fbpx
Sunnudagur 17.ágúst 2025
Fókus

Pabbi Völu tók eigið líf: „Mig langaði að sýna honum hversu mikið ég elskaði hann“

Frumflutti lagið þremur árum eftir fráfallið – „Ég held að undirmeðvitundin hafi skynjað að þetta var það sem hann ætlaði sér“

Auður Ösp
Föstudaginn 4. ágúst 2017 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Í mínu tilfelli voru gömul sár að aftra mér frá því að eiga fallegt og einlægt samband við pabba, sem og alkóhólisminn, og ég var sjálf að vinna úr mjög erfiðum hlutum, svo ég bókstaflega hafði ekki tök á því að veita honum þá hjálp og stuðning sem mig langaði svo innilega að veita honum. En ég vildi óska að ég hefði getað komið þessum skilaboðum til hans áður en hann dó,“ segir Vala Yates söngkona en á meðfylgjandi myndbandi má sjá flutning hennar á frumsömdu lagi til föður síns, „Sing you back to life“. Sex mánuðum eftir að Vala samdi lagið tók faðir hennar sitt eigið líf. Vala fékk því aldrei tækifæri til að flytja það fyrir hann.

Vala lærði klassískan söng í Söngskólanum í Reykjavík á árunum 2004-2010, var svo úti í London í einkanámi í eitt ár og kom svo heim og fór í tónsmíðar í Listaháskólanum haustið 2011, og útskrifaðist þaðan í janúar 2015. Á ferlinum hefur hún meðal annars sungið með Barða í Bang Gang þegar hann hitaði upp fyrir frönsku hljómsveitina Air, í Frakklandi og þá söng hún raddanir í laginu “Gleypa okkur” sem finna má á plötu Ólafs Arnalds, And they have escaped the weight of darkness.

Frá tónleikum á Rósenberg árið 2013.
Frá tónleikum á Rósenberg árið 2013.

Faðir Völu átti við áfengisvandamál að stríða og samband þeirra feðgina var að hennar sögn töluvert flókið.

„Ég átti mjög fallegt samband við hann sem barn held ég. Við tengdumst sterkum böndum og ég elskaði hann mjög mikið og fann að hann elskaði mig mjög mikið. En svo þegar ég varð unglingur, eða líklega byrjaði það aðeins fyrr, kannski um níu eða tíu ára, þá byrjaði alkóhólisminn að gera vart við sig – eða ég fór að taka eftir þessu. Og það var mikið áfall fyrir mig, sem ég er ennþá að vinna úr. Unglingsárin voru mjög skrítin út af þessu – eins og þau séu nú ekki nógu erfið samt. Og svo einhvern vegin lokaði ég bara á pabba, andlega.

Vala kveðst hafa fundið fyrir særindum og reiði í garð föður síns svo árum skipti. Það var ekki fyrr en í tíma hjá sálfræðingi að hún náði aftur að tengja við gömlu tilfinningarnar til hans, ástar og öryggistilfinningunni sem hann hafði áður veitt henni.

„Þá fór ég að byrja að opna aftur hjartað mitt gagnvart honum og langaði mjög mikið að ná að fyrirgefa honum og eignast einhvers konar samband með honum – en síðustu tíu árin af lífi hans, var ég í mjög litlu sambandi við hann. Það var bara einhvern veginn of sársaukafullt fyrir mig að vera í miklum samskiptum við hann. Og við náðum að tengjast aftur.

Ég man síðasta skiptið sem ég talaði við hann í síma, þá kom ég út úr herberginu og sagði “vá, ég var að tala við pabba og það var bara gaman, og mér leið mjög vel!” alveg rosa ánægð. Þá sagði ég líka við hann “ég elska þig” sem ég hafði held ég bara aldrei gert áður. Ég sendi honum líka stundum sms síðustu vikurnar og mánuðina og sagði “ég elska þig.“

Fann á sér hvað framundan var

Vala segir að á einhvern undarlegan hátt hafi hún skynjað að faðir hennar átti ekki langt eftir.

„Ég sagði það meira að segja við mömmu og sálfræðinginn minn. En ég hélt hann myndi kannski deyja úr hjartaáfalli eða eitthvað, því hann var búinn að fara svo illa með sig. En svo þegar hann dó, þá var fyrsta hugsunin sem kom upp í huga mér „hann framdi sjálfsvíg“, svo það kom mér í sjálfu sér ekki á óvart þegar það kom svo í ljós að sú var raunin. Ég held að undirmeðvitundin hafi skynjað að þetta var það sem hann ætlaði sér. Það sorglegasta við þetta allt saman finnst mér að ég hafi ekki fengið lengri tíma til að ná að nálgast hann ennþá meira, og mynda betri tengsl og reglulegri samskipti. En ég er samt mjög þakklát fyrir að við höfum verið komin þetta langt áður en hann dó.“

Hún bætir við að það hafi reynst henni afar erfitt að vinna úr áfallinu.

„Núna eru rúm þrjú ár síðan hann dó, en mér fannst fyrsta árið lang erfiðast, næsta ár mun auðveldara, og svo núna eftir þrjú ár er þetta ennþá betra. Ég er ekki lengur að „fatta“ oft á dag að pabbi sé dáinn og ég muni aldrei framar geta talað við hann eða hitt hann. Ég hitti hann líka reglulega í draumi – fyrsta árið gerðist það mjög oft, en svo gerist þetta sjaldnar og sjaldnar, en gerist samt stundum ennþá. Ég var hjá sálfræðingi þegar hann dó, í meðferð sem heitir EMDR, sem hjálpar manni að vinna úr áföllum.

Svo ég fór strax til hennar nokkrum dögum eftir að hann dó og byrjaði að vinna úr þessu. En svo er þetta líka bara eitthvað sem þarf að fá sinn tíma. Ég styrkist með hverjum deginum sem líður og ég trúi því að þannig haldi það áfram. Auðvitað verður maður aldrei alveg samur eftir svona, en ég held að ef maður vinnur rétt úr þessu og hefur rétta viðhorfið, þá geti svona hræðilegur atburður jafnvel endað á að gefa manni eitthvað mikilvægt og fallegt. Lífsviðhorf manns breytist, og ef maður nær að vinna úr áfallinu, sorginni, reiðinni og öllu þessu, þá held ég að maður geti orðið fallegri sál, og sterkari einstaklingur fyrir vikið.“

Fékk laglínuna í hausinn

Texti lagsins kom til Völu fyrirvaralaust, eins og hún lýsir því.

„Það var eiginlega rosa merkilegt, og skrítið, svona eftir á að hyggja að minnsta kosti. Ég var sjálf að díla við rosa erfiða hluti, hafði fengið taugaáfall nokkrum mánuðum áður, var á lokaárinu mínu í Listaháskólanum með tilheyrandi stressi og pressu, og ég lá uppi í rúmi í einhverju rosa hugleiðslu-móki. Svo allt í einu kom textinn til mín. Ég settist upp, og skrifaði allt niður, orð frá orði, og breytti held ég bara einu orði eftir á. Ég fann þessa sterku þrá til að semja lag við þetta, og syngja það fyrir pabba.

Mig langaði að sýna honum hversu mikið ég elskaði hann, og hversu erfitt mér þætti að sjá honum líða svona illa. Sýna honum að ég myndi eftir honum eins og hann var þegar ég var barn, áður en hann “hvarf”. Að ég elskaði hann ennþá, og að ég vildi ekkert heitar en að hjálpa honum að líða betur. Ekki af því ég héldi að þetta myndi virkilega bjarga honum. Það var meira eins og sálin finndi þessa sterku þörf til að tjá honum þetta. Af því ég veit honum fannst hann hafi brugðist okkur börnunum, og ég hafði oftar en einu sinni leyft honum að finna að mér finndist það líka. En pabbi dó svo um það bil hálfu ári eftir að ég samdi textann, svo það var eins og ég væri að sjá þetta fyrir, því textinn er “I wish that I could sing you back to life” en þegar ég samdi textann var hann ekki dáinn.

En það var samt eins og hann væri ekki lifandi, ekki eins og hann var áður. Eins og hann væri einhvern vegin farinn áður en hann dó í alvörunni. Lagið samdi ég svo ekki fyrr en á síðasta ári, fyrir kannski ári síðan, eða minna jafnvel. En það var eins. Ég bara fékk laglínuna í hausinn, söng lagið eiginlega bara í gegn og samdi svo gítarhljóma við. Ég kláraði að semja lagið á svona klukkutíma. Ég fékk þessvegna aldrei tækifæri til að syngja það fyrir pabba, en ég held ég sé samt að syngja það fyrir hann í hvert skipti sem ég syng það. Allavega líður mér þannig.“

„Þegar ég horfi á textann, eftir þetta allt saman – því þetta voru bara einlægar tilfinningar mínar á þessu augnabliki um ást mína til pabba og hversu mikið mig langaði til að hjálpa honum að losna undan þessum mikla sársauka, þá finnst mér textinn einhvern vegin sýna okkur á svo skýran hátt hvernig manneskju sem er aðstandandi einstaklings sem er þunglyndur eða alkóhólisti líður. Auðvitað líður ekkert öllum eins, en þetta er allavega dæmi um þær tilfinningar sem geta verið til staðar.“

Stefnir á stóra hluti í tónlistinni

Vala flutti lagið á tónleikum í Siglufjarðarkirkju þann 25.júlí síðastliðinn en um var að ræða þriðju tónleikana af sex sem hún heldur á Norðurlandi nú í sumar, ásamt gítarleikaranum Dimitrios Theodoropoulos. Dimitros er grískur en hefur búið á Akureyri síðustu sjö árin.

„Dimitros er djass gítarleikari og er að gera mjög skemmtilega hluti með lögin mín. Við flytjum lög eftir mig í bland við vinsæl cover lög. Við erum búin að vera að frumflytja flest frumsömdu lögin, svo þetta er allt nýtt efni. Næstu tónleikar eru í Hrísey 5. ágúst um verslunarmannahelgina, á veitingastaðnum Verbúðinni 66, svo eru tónleikar á Dalvík 10. ágúst, í fiskidagsvikunni, og svo fáum við að spila á stóra sviðinu á Fiskideginum mikla á Dalvík 12. ágúst. Ég kallaði tónleikaröðina “Towards My Dreams” eftir einu af lögunum mínum. Lagið fjallar um það hvernig ég hef eiginlega verið að fresta því alla mína ævi að virkilega ganga í átt að draumnum mínum.“

Framundan eru síðan nokkrir tónleikar í Reykjavík í haust og þá hyggst Vala gefa lögin út á disk í nánustu framtíð.

„Ástæðan fyrir því að tónleikaröðin heitir þetta er vegna þess að í fyrsta skipti á ævinni er ég virkilega að ganga í átt að draumnum mínum. Ég er búin að vera svo lengi í tónlist, en aldrei farið alla leið með þetta, og gert það sem mig virkilega langaði til að gera. Að semja eigin tónlist, halda tónleika, gefa út disk. Ég var svo lengi í kórum, og svo var ég í klassísku söngnámi, sem ég sé alls ekkert eftir – ég lærði heilmikið á því, og má þakka söngtækninni minni klassíska náminu mínu. En það var hins vegar ekki mín ástríða. Ég hef miklu meira gaman að, og finn mig miklu meira í öðruvísi tónlist, til dæmis poppi og jafnvel djassi.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Tilætlunarsöm dóttir gerir ráð fyrir að amman passi barnabörnin allar helgar – Á meðan er pabbinn stikkfrír

Tilætlunarsöm dóttir gerir ráð fyrir að amman passi barnabörnin allar helgar – Á meðan er pabbinn stikkfrír
Fókus
Fyrir 5 dögum

Formaður Fjölskylduhjálpar Íslands flytur sig um set

Formaður Fjölskylduhjálpar Íslands flytur sig um set
Fókus
Fyrir 6 dögum

Stóri dagurinn hjá Söru í dag – „Ég sagði næstum engum frá því“

Stóri dagurinn hjá Söru í dag – „Ég sagði næstum engum frá því“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Nýtt heimsmet í Húsafellshelluburði

Nýtt heimsmet í Húsafellshelluburði
Fókus
Fyrir 1 viku

Systir hans hvarf á skemmtiferðaskipi fyrir 27 árum – „Ég tel mig vita hvað kom fyrir hana“

Systir hans hvarf á skemmtiferðaskipi fyrir 27 árum – „Ég tel mig vita hvað kom fyrir hana“
Fókus
Fyrir 1 viku

Baka í sólarhring til heiðurs Guðna

Baka í sólarhring til heiðurs Guðna