fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Eyjólfur Kristjánsson: Stoltastur af að hafa ekki bugast

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 10. september 2018 20:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjólfur Kristjánsson, eða Eyfi eins og hann er gjarnan kallaður, var ein skærasta tónlistarstjarna Íslands á níunda og tíunda áratugnum þegar hann lék með Bítlavinafélaginu og söng fyrir Íslands hönd í Eurovision. Hann stendur núna á tímamótum og heldur stórtónleika Háskólabíói. Eyjólfur ræddi við DV um ferilinn, dekur í æsku, frægðina sem fór úr böndunum og gjaldþrotið í kjölfar bankahrunsins.

 

„Ég var að fatta að það eru þrjátíu ár síðan fyrsta sólóplatan kom út og ég varð að halda upp á það með einhverjum hætti,“ segir tónlistarmaðurinn Eyjólfur Kristjánsson sem heldur stórtónleika í Háskólabíói þann 13. október.

„Ég vildi frekar halda þetta í Háskólabíói en í Hörpu því að mér finnst betri hljómburður þar. Það skiptir engu máli hvar þú situr því þú sérð alltaf vel og hljóðið fyllir salinn. Ég ákvað að gera þetta svolítið grand fyrst ég var að þessu á annað borð. En ég er auðvitað að farast úr stressi og á kvöldin spái ég í hvað ég sé að kalla yfir mig.“

Á tónleikunum mun Eyfi flytja öll sín helstu lög af ferlinum, bæði sóló- og hljómsveitarferlinum. Sjö manna hljómsveit leikur undir, bakraddir úr Gospelkór Reykjavíkur og tíu manna strengjasveit taka einnig þátt. Auk þess taka fjölmargir gestasöngvarar lagið með honum, fólk sem hefur fylgt honum lengi, svo sem Stefán Hilmarsson, Björgvin Halldórsson og Bergþór Pálsson og leynigestir.

„Ég er tónleikamúsíkant og hef alltaf verið. Það besta sem ég hef gert á ferlinum er einmitt þær tvær tónleikaplötur sem ég hef gefið út. Mér líður best á sviði.“

Æskuheimilið við Sigluvog

Blár og marinn eftir Sigga Sveins

Eyjólfur er alinn upp í Vogahverfinu í Reykjavík og fæddur árið 1961 á heimili sínu í Sigluvogi.

„Ég kom svo hratt að móðir mín komst ekki á fæðingardeildina,“ segir Eyfi og hlær. „Ég fæddist í svefnherbergi foreldra minna.“

Eyjólfur var örverpið í fjölskyldunni, langyngstur af sex börnum hjónanna Kristjáns Björns Þorvaldssonar, stórkaupmanns og heildsala, og Guðnýjar Eyjólfsdóttur húsmóður. Fjárhagslega hafði fjölskyldan það ákaflega gott.

„Ég var náttúrlega hræðilegur krakki,“ segir Eyjólfur. „Algjör dekurrófa og örverpi. Það fer reyndar tvennum sögum af mér sem krakka. Annars vegar að ég hafi verið frekur og leiðinlegur og hins vegar að ég hafi verið frjór og skemmtilegur, enda hneigðist ég mjög snemma til tónlistar. Ég var látinn spila á píanó í partíum þegar ég var aðeins þriggja eða fjögurra ára gamall og gat á einhvern hátt klúðrað saman einhverju lagi. Ég var lengst heima af okkur systkinunum og flutti ekki að heiman fyrr en ég var 24 ára. Þess vegna var ég svolítill mömmustrákur. Hún kenndi mér ýmislegt sem hefur nýst seinna á lífsleiðinni. Við mamma leystum krossgátur saman og ég lærði góða íslensku af henni. Ég fékk alltaf tíu í einkunn í stafsetningu og þetta hefur nýst mér vel við gerð lagatexta.“

Ekki snerist þó allt um tónlist og Eyjólfur stundaði íþróttir af miklum móð, bæði knattspyrnu og handknattleik með Þrótti. Hann var í marki og segist hafa verið liðtækur, sérstaklega í handknattleik, og æfði með Sigurði Sveinssyni, síðar landsliðskempu. Eyjólfur segir:

„Siggi Sveins bjó á móti mér en var aðeins eldri en ég. Hann dinglaði alltaf bjöllunni heima og fékk mig með sér út í móa þar sem var handboltamark. Þar dúndraði Siggi á markið, andskoti fast auðvitað. Ég hræddist ekki fasta bolta þótt ég kæmi blár og marinn heim eftir æfingar. Ég held að ég hefði endað í landsliðinu hefði ég haldið áfram í markinu.“

 

Lærði á lífið í Kerlingarfjöllum

Eyfi spilaði boltaíþróttir með Þrótti upp í fjórða eða fimmta flokk en þá fór hann að hafa meiri áhuga á skíðum og átti hann eftir að starfa við skíðakennslu í mörg ár. Eyjólfur starfaði á skíðasvæðinu í Kerlingarfjöllum uppi á hálendi Íslands en þar var rekinn skíðaskóli í um 35 ár. Skólinn í Kerlingarfjöllum var mjög vinsæll, en starfsemin lagðist hins vegar af árið 2000.

„Það er mikil synd að þetta hafi hætt en það gerðist vegna þess að jöklarnir voru að bráðna. Það snjóar ekkert lengur þarna, nema rétt yfir veturinn. Áður fyrr hélt snjóþekjan sér yfir sumartímann.“

Hvað varst þú lengi þarna?

„Ég fór þangað fyrst í kringum 1966 með foreldrum mínum. Árið 1974, þegar ég var þrettán ára, fékk ég starf sem lyftustrákur og passaði upp á að fólk kæmist upp með lyftunni … og kæmi helst ekki niður með henni aftur,“ segir Eyjólfur og hlær. „Sautján ára, árið 1978, byrjaði ég svo að kenna á skíði og gerði það í ellefu eða tólf sumur.“

Hvernig voru þessi ár í Kerlingarfjöllum?

„Alveg frábær. Ég var þarna foreldralaus og það herti mig mikið. Ég gat ekki hlaupið til mömmu og það má segja að ég hafi lært á lífið þarna. Í Kerlingarfjöllum prófaði ég allt sem fólk prófar í fyrsta skipti.“

Eyjólfur segir að kvöldvökurnar og böllin í skíðaskálanum hafi orðið landsþekkt og mörg lög verið samin sérstaklega fyrir þau. Svokölluð Kerlingarfjallalög.

„Átján ára gamall steig ég þarna á svið í fyrsta skiptið og það var svolítið erfitt. Gestirnir voru yfirleitt um 120 talsins, stundum fullorðið fólk en svo vorum við líka með unglinganámskeið. Þetta tók á til að byrja með en vandist og gekk vel. Ég spilaði þarna svona brekkusöngslög og lét alla syngja með. Sigurður Þórarinsson samdi líka mikið af textum um Kerlingarfjöll við þekkt lög.“

„Hún var svo hrædd um mig og hélt að ég myndi drepa mig á þessu“

Fékk ekki að klára flugnámið

Eyjólfur lifði áhyggjulausri æsku framan af og hugsaði lítið um hvað hann vildi verða. Tíu ára gamall var hann sendur í sveit á Þórustaði í Ölfusi og þar lærði hann fyrstu gripin á gítar. Eyjólfur lýsir því eins og box Pandóru hafi verið opnað fyrir sér og að hann reyndist hafa hæfileika til að spila. Eftir að hafa fikrað sig áfram í fjögur ár ákvað hann að þetta yrði ævistarfið.

Varstu í einhverju bílskúrsbandi?

„Ég var í einu bílskúrsbandi sem kallaðist Texas Tríóið. Við voru þrír, tveir á gítar og einn á kontrabassa, og spiluðum kántrítónlist. Við komum fyrst fram á Óðali árið 1980 á viðburði sem kallaðist Stund í stiganum. Það var fyrsta giggið sem ég fékk borgað fyrir. Þetta var fyrir myntbreytingu þannig að ég er orðinn svo gamall að hafa fengið greitt í gömlum krónum,“ segir Eyfi og skellir upp úr.

Eyjólfur gekk í Menntaskólann í Reykjavík en þrátt fyrir að vera sleipur í íslensku þá átti bókin ekki við hann. Eftir fjögur og hálft ár hætti hann í skólanum og kláraði ekki stúdentsprófið. Hann segir að lítið hafi komist að í lífi hans annað en tónlistin og því innritaðist hann í tónlistarskóla FÍH og lærði á píanó. Það segir hann hafa hjálpað sér mikið við lagasmíðar.

Einn draumur sem ekki varð að veruleika var flugmennska. Eyjólfur segir:

„Þegar ég var í Kerlingarfjöllum komu þangað oft einkaflugmenn, voðalegir gæjar, og ég fékk stundum far með þeim heim í bæinn. Þá vaknaði þessi áhugi á fluginu en hann var fljótt skotinn niður. Ég byrjaði að læra flug, sautján eða átján ára, og keypti mér rándýrt flugtímakort. Þegar ég ætlaði að halda áfram þvertók móðir mín fyrir að pabbi gæfi mér fyrir fleiri tímum. Hún var svo hrædd um mig og hélt að ég myndi drepa mig á þessu. Ég átti ekki sjálfur fyrir fleiri tímum og gat þess vegna ekki haldið áfram.“

Var það svekkjandi?

„Já, það var svekkelsi, því að ég vildi halda áfram. Flugið átti ágætlega við mig og ég var fljótur að læra. Ég hef nú gripið í stýrið síðan þá og meira að segja flogið þyrlu upp á grínið fyrir sjónvarpsþátt. Oft hef ég spáð í að taka þetta upp aftur og ég gæti alveg flogið einn í dag. En maður hefur um annað að hugsa og er kannski kominn á aldur.“

 

Sveitaböll hjá Framsókn

Eyjólfur komst fyrst í sviðsljósið með hljómsveitinni Bítlavinafélaginu en hún varð til fyrir hálfgerða tilviljun. Jón Ólafsson var að leita að tónlistarmönnum til að spila undir í nemendamóti hjá Verzlunarskólanum og Eyjólfur var einn þeirra sem hann kallaði til. Jón þekkti Eyjólf úr þjóðlagasveitinni Hálft í hvoru sem hann var þá í.

„Við þekktumst ekki neitt. Hann hóaði í Harald Þorsteinsson, bassaleikara úr Brimkló, Rafn Jónsson heitinn úr Grafík, Stefán Hjörleifsson, vin sinn úr Verzlunarskólanum, og mig sem kassagítarleikara. Við hittumst og æfðum sixtíslög fyrir nemendamótið en það átti ekki að verða neitt meira úr þessu. Rétt fyrir mótið hringdi Guffi, Guðvarður Gíslason, sem rak Gauk á Stöng og spurði mig hvort ég væri ekki til í að setja saman John Lennon-dagskrá til að flytja á tónleikum. Ég spurði strákana hvort þeir væru til og þeir voru það en okkur vantaði söngvara. Þá ákváðum við að við Jón myndum skipta þessu á milli okkar því að við vorum skástu söngvararnir. Þetta sló svo í gegn og við ákváðum að halda áfram með þetta.“

Skömmu síðar fór Bítlavinafélagið í hljóðver og tók upp frumsamið lag, Þrisvar í viku, og frægðin fylgdi í kjölfarið. Nú var ekkert annað að gera en að gefa meira út og spila á böllum.

„Við áttum ekkert von á því að Þrisvar í viku yrði svona vinsælt. Ég var búinn að ráða mig upp í Kerlingarfjöll en gat ekki verið þar nema í örfáar vikur því mér var kippt burt og svo var túrað um landið.“

Hvernig kom það til að þið spiluðuð fyrir Framsóknarflokkinn árið 1987?

„Þetta var einhver hugmynd sem að framkvæmdastjóri flokksins fékk og þetta fékk heitið „Denni og Bítlavinafélagið.“ Steingrímur Hermannsson var kallaður Denni,“ segir Eyjólfur og hlær. „Ég man ekki hvort það voru margir Framsóknarmenn í Bítlavinafélaginu en þetta var tilboð sem við fengum og við slógum til og þetta var fjör. Steingrímur sjálfur var hrikalega skemmtilegur maður. Hann var settur í rúllukragapeysu eins og Bítlarnir og það voru teknar myndir af okkur saman. Það var kosningabarátta í gangi og við spiluðum á sveitaböllum þar sem Framsóknarflokkurinn var með framboðsfundi en auðvitað voru allir velkomnir, ekki bara Framsóknarmenn. Í eitt skiptið kom Denni upp á svið og tók lagið. Steingrímur gat alveg sungið og var oft uppi í Kerlingarfjöllum.“

Eftir þessar miklu vinsældir tók Bítlavinafélagið frí í næstum því heilt ár og Eyjólfur var þá farinn að huga að sólóferli. Árið 1988 var stórt á ferli hans en þá komu út tvær vinsælar plötur, 12 íslensk bítlalög með Bítlavinafélaginu og Dagar með honum sem sólólistamanni. Þetta sama ár var ekki síður viðburðaríkt á ferli annarra meðlima Bítlavinafélagsins því það ár stofnuðu þeir hljómsveitina Sálina hans Jóns míns. „Það var eins og við gætum ekki gert neitt rangt,“ segir Eyfi.

„Það versta við þetta var að maður var að svíkja aðra og það situr enn þá í manni“

Sér eftir kvennafarinu

Á þessum tíma voru Íslendingar nýbyrjaðir að taka þátt í Eurovision og flestir lagahöfundar sendu inn lög á hverju ári. Eyjólfur lét ekki sitt eftir liggja og sendi inn, bæði í Söngvakeppni Sjónvarpsins og Landslagið, keppni sem Stöð 2 og Bylgjan stóðu fyrir. Mörg af þekktustu lögum Eyjólfs voru framlög í þessar keppnir eins og til dæmis lagið Álfheiður Björk sem sigraði í Landslaginu árið 1990. Eyjólfur segist vera mikill keppnismaður en ferillinn hafi þó ekki snúist um þessar keppnir. Þetta var eitthvað sem allir gerðu til að koma sér á framfæri. Árið 1990 hætti Bítlavinafélagið, um sama leyti og frægð Eyjólfs var sem mest.

Hvernig átti frægðin við þig?

„Þetta var skrýtið til að byrja með, að eiga lög sem verða vinsæl og vera sífellt í sjónvarpinu. Ég átti mjög erfitt með það þegar stelpur voru farnar að koma upp að mér úti á götu og biðja um eiginhandaráritanir. Ég hef alltaf verið frekar alþýðlegur maður og var ekki að meðtaka þetta. En þetta steig mér líka til höfuðs og ég fór út af þessum gullna meðalvegi. Ég kom ekki vel fram við alla og gerði hluti sem ég sá síðar eftir.“

Hvernig þá?

„Ég var aldrei fyllibytta eða dópisti eða neitt svoleiðis en ég var allt of mikill kvennabósi og það finnst mér alveg skelfilega leiðinlegt að hugsa um í dag. Þá hélt ég að þetta líf ætti að vera svona.“

Misstir þú tökin?

„Svona hálfpartinn. Það versta við þetta var að maður var að svíkja aðra og það situr enn þá í manni.“

 

Jón rauk af sviðinu

Eyjólfur á margar minningar frá þessum tíma og kann sögur af skrautlegum uppákomum. Ein sú minnisstæðasta gerðist á balli hjá Bítlavinafélaginu. Hann segir:

„Á fyrstu verslunarmannahelginni sem Bítlavinafélagið spilaði vorum við í Skeljavík á Ströndum. Þá var brunagaddur og hafís í Steingrímsfirðinum. Við urðum að spila í dúnúlpum og gátum varla hreyft fingurna á gítarhálsinum.“

Annað ball hljómsveitarinnar var ekki síður eftirminnilegt.

„Við vorum allir með kærusturnar með okkur á einu ballinu. Þegar við vorum að flytja eitt lagið taldi Jón sig sjá kærustuna sína vera að kyssa einhvern gæja á dansgólfinu. Hann varð helvíti fúll en hélt áfram að spila. Þegar lagið var búið gekk hann frá hljómborðinu, rauk út á gólf og óð í parið en þá var þetta allt önnur kona sem svo óheppilega vildi til að var í alveg eins fatnaði og kærasta Jóns. Kærastan hans beið bak við sviðið í rólegheitunum,“ segir Eyjólfur og hlær. „Við hinir horfðum gáttaður á þetta gerast.“

 

Hafnaði ávallt tilboðum erlendis frá

Flestir myndu segja að stærsta stund Eyjólfs á ferlinum hafi verið þegar hann og Stefán Hilmarsson fluttu Draum um Nínu í Eurovision í Ítalíu árið 1991. Eyjólfur hefur margoft tekið þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins og er einn af þeim höfundum sem tóku þátt í fyrstu keppninni. Árið 1988 söng hann tvö lög í keppninni sem höfnuðu í öðru og þriðja sæti.

„Árið 1989 flutti Bítlavinafélagið lagið Alpatvist eftir Geirmund Valtýsson í keppninni. Einn mjög góður vinur minn sagði mér fyrir keppnina að ef lagið myndi vinna þá myndi hann afsala sér íslenskum ríkisborgararétti,“ segir Eyfi kíminn.

Vinningslagið, Draumur um Nínu, var fyrsta lagið sem Eyjólfur samdi sérstaklega fyrir keppnina og hafði Stefán í huga sem mótsöngvara. Stefán var nú nokkuð tregur til þar sem hann var kominn á kaf í Sálina hans Jóns míns á þessum tíma en lét til leiðast.

Stefán og Eyfi fluttu lagið í Cinecitta-kvikmyndaverinu þar sem Eurovision-keppnin var haldin. Þar voru spaghettívestrarnir teknir upp á sínum tíma og uppi héngu stórar myndir af Clint Eastwood og leikstjóranum Sergio Leone. Eyjólfur valdi hópinn sjálfur og segist aðeins hafa tekið skemmtilegasta fólkið með sér, það er sem gat haldið lagi, Evu Ásrúnu, Ernu Þórarinsdóttur, Richard Scobie og Jón Ólafsson.

„Á þeim tíma var allt flutt á staðnum en ekki spilað af bandi eins og í dag. Jón fékk það hlutverk að útsetja lagið fyrir áttatíu manna hljómsveit. Þetta voru fýldir klassískir gæjar sem höfðu ekki gaman af því að spila popp en Jón var eini stjórnandinn sem fékk þá til að brosa. Alltaf þegar hann bauð þeim góðan dag fyrir æfingar þá sagði hann ekki bon giorno heldur bon pornó og gömlu karlarnir á fiðlunum skelltu upp úr,“ segir Eyjólfur og brosir breitt.

Varstu stressaður fyrir útsendinguna?

„Nei, ég var ekki stressaður. Við æfðum svo rosalega vel áður við fórum út að við hefðum getað flutt lagið sofandi. Þegar ég horfi á þetta í dag á Youtube sé ég að þetta er algerlega hnökralaus frammistaða, þótt ég segi sjálfur frá.“

Hugsaðir þú einhvern tímann um að reyna að „meikaða“ erlendis?

„Nei, aldrei nokkurn tímann. Ég hef fengið mörg tilboð um að syngja á ensku en hef aldrei haft neinn áhuga á því. Mig langar aðeins að vera hér heima á Íslandi.“

„Við ákváðum að hætta borga en við vorum ekki blönk“

Stökkbreytt lán og gjaldþrot

Eyjólfur hefur áður sagt frá fjárhagserfiðleikum í viðtölum og árið 2015 lenti hann í gjaldþroti. Það var vegna húsnæðisláns sem rauk upp úr öllu valdi í kjölfar bankahrunsins árið 2008. Eyjólfur segir þetta þó ekki hafa verið eins slæmt og margir halda.

„Ég var svo óheppinn að hafa ekki tekið erlent lán fyrir hrunið, heldur tók ég venjulegt íslenskt verðtryggt lán. Þetta stökkbreyttist í hruninu og það var alveg sama hvað maður borgaði inn á þetta, það hækkaði stöðugt. Ég hefði getað haldið áfram að borga en vildi það ekki því þetta var eins og að vera í fangelsi. Af því að við konan mín skulduðum engum úti í bæ heldur aðeins bönkunum, sem fóru kollhnís í hruninu, þá létum við þetta bara gossa. Húsið fór og við byrjuðum upp á nýtt og okkur hefur aldrei liðið betur.“

Varstu reiður út í bankana og stjórnvöld eftir hrunið?

„Kannski ekki reiður, heldur frekar svolítið argur. Það var ótrúlegt hvað stjórnendur bankanna föllnu létu út úr sér eftir hrunið og að sjá hrokann í þeim. Eftir að fjölda margir höfðu misst allar sínar eigur og sumir höfðu svipt sig lífi.“

Mættir þú á mótmæli?

„Nei, það gerði ég aldrei. Ég skrifaði kannski einhverjar færslur á Facebook en stillti mig alltaf og málið er að þessi tíu ár eftir hrunið hafa líklega verið mín bestu ár. Við ákváðum að hætta borga en við vorum ekki blönk.“

Eyjólfur segir að bankarnir hafi fengið sitt og vel það þrátt fyrir þetta.

„Þetta var 42 milljóna króna lán og við borguðum 12 milljónir inn á það á sex árum. Húsið sem þeir fengu var metið á 60 milljónir. Lánið var komið upp í 70 eða 80 milljónir þegar við ákváðum þetta og þegar gjaldþrotið varð var skuldin komin upp í 114 milljónir. Þetta var tómt rugl og lítið annað að gera en að hlæja að þessu,“ segir Eyjólfur.

„Fólk vill hafa bjartara bros og það er ekkert að því“

Tannhvíttun og nýtt lag

Eyfi hefur vakið nokkra athygli undanfarið fyrir nýtt starf sitt við tannhvíttun. Eiginkona hans, Sandra Lárusdóttir, rekur vinsæla meðferðarstofu í Kópavogi sem ber nafnið Heilsa og útlit. Hún hafði verið með það í maganum að bæta tannhvíttun í flóruna en vantaði starfsmann og spurði Eyjólf hvort hann vildi taka það að sér.

„Mér fannst þetta svolítið fríkuð hugmynd en ákvað að slá til. Þetta sýnir hversu lífið er síbreytilegt og skemmtilegt. Ég fór til Englands og lærði þessi fræði og útskrifaðist með diplóma sem tannhvíttunarfræðingur,“ segir Eyjólfur glaður í bragði. „Síðan þá hef ég starfað við þetta og líkar vel. Það er nóg að gera í þessum bransa.“

Er þetta einhvers konar æði hjá landanum?

„Ég veit það ekki en fólk vill hafa bjartara bros og það er ekkert að því. Við erum ekki með sterk efni og það er ekkert hættulegt við þetta. Í náminu var lögð mikil áhersla á hreinlæti og þess vegna klæðist ég hvítum slopp við þetta. Ég er samt enginn tannlæknir,“ segir Eyjólfur kátur.

Verða tónleikarnir í Háskólabíói kveðjutónleikar?

„Alls ekki. Langflestir tónleikarnir sem ég kem fram á eru í óauglýstum einkasamkvæmum og ég kem sjaldnast fram þar sem hver sem er getur mætt. Ég er meira að segja að senda frá mér nýtt lag sem kemur út á næstu dögum á safnplötu og þarf að rjúka núna beint í hljóðver til að taka upp.“

Hverju ertu stoltastur af?

„Að ná fótfestu í lífinu og bugast ekki. Það er ýmislegt sem ég hefði viljað getað gert öðruvísi ef ég fengi að lifa aftur upp á nýtt. Þessi tími þegar frægðin var hvað mest hefði alveg getað farið með mig en gerði það ekki og ég er stoltur af því.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Lúsmý leikur landann grátt – Svona slærðu á óþægindin

Lúsmý leikur landann grátt – Svona slærðu á óþægindin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stórfurðuleg mynd af Guðna vekur athygli – „Þarna var einhver töframaður sem vildi sýna kúnstir sínar“

Stórfurðuleg mynd af Guðna vekur athygli – „Þarna var einhver töframaður sem vildi sýna kúnstir sínar“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Konunglegt foreldrafrí

Konunglegt foreldrafrí
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gera grín að miðaldra fólki í Facebook hópi: „Þessi Me Too bylting er komin út í ÖFGAR“

Gera grín að miðaldra fólki í Facebook hópi: „Þessi Me Too bylting er komin út í ÖFGAR“