundlaugarnar. Á ferðalögum um landið hlusta þau síðan saman á tónveituna Spotify þar sem allir hafa lagt í púkk fyrir einn stóran spilunarlista. „Ég nýt þess alltaf að ferðast um Ísland. Ég hef fengið tækifæri til ferðalaga sem forsetafrú en ég ferðaðist líka mikið um landið þegar ég var blaðamaður hjá Iceland Review. Það er kannski orðin hálfgerð klisja en Ísland er svo afskaplega fallegt land. Það kemur mér sífellt á óvart,“ segir hún.

Hlakkar til kosningabaráttunnar

Kosningabaráttan nú markar ákveðin tímamót en Eliza segir að kjörtímabilið hafi verið fjótt að líða. „Ég á afar góðar minningar frá kosningabaráttunni 2016. Það er ákveðið ævintýri að taka þátt í framboði og virkilega gefandi að hitta fólk um allt land. Ég hlakka mikið til. Aðstæður í samfélaginu eru þó ólíkar nú og kosningabarátta smærri í sniðum. Ég held að flestir viti hvað við Guðni stöndum fyrir. Við viljum gjarnan halda starfinu áfram og þess vegna býður Guðni sig fram á ný. Við getum öll verið þakklát fyrir að búa í lýðræðissamfélagi og við það tækifæri sem forsetakosningar veita. Nú ræður almenningur. Við höfum gert okkar besta, verið jákvæð og heiðarleg, og verðum sátt við niðurstöðuna hver sem hún verður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum
Hvalur sprakk í tætlur
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Truflar KR-inga ekkert að spila í Laugardalnum – „Fyrstu tveir leikirnir hafa bara verið heimaleikir“

Truflar KR-inga ekkert að spila í Laugardalnum – „Fyrstu tveir leikirnir hafa bara verið heimaleikir“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Rúnar Már mættur í ÍA

Rúnar Már mættur í ÍA
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Voru gapandi hissa yfir sjónvarpinu í vikunni – „Ég veit ekki hvað fer í gegnum hausinn á þér“

Voru gapandi hissa yfir sjónvarpinu í vikunni – „Ég veit ekki hvað fer í gegnum hausinn á þér“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Spáin fyrir Bestu deild kvenna – „Ég myndi segja að það sé eina sjokkið“

Spáin fyrir Bestu deild kvenna – „Ég myndi segja að það sé eina sjokkið“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Tveir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni á blaði hjá Arsenal

Tveir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni á blaði hjá Arsenal
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Stöð 2 lækkar verð

Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?