fbpx
Fimmtudagur 21.ágúst 2025
Fókus

Maríanna leitar konunnar sem kom henni til hjálpar

Gagnrýnir harðlega aðgengi fyrir fatlaða í miðborginni – „Þetta er engan veginn boðlegt“

Auður Ösp
Fimmtudaginn 27. júlí 2017 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta ástand er ekki boðlegt fyrir neinn. Blindir, hreyfihamlaðir, jafnvel barnafólk með kerru á ekki möguleika á því að komast ferða sinna. Þetta er algjörlega til skammar,“ segir Maríanna Vilbergs Hafsteinsdóttir, annar af stofnendum aðgerðahópsins Ferðabæklingarnir en hópurinn hefur undanfarin misseri barist ötullega fyrir bættum kjörum og réttindum heldri borgara og öryrkja. Maríanna lenti fyrir nokkrum árum í bílslysi sem varð til þess að hún missti smám hún allan mátt í fótum. Í dag verður hún því að nota hjólastól til að komast á milli staða. Eitt af baráttumálum Ferðabæklinganna er bætt aðgengi fatlaðra en Maríanna hefur fengið að reyna á eigin skinni hversu ábótavant það er.

Í pistli sem Maríanna skrifaði í lok maí greindi hún frá ömurlegu atviki. Var hún stödd í Hörpu og hugðist fara þaðan yfir á Austurvöll, í gegnum göngustíg. Það var hins vegar ekki átakalaust.

„Ég komst á mót við bílastæðahúsið við Seðlabankann og þessar ný byggingar við Hörpuna en þá var enginn göngustígur lengur, bara grindverk og byggingar og gatan hinum megin. Ég þurfti því að fara út á götu.“

Maríanna bætir við að umræddan dag hafi verið rok og rigning með tilheyrandi bleytu og drullu á götunni. Umrætt svæði er byggingarsvæði og eru því kantarnir háir og leiðin nánast ómöguleg fyrir manneskju í hjólastól.

„Þegar ég fer síðan upp á afturdekkin til að fara niður kantinn þá rennur dekkið til og ég velt á hliðina, niður á götuna og stoppaði þar með alla umferðina.“

Maríanna þurfti í andartak að liggja bjargarlaus á götunni í allra augsýn og segir tilfinninguna hafa verið hreint út sagt ömurlega. Lenti hún mjög illa, á höndunum eins og meðfylgjandi myndir sýna. Þurfti hún að hafa sig alla við og reyna að koma dekkinu aftur á stólinn. Kveðst hún hafa verið niðurbrotin þar sem hún reyndi að tjasla sér saman en þá hafi skyndilega borist hjálp úr óvæntri átt. Sú hjálpaði henni að reisa sig við.

„Þá kom þessi yndislega kona og aðstoðaði mig. Hún kom nánast strax og spurði hvort hún gæti aðstoðað mig og hvað hún ætti að gera.“

Maríanna veit hins vegar ekki deili á umræddri konu og kveðst gjarnan vilja komast í samband við hana og þakka henni almennilega fyrir.

„Mér finnst ég ekki hafa þakkað henni nóg, kanski vegna þess að ég var í svo miklu sjokki akkúrat þarna. Ég er svo þakklát að hún var þarna akkúrat á þessari stundu. Ég vildi að ég gæti fengið tækifæri til að taka utan um hana og þakka henni almennilega fyrir. Það sem hún gerði er algjörlega ómetanlegt. Ef allir væru eins og hún þá væri heimurinn betri, það er engin spurning.“

Maríanna hefur tekið þátt í gerð fjölda myndskeiða sem sýna aðgengi fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/skjáskot af facebook.
Maríanna hefur tekið þátt í gerð fjölda myndskeiða sem sýna aðgengi fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/skjáskot af facebook.

Hún segir atvikið vera augljóst dæmi um það hversu lítið tillit er tekið til hreyfihamlaðra og blindra í kringum framkvæmdasvæði í miðborginni.

„Þetta er engan veginn boðlegt. Það er engan veginn í lagi að það séu ekki merkingar á svona svæðum þar sem tekið er fram að gangbrautin endi og fólk þurfi að labba meðfram götuni við hliðina á bílunum.

Áður lent í svipuðu atviki

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Maríanna lendir í atviki af þessu tagi en í maí 2016 sagði hún frá því í pistli að hún hefði farið á heilsugæslu en rafknúni hjólastóllinn komst hins vegar ekki inn í lyftuna. Enginn annar hjólastóll var við lyftuna. Maríanna neyddist því til að skríða, þá lasin, til að komast til læknis.

„Ég skreið inn í lyftuna og rétt náði að teygja mig upp í takkana. Þegar ég kem upp á aðra hæð skreið ég í gólfinu að afgreiðsluborðinu. Biðstofan var full af fólki og auðvitað störðu allir á mig. Þegar ég komst að afgreiðsluborðinu bauð ég góðan daginn en í stað þess að bjóða góðan dag á móti kallaði afgreiðslukonan til mín; Af hverju stendur þú ekki upp?“
Segir Maríanna að þarna hafi hún átt erfitt með að bresta ekki í grát.

„Ég náði samt að svara henni að ég gæti það ekki áður en ég skreið aftur út því ég gat ekki hugsað mér að skríða áfram til læknisins. Þegar ég kom út úr lyftunni á jarðhæðinni gat ég ekki lengur haldið aftur af táraflóðinu heldur sat bara þarna og grét.“

Afgreiðslukona úr apótekinu kom þá til bjargar og þegar hún heyrði atburðarrásina las hún yfir konunni í afgreiðslu heilsugæslunnar. Þá hringdi hún síðar og lét Maríönnu vita að hjólastóll væri á læknastofunni og hún myndi aðstoða hana í þau skipti sem hún þyrfti á læknisaðstoð að halda.

„Ef ekki væri fyrir þessa konu þá hefði ég misst trúna á mannkynið.“

Taka tillit til hjólreiðafólks en ekki fatlaðra

Ferðabæklingarnir hafa sem fyrr segir talað fyrir bættu aðgengi fatlaðra undanfarin misseri, og þá sérstaklega í miðborg Reykjavíkur. Maríanna nefnir sem dæmi Hverfisgötuna og Laugaveginn.

„Það er sorglegt að sjá hvernig það er hiklaust tekið tillit til hjólafólks með því að gera hjólastíg en þegar það kemur að fötluðum og hreyfihömluðum þá er allt annað upi á tengingum. Búðareigendur hika við að gera ráðstafanir, eins og að koma fyrir aðgengi fyrir hjólastóla, vegna þess að þeir óttast að fá sekt fyrir að ráðskast með eignir Reykjavíkurborgar. Það er eins og allir séu að benda á hvorn annan.“

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=bWbtrDxDw4s&w=600&h=360]

Hún nefnir einnig húsnæði umboðsmanns Alþingis. „Þeir sem þurfa mest á honum að halda eru einmitt fatlaðir, eldra fólk og barnafólk. Það segir sig sjálft að þú kemst ekki þessa leið með göngugrind eða hækjur. Við gerum okkur auðvitað grein fyrir að margar af þessum gömlu byggingum eru friðaðar. En þegar það er verið að byggja ný hús þá þarf að taka tillit til allra. Það þurfa allir að geta komist um.“

Hún nefnir einnig bílastæðavanda í miðborginni. „Það eru rosalega fá stæði fyrir fatlaða í miðborginni og samt hikar fólk ekki við að leggja í þau. Ég nefni líka sem dæmi fatlaðrastæðið hjá Dómkirkjunni, en margoft hef ég orðið vitni að því að fólk leggur bílnum sínum þar nálægt, á svæði þar sem ekki er bílastæði, og hindrar þar með aðgang að fatlaðrastæðinu. Í kjölfarið höfum við þurft að hringja á lögreglu til að komast leiðar okkar.“

Öðlast styrk við að hjálpa öðrum

Maríanna vonast til að yfirvöld opi augun fyrir vandanum og hyggst hún halda því áfram að tala fyrir réttindum fatlaðra og öryrkja.

„Við erum ekki tilbúnar að gefast bara og hætta að lifa þó að við séum í hjólastól. Þó að lappirnar séu hættar að virka þá virkar samt allt annað! Ég hef alltaf verið ofvirk og ég held hreinlega að það hafi gert mig ofvirkari að lenda í hjólastól. Við erum búnar að standa í mikilli baráttu undanfarin ár, en við höfum gert þetta allt með bros á vör. Og við munum halda því áfram. Það gefur mér mikinn styrk að hjálpa öðrum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nýtt heimili Katrínar og Vilhjálms neyðir tvær fjölskyldur til brottflutninga

Nýtt heimili Katrínar og Vilhjálms neyðir tvær fjölskyldur til brottflutninga
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gríma og Skúli orðin hjón

Gríma og Skúli orðin hjón
Fókus
Fyrir 1 viku

Stórleikari mátti þola leit lögreglu – Miður sín yfir að þeir þekktu hann ekki

Stórleikari mátti þola leit lögreglu – Miður sín yfir að þeir þekktu hann ekki
Fókus
Fyrir 1 viku

Hugleikur á barmi þess að falla í ónáð – „Já, ég er formlega séð á hálum ís“

Hugleikur á barmi þess að falla í ónáð – „Já, ég er formlega séð á hálum ís“