Fatahönnuðurinn Katrín Alda gerir það gott
Íslenski fatahönnuðurinn Katrín Alda Rafnsdóttir er á miklu flugi um þessar mundir, en hún er ein þeirra sem prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs bandaríska hönnunartímaritsins Footwear News. Blaðið valdi Katrínu Öldu sem einn af 32 framsæknustu og efnilegustu hönnuðunum í skóbransanum um þessar mundir.
Stjarna Katrínar Öldu í skóhönnunarbransanum hefur risið undrahratt en hún frumsýndi sína fyrstu skólínu í fyrra, hjá merki sínu KALDA, en hafði fram að því einbeitt sér að hönnun fatnaðar.
Skólínur Katrínar Öldu hafa fengið góðar viðtökur og öðruvísi áherslur hennar fallið vel í kramið hjá tískuunnendum. Meðal þess efnis sem hún notar er leður, rúskinn og laxaroð frá Íslandi.