Sunnudagur 23.febrúar 2020
Fókus

Féll aftur sama kvöld og vinkona hennar fyrirfór sér á Vogi

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 12. ágúst 2018 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um 25 ungmenni hafa látist í ár vegna eiturlyfjaneyslu samkvæmt upplýsingum frá Landlækni, neyslumynstur ungmenna er að breytast og auðvelt er fyrir ungmenni að ná sér í lyf og fíkniefni í gegnum samfélagsmiðla og snjallsíma. Staðalímyndin um hinn dæmigerða fíkniefnaneytanda er líka breytt, auk þess sem leitarbeiðnir og nauðungarvistun barna og unglinga í vanda er að aukast.

Blaðamaður DV ræddi við mæður barna sem fallin eru frá langt fyrir aldur fram vegna neyslu á lyfseðilsskyldum lyfjum, móður ungs manns sem fannst látinn eftir að hafa verið neitað um hjálp á geðdeild, bróður ungs manns sem framdi sjálfsvíg eftir langvarandi neyslu, og Guðmund Fylkisson lögreglumann sem finnur „Týndu börnin“ og færir þau heim.

Þetta er hluti af stærri umfjöllun í DV.

Alma Maureen Vinson 07.10.1998–03.10.2014 „Aldrei í lífinu hélt ég að ég ætti eftir að gera þetta, að sitja heima með tárin í augunum að skrifa minningargrein um dóttur mína. Elsku litli fallegi engill, það eru engin orð sem fá því lýst hversu mikið við söknum þín. Núna er allt svo hljótt, enginn söngur úr herberginu þínu, enginn gítarleikur, og ekkert verið að kalla á mömmu sína til að biðja hana um að koma með eitthvað. Að koma að barninu sínu látnu í rúminu sínu er ekki það sem nokkur getur hugsað sér að eiga von á, við stóðum hérna agndofa, ég og bróðir hennar, skelfingin var svakaleg. Af hverju þú sofnaðir svefninum langa fáum við ekki að vita strax en sjálfsagt er ekki hægt að kveðja þetta líf á fallegri máta. Lífið hafði ekki alltaf verið dans á rósum en þú gerðir allt sem þú gast til að halda þínu striki. Framtíðarplönin voru alveg á hreinu, að klára skólann með sálfræði og félagsfræði sem aðalfög, stofna svo meðferðarheimili fyrir börn sem hafa lent í vandræðum, því þú vildir ekki að neinn þyrfti að ganga í gegnum það sem þú varst búin að gera.“ Úr minningargrein Hildar móður og Stefáns bróðir Ölmu.

Alma Maureen Vinson lést í október árið 2014 eftir að hafa tekið inn of stóran skammt af morfínlyfinu Contalgin. Hún var þá aðeins 15 ára gömul og var búin að vera í neyslu í þrjú ár. Hildur Hólmfríður Pálsdóttir móðir hennar hefur gagnrýnt úrræðaleysi í samfélaginu gagnvart ungmennum í sömu stöðu og dóttir hennar var í og telur fræðslu í skólum ábótavant og að hún þurfi að byrja mun fyrr, jafnvel um 12 ára aldur.

Fyrir andlát hennar var Alma nýbyrjuð í vinnu og búin að skrá sig í Fjölbraut í Ármúla, en hætti fljótlega. Alma var búin að fara nokkrum sinnum inn á Vog, hún er með þeim yngstu sem hafa farið þangað, en hún var 13 ára þegar hún fór í fyrsta sinn. „Þegar hún var 14 ára þar í meðferð þá neitaði hún að vera þar lengur og ég fékk símtal um að sækja hana og ég spurði hvort hún gæti bara ráðið því 14 ára.

Alma kláraði síðustu meðferð sína þremur vikum fyrir andlát sitt,“ segir Hildur: „Það var búið að lofa henni plássi á Vík en hún var svikin um það. Hún var svo mikill fíkill að ég held að meðferð þar hefði bara lengt líf hennar, ég  hugsa að hún hefði engu að síður farið svona. Alma kom út af Vogi sama kvöld og önnur ung stúlka fyrirfór sér þar. Andlát hennar fréttist strax í undirheimunum og Alma fór klukkutíma síðar, keypti sér efni og féll.“

Eftir andlát dóttur sinnar hefur Hildur boðið skólum upp á fræðslu, en hún segir nánast enga fræðslu í boði fyrir utan Maritafræðsluna, en hún segir þá fræðslu ólíka sinni. Hún ætlar að halda áfram að bjóða upp á fræðsluna í vetur. „Ég mæti með fyrirlestur, glærur og myndir og sýni myndir af kistunni með þeim orðum að svona geti þetta endað. Ég vil helst hafa lítinn hóp, mesta lagi 1–2 bekki. Krakkarnir spyrja margra spurninga. Ég var beðin um að gera fyrirlestur fyrir foreldra líka og þá hugsaði ég hann út frá því sem ég hefði viljað vita, ég er með myndir af augum, hvernig þau líta út þegar barnið er í neyslu. Einnig nefni ég atriði eins og það að matskeiðar fóru að hverfa, ég taldi að þær hefðu bara týnst, en þá var Alma að nota þær í neyslunni.

Vinir Ölmu hafa sumir hætt í neyslu, nokkrir eru látnir og aðrir eru enn í bullandi neyslu. „Ég er stundum hrædd á hverjum einasta degi um að einhver vinur hennar sé farinn.“

Aðstandendur ungmennanna sem fallið hafa frá langt fyrir aldur fram hafa valið að koma fram með myndir og sögur ástvina sinna, til að sýna að þau eru ekki bara tölur á blaði, heldur ungt og fallegt fólk sem var elskað af fjölskyldu og vinum. Mörg þeirra leituðu sér hjálpar sem ekki var í boði, sum eiga neyslusögu að baki meðan önnur fiktuðu bara einu sinni. Margir eiga um sárt að binda eftir andlát þeirra, en vilja eigi að síður koma fram opinberlega til að standa saman með öðrum aðstandendum, opna umræðuna og halda henni vakandi og knýja á um breytingar í fræðslu, forvörnum og meðferðarúrræðum.

Sjá einnig:  Lyfin hefðu sigrað hefði hann ekki svipt sig lífi.

Sjá einnig: Dóttir Kristínar lést langt fyrir aldur fram – Upplifði fordóma annarra hjá sjálfri sér.

Sjá einnig: Kom alls staðar að lokuðum dyrum þegar hann leitaði sér hjálpar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórkaupmaður selur höllina í Laugardalnum: „Versalir blikna í samanburði” – Sjáðu myndirnar

Stórkaupmaður selur höllina í Laugardalnum: „Versalir blikna í samanburði” – Sjáðu myndirnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona lítur hús bæjarstjórans fyrrverandi út – Guðmundur selur húsið því hann telur sér ekki vært lengur á Ísafirði

Svona lítur hús bæjarstjórans fyrrverandi út – Guðmundur selur húsið því hann telur sér ekki vært lengur á Ísafirði
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ágústa miður sín yfir viðbjóðslegum rasisma í Ikea: „Vá hvað þetta var ljót stelpa“

Ágústa miður sín yfir viðbjóðslegum rasisma í Ikea: „Vá hvað þetta var ljót stelpa“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Vikan á Instagram: „Ég baða mig í tárum óvina minna“

Vikan á Instagram: „Ég baða mig í tárum óvina minna“