Viðbrögð sjúkraflutningamanna breyttust þegar í ljós kom að maður sem hneig niður var drukkinn – „Þarna fékk ég beint í æð að kynnast því hve alkahólismi er í raun enn mikið tabú í samfélaginu okkar“
„Alkahólismi fer ekki í manngreiningarálit, hversu góða fjölskyldu og vini sem þú átt,“ segir Andrea Margeirsdóttir sem varð vitni að því á dögunum að eldri maður hneig niður fyrir framan heimili sitt. Viðmót sjúkraflutningamanna í garð mannsins segir hún sterkt dæmi um það að alkóhólismi er enn í dag tabú í íslensku samfélagi. Mikilvægt sé að sýna aðgát í nærveru sálar.
Andrea er einn af eigendum Yogasmiðjunnar í Grafarvogi, en hún er með B.A próf í Sálfræði, félagsráðgjafi og yogakennari og heldur úti Facebooksíðunni Í átt að betri líðan. Á dögunum birti hún þar eftirfarandi frásögn.
Andrea greinir frá því að á meðan hún stóð og naut fagurs útsýnis út um gluggann sinn sá hún eldri mann hníga niður á götunni fyrir framan heimili sitt. Viðbrögð nærstaddra létu ekki á sér standa.
„Hann lá hreyfingarlaus. Kona hleypur að, önnur kona hleypur að – mikið fát, önnur konan hleypur og nær í vin sinn sem kemur að. Allan þennan tíma, mínútur bjóst ég við að einhver hefði verið búin að hringja á 112. Eitthvað sagði mér að hlaupa niður nokkrar hæðir og fara til þeirra, þó þau væru þar þrjú fyrir.
Hver eru fyrstu viðbröðgð í skyndihjálp? Athuga lífsmörk og hringja á 112. Hver mínúta er gífulega dýrmæt þegar slíkt gerist og þegar slys ber að.“
Andrea kveðst hafa spurt nærstadda hvort sjúkrabíll væri ekki örugglega á leiðinni, enda lá maðurinn vankaður í götunni. Þá kom hins vegar í ljós að enginn hafði haft fyrir að hringja á hjálp.
„Ég hringdi á sjúkrabíl. Við hlúðum að gamla manninum sem var illa áttaður. Hann var vankaður. Horfði í augu mín – svo hræddur. Hann hélt í hönd mína, kreisti og vildi ekki sleppa – hann átti erfitt með tal; þegar hann hélt í mig og ég kom nær honum fann ég áfengislykt. Ég spurði hann hvort hann hefði fengið sér áfengi og hann viðurkenndi það og tárinn runnu úr augum hans. “Nú er ég í veseni“ hvíslaði hann að mér.“
Andrea lýsir því næst því sem tók við eftir að hjálpin barst.
„Þegar sjúkraflutningamennirnir mættu var hann skoðaður fagmannlega, vel og skilvirkt. Þegar í ljós kom að hann hafði drukkið áfengi – þá fannst mér viðmótið breytast hjá öllum. Hann var dæmdur þarna um leið, að mínu mati. Við leiddum hann inn í svefnherbergi og sjúkraflutningamennirnir héldu áfram að skoða hann. Sjúkraflutningamenn eiga allir mikinn heiður skilið fyrir frábær störf og fagmannleg – en þetta með áfengið breytti miklu. Kannski skiljanlega.“
Andrea greinir frá því að sjúkraflutningamennirnir hafi að lokum afráðið að yfirgefa manninn, eftir að hafa skoðað hann og framkvæmt viðeigandi mælingar.
„Ég spurði hvort þeir ætluðu (virkilega) að skilja hann einan eftir í rúminu, kaldur og hræddur án þess að við værum búin að ná í ættingja, svarið sem ég fékk var: Já…og já ef honum er sama um að hafa ókunnuga manneskju í íbúðinni sinni. Hönd minni vildi maðurinn ekki sleppa, mér var meira en sama þó ég væri (skrítin) ókunnug kona í íbúð ókunng manns.
Allir fóru. Þarna sat ég hjá ókunnugum manni, ölvaður og grátandi með engan lífsneista í augunum. Náði loks í aðstandanda sem var á leiðinni.“
Andrea deilir því næst þeim lærdómi sem hún dró af þessu atviki.
„Þarna fékk ég beint í æð að kynnast því hve alkahólismi er í raun enn mikið tabú í samfélaginu okkar. Alkahólismi fer ekki í manngreiningarálit, hversu góða fjölskyldu og vini sem þú átt. Þetta er sjúkdómur eins og hver annar sjúkdómur. Eftir að hafa rætt við aðstandanda hans síðar um kvöldið veit ég að þetta hefur verið hans byrði í gegnum langt skeið. Glæsilegur maður, góð fjölskylda og maður sem virtist hafa það allt – en alkahólismi var/er hans sjúkdómur. Í dag þráir hann ekkert annað en að deyja. Sorglegt. Hvað vitum við um manninn eða konuna sem við sjáum úti á götu illa til reika og drukkin/n. Hvað er okkar að dæma?
Þetta er erfiður sjúkdómur sem hefur mikil áhrif á líf allra aðstandenda alkahólistann, mikil áhrif… og oft uppgjöf sem fylgir. Enn og aftur: Berum virðingu við hvert öðru – sýnum öllum sjúkdómum nærgætni og komum fram við ALLA af virðingu. Og kæri ókunnugi maður, sögu okkar er ekki lokið. Þú kenndir mér meira en þú hefur nokkra hugmynd um þennan dag í gær. Við munum hittast fljótlega aftur. Mundu alltaf elsku vinur, það er alltaf von.
Þú ert miklu meira virði en þú heldur.“