fbpx
Þriðjudagur 16.desember 2025
Fókus

„Ég er þýsk og ég hélt að ég myndi aldrei í lífinu stíla bréf á SS“

Torkennileg tákn á umbúðum Sláturfélags Suðurlands vekja undrun í samfélagi útlendinga á Íslandi

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 17. mars 2018 16:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Af hverju er hið alsjáandi auga á SS-skinkunni minni?“ Með þessum orðum hófst skeyti Isabel Diana Jaskolski á Facebook-hóp sem er vinsæll meðal útlendinga sem flust hafa til Íslands. Með skeytinu fylgdi mynd af skinkubréfi frá SS þar sem sjá má þrjú tákn sem myndu sóma sér vel í Dan Brown-skáldsögu. Óhætt er að segja að skeytið hafi vakið mikil viðbrögð í hópnum og samsæriskenningar fóru þegar á flug, flestar í léttum tón.
Kvaðst Isabel ætla að komast til botns í málinu og skrifaði hún því Sláturfélaginu bréf. „Ég er þýsk og ég hélt að ég myndi aldrei í lífinu stíla bréf á SS,“ sagði Isabel hress þegar blaðamaður hafði samband við hana og óskaði eftir leyfi til að birta bréfið sem er kómískt í meira lagi. Það var auðsótt.

Bréf Isabel

Kæra SS (nr.1 yfir hluti sem ég hélt að ég myndi aldrei skrifa)

Á dögunum keypti ég SS-skinku út í búð (nr. 2 yfir hluti sem ég hélt að ég myndi aldrei gera). Ég rak þá augun í einkennileg tákn og fór að velta fyrir mér af hverju morgunverðaráleggið mitt þyrfti hið alsjáandi auga.

Eins og allir eðlilegir Íslendingar leitaði ég að svarinu á Facebook og spurði aðra útlendinga ráða. „Af hverju er skinkan mín dularfyllri en svæði 51 (e. Area 51)?“

Svörin voru margs konar og ég var nokkuð sátt við þau. Mér fannst mér þó bera skylda til að rannsaka málið frekar og komast að endanlegri merkingu hinna dularfullu tákna. Ég skuldaði sjálfri mér það, kjötætunum í fjölskyldu minni og alþjóða samfélaginu.

Ykkur til hægðarauka þá lét ég fylgja með þær skýringar sem kollegar mínir frá útlöndunum töldu líklegar. Þið getið merkt x við þær skýringar sem eiga við:

_ Við höfum verið valin
Það voru geimverurnar
Það voru þær
Þetta er markaðsbrella fyrir ókeypis auglýsingu eins og þessa
Frímúrarar eiga fyrirtækið
Guðlegt hráefni fyrir alla
Blóð Krists er í vörunum. SS = Spiritus Sanctis. Amen systir
Gaurinn sem á SS er mjög hjátrúarfullur og vildi alls konar tákn og læti
Sannleikurinn er þarna úti
Ef þú veist það ekki núna þá getum við ekki sagt þér það. Þú veist þegar of mikið
Til þess að vinna í SS þarft þú að fara í gegnum satanískt inntökuferli þar sem þú lofar að segja engum hvað er í kjötinu
_ Annað (vinsamlegast skýrið það frekar)

Táknin litu dagsins ljós árið 2004

Í framhaldi af því hafði blaðamaður samband við SS og forstjóri félagsins, Steinþór Skúlason, svaraði. Í ljós kemur að hann er höfundurinn að útliti umbúðanna. Að hans sögn fóru táknin fyrst að birtast á umbúðum fyrirtækisins árið 2004 sem kollvarpar kenningum blaðamanns um óbrigðula athyglisgáfu sína. Praktískar ástæður lágu þar að baki að sögn Steinþórs. „Við ákváðum að setja íslensk fjöll á framhlið umbúðanna okkar enda fannst okkur þau passa vel við gildi fyrirtækisins, þjóðlega hefð og gæði,“ segir Steinþór. Að sama skapi þótti mikilvægt að neytendur gætu séð bakhlið kjötáleggsins svo að enginn héldi að verið væri að fela ljótar sneiðar, allt væri upp á borðinu.

Ekki „Illuminati“ að verki

„Fyrst voru sett göt í myndskreytinguna svo bakhliðin sæist. Þau litu út eins og tóftir á höfuðkúpu og þannig kom upp sú hugmynd að setja myndskreytingu í götin. Hún var viljandi höfð frekar dauf og með smá dulúð,“ segir Steinþór.

Þannig var komist að þeirri niðurstöðu að vera með níu myndskreytingar á umbúðunum. Þau samanstanda alltaf af sömu tveimur myndunum neðst og 9 mismunandi táknum efst. „Ef fólk vill túlka þetta þá má segja að neðsta myndin sé augljóslega jörðin, maðurinn er miðmyndin og efst eru mismunandi tákn sem öll tengjast hugmyndum mannsins um sköpun,“ segir Steinþór. Þannig mætti segja að vörur SS komi frá jörðinni og maðurinn skapi þær með hugviti sínu.

„Við tökum enga afstöðu til einstakra tákna og í þessu felst enginn boðskapur,“ segir Steinþór. Bendir hann á að sömu tákn sjáist víða, meðal annars í skjaldarmerki Mosfellsbæjar. Steinþór segir að reglulega berist fyrirspurnir til Sláturfélagsins um táknin á umbúðunum. „Við lendum í alls konar samsærisumræðum. Að þetta sé leynireglan Illuminati að verki og svo framvegis. En það er ekki svo, þetta var ég einn að verki,“ segir Steinþór kíminn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Hann pikkaði mig upp á bar með línunni: Hef ég séð þig áður?“

„Hann pikkaði mig upp á bar með línunni: Hef ég séð þig áður?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ný rannsókn bendir til heilsufarsáhættu af húðflúrum – Blekið gerir ónæmiskerfinu engan greiða

Ný rannsókn bendir til heilsufarsáhættu af húðflúrum – Blekið gerir ónæmiskerfinu engan greiða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bókinni ætlað að kynna börn fyrir veiði og gefa skjánum frí

Bókinni ætlað að kynna börn fyrir veiði og gefa skjánum frí
Fókus
Fyrir 3 dögum

Líkaminn setti Önnu í skammarkrók – „Svo slæmt að ég komst ekki fram úr rúminu“

Líkaminn setti Önnu í skammarkrók – „Svo slæmt að ég komst ekki fram úr rúminu“