Hrefna Marín og Aríel giftu sig í gær og fluttu til Danmerkur í dag
Hrefna Marín Sigurðardóttir og Aríel Pétursson fara ekki hefðbundnar leiðir í lífinu og það gerðu þau heldur ekki þegar þau giftu sig í Sundlaug Kópavogs í gær. Hjónakornin ungu flugu svo til Danmerkur snemma í morgun, þar sem þau munu bæði setjast á skólabekk.
„Já við fórum aðeins óhefðbundna leið við þetta,“ segir Aríel. „Við vorum búin að ákveða að gifta okkur í kjól og hvítt í júní, en svo riðlaðist sú dagsetning til vegna sjómannaverkfallsins og forsendur breyttust,“ en Aríel er 2. stýrimaður á frystitogaranum Vigra.
Parið sem hefur verið saman í sex ár hugsuðu þá um að fresta brúðkaupinu, en ákváðu svo að það væri ótækt að flytja erlendis nema vera gift. Bæði barnanna vegna og líka upp á lagalegu hliðina að gera.
„Starfsmenn sýslumanns áttu ekki lausan tíma fyrr í lok ágúst, þannig að ég hringdi í Séra Pétur vin okkar, sem var meira en til í að gefa okkur saman. Síðan hittist svo skemmtilega á að hann var sjálfur að koma úr brúðkaupi á Möltu, en átti nokkrar klukkustundir lausar til að gefa okkur saman áður en hann færi aftur út.“
Staðsetning og dagsetning var því hugsuð með skömmum fyrirvara og þegar kom að því að velja stað ákváðu Aríel og Hrefna að velja stað sem væri fallegur og þau tengdu vel við. „Við förum í sund 2-3 í viku og fórum að grínast með: Af hverju ekki bara að gifta sig í Sundlaug Kópavogs? Okkur fannst þetta fyndið og ákváðum að slá bara til. Það var líka pínu komískt að gestirnir sem boðnir voru þurftu að borga sig inn í brúðkaupið og að við fengum hluta laugarinnar rýmdan til að halda athöfnina.“
„Í brúðkaupið mættu vinir og fjölskylda, eða hluti þeirra þar eð þeir sem við mundum eftir að bjóða, sem fengu á bilinu tveggja til tuttugu klukkustunda fyrirvara með boðið í brúðkaupið. Og ríkti mikið fjör og mikil stemning. Gestir á öllum aldri fundu í sér barnið, blésu sápukúlur og renndu sér í rennibrautinni. Og krakkarnir skemmtu sér auðvitað konunglega.“
Nýgiftu hjónin flugu síðan til Kaupmannahafnar í morgun þar sem þau hyggjast búa með fjölskylduna um óákveðinn tíma, enda bæði á leið í frekara nám, Aríel í sjóliðsforingjanám og Hrefna Marín í mastersnám til dönskukennara.