Íslendingar hættir að fara í sund vegna skítugra og sóðalegra útlendinga – Skátastúlka brast í grát í sundi um daginn
Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu árin. Sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu eru í miklu uppáhaldi hjá þeim sem sækja Ísland heim. Á meðan Íslendingar hafa komið sér upp góðum venjum og reglum varðandi sundkennslu og að þrífa sig vel án fata áður en farið er ofan í er ekki alveg sama upp á teningnum hjá erlendum ferðamönnum ef mark er tekið á umræðum á Facebook-síðu tónlistarmannsins Svavars Knúts. Þar spurði tónlistarmaðurinn hvort einhver gæti svarað því hjá Reykjavíkurborg hvort áætlanir væru uppi með að fólk færi í sund áður en farið væri út í laug. Þá eru dæmi um að Íslendingar séu hættir að fara í sund vegna fjölda ferðamanna og að þeir sleppi að fara í sturtu.
Pressan gerði úttekt árið 2015 og þá sögðu yfirmenn sundlauga að ástandið væri afar slæmt. Lilja Pálmadóttir sem stóð að byggingu sundlaugar á Hofsósi sagði:
„Þetta er náttúrulega hrikalegt, það er svo erfitt að eiga við þetta og þá þarf að auka klórmagnið í laugunum og þetta verður bara einn bakteríukokteill.“
Lítið virðist hafa breyst síðan þá: Svavar sagði á Facebook:
„Það er eiginlega fáránlegt að horfa upp á hvað margir erlendir gestir sundlauganna fara grútskítugir beint ofan í og þegar aðrir gestir benda þeim á að fara í sturtu eru þeir bara með dónaskap og dólg.“
Eva Hauksdóttir spurði þá: „Væri ekki nært að einhver hefði eftirlit með því að sundlaugargestir (óháð þjóðerni) skammist í sturtu?“
Svavar svaraði: „Vissulega, en mér sýnist Íslendingar nokkurn veginn hafa þetta á hreinu. Það er sjaldan sem maður getur sagt að „bévítans útlendingarnir“ séu eitthvað verri en við með eitthvað, en þetta er eitt af fáum tilfellum.“
Jenný stefanía Jensdóttir tók þátt í umræðum og benti á aðra hlið í málinu. Sagði hún erlenda stúlku hafa grátið þegar var reynt að þvinga hana til að berhátta sig fyrir framan aðra.
„Róum okkur aðeins í sturtufasismanum,“ sagði Jenný. „Skátastúlka brast í grát í sundi um daginn, slíkur var ofsinn í að þvinga hana til berrassa sig fyrir framan aðra sem var alveg ný og óþægileg upplifun fyrir hana. Umburðarlyndi please, við erum óttalegir skíthælar stundum.“
Svavar Knútur svaraði þessu á þá leið að hann hefði ekkert umburðarlyndi fyrir annarra manna skítugu kroppum.
„Ekki baun. Fullt af kærleika, en ekkert umburðarlyndi. Það eru aflokaðar sturtur í boði og reglurnar eru skýrar áður en fólk fer ofan í. Það hefur val um að sleppa sundlaugaferð ef það treystir sér ekki til að fylgja reglunum. Fasismakenningin gildir bara ef þú átt ekkert val.
Gabriele Becker sem er frá Þýskalandi lagði orð í belg og sagði útlendinga óvana að fara í sturtu án sundfata.
„það er sérstakt bara á íslandi, mér sjálf liður alls ekki vel með þetta og ég er frá Þýskalandi; menning og persónuleiki er svo mismunandi“
Svavar Knútur svaraði á móti og sagði að það breytti engu. Ferðamenn yrðu að virða siði, venjur og reglur landsins sem þeir væru að heimsækja.
Jón Örn, einna vina Svavars á Facebook kveðst hafa rekist á breskt par í Vesturbæjarlauginni sem hafi verið þar fullklædd ofan í vaðlauginni. Þá varð önnur manneskja vitni að svipuðu atviki og sá ferðamenn í nærbuxum undir stuttbuxum ofan í lauginni og önnur kona verið í síðkjól.
„Stuttbuxur, bolur sokkar og strigaskór. Þeim var vísað upp úr af gestum.“
Gerður Kristný skáldkona kveðst fara oftast í sund úti á Seltjarnarnesi til að losna við útlendinga.
„Yfir hásumarið fer ég helst bara út á Nes í sund einmitt vegna þess hvað þar er lítið um ferðamenn sem þvo sér ekki áður en þeir fara ofan í.
Valtýr Björn íþróttafréttamaður stingur upp á að teknar séu upp aðferðir frá því að hann var ungur.
„Best að hafa þetta bara eins og þetta var í skólasundinu í Vesturbæjarlauginni í gamla daga. Þá var alltaf baðvörður sem smúlaði krakkana með köldu vatni ef þeir reyndu að stelast út í laugina án þess að fara í sturtu.“
Þá var Svavar spurður hvort reglurnar væru ekki helst til strangar og hefðu átt frekar við í gamla daga þegar fólk vann í fjósinu. Í dag væri fólk mun þrifalegra og þyrfti því ef til vill ekki að sápa sig af sama krafti.
„Ég er til dæmis ógeðslegur og funky,“ svaraði Svavar. „Alltaf. Ég myndi aldrei meika að vita af sjálfum mér óþvegnum í sundi. Mér finnst til dæmis ógeðslegt að finna lyktina af hárspreyinu og morgunkremunum hjá einhverjum túristakonum.“
Illugi Jökulsson tók þátt og segir reglurnar einnig strangar í Danmörku en hann fór í sund í Kaupmannahöfn.
„Þar eru strangar reglur um að fólk baði sig án sundfata og fari í sturtu eftir hverja einustu klósettferð. Einn baðvörðurinn elti mig meira að segja út í laug af því hún hafði grun um að ég hefði ekki farið nógu oft í sturtu. Það var að vísu misskilningur, því um var að ræða danskan tvífara minn, en mér fannst þetta mjög heimilislegt.“
Stefán Pálsson sagnfræðingur stakk síðan upp á að Svavar Knútur myndi semja lag á ensku um nauðsyn þess að þrífa sig:
„Mér finnst augljóst að stjörnutrúbadorinn semji lag á ensku um nauðsyn þess að sturta sig á typpinu/píkunni. Ráðherra ferðamála gæti styrkt framtakið…“
Gísli Kr stakk síðan upp á eftirfarandi texta:
„this pool is not for whash’in
This is what you do…
First go into the shower
And scrub your „tootiloo““