fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

„Ég er hætt í feluleik“

Vala Ósk Gylfadóttir hefur stundað sjálfsskaða frá 13 ára aldri -Reyndi í tvígang að svipta sig lífi og glímir reglulega við sjálfsvígshugsanir -Segir að sjálfsskaði sé mun algengari en fólk gerir sér grein fyrir

Kristín Clausen
Föstudaginn 5. maí 2017 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfskaðandi hegðun er ein birtingarmynd geðsjúkdóma. Fjölmargir Íslendingar glíma við sjálfsskaða, þá aðallega ungar konur. Vala Ósk Gylfadóttir er ein þeirra. Í einlægu viðtali við Kristínu Clausen ræðir Vala sína upplifun af því að lifa með geðsjúkdómi en hún hefur stundað sjálfsskaðandi hegðun frá 13 ára aldri.

Við fyrstu sýn virðist Vala Ósk Gylfadóttir ósköp venjuleg ung kona. Á kaffihúsinu þar sem við mæltum okkur mót gengur Vala brosandi upp að blaðamanni DV og spyr hvort hún sé að tala við rétta manneskju. Þegar það er komið á hreint og við komnar með matseðil í hönd berst talið að litríkum nöglum Völu, en hún gerir sér reglulega ferð upp í Mosfellsbæ, úr Vesturbænum, til að fara í neglur því þar hefur hún, að eigin sögn, „fundið besta naglafræðing Íslands“. Eftir temmilegt magn af kurteisishjali er umræðan orðin öllu alvarlegri. Við ákváðum að hittast til að ræða veikindi Völu, sem er með jaðarpersónuleikaröskun og hefur stundað sjálfsskaða frá 13 ára aldri. Vala hefur einnig reynt að svipta sig lífi en geðröskun hennar einkennist af lítilli stjórn á tilfinningum, öfgakenndri hugsun, skertu sjálfsmati og hvatvísi. Þá glímir Vala við þunglyndi og kvíða.

Feluleikur og skömm

Vala, sem er 29 ára, fædd árið 1988, kveðst fyrst hafa fundið fyrir þunglyndi og kvíða í kringum fermingaraldurinn. Hún man vel eftir fyrsta skiptinu sem hún skaðaði sig. Þá var Vala 13 ára. Áður helltist yfir hana óstjórnleg löngun til að finna sársauka og sjá blóð. „Það var löngunin til að skera. Þá vissi ég ekki af hverju þessi sterka þörf kom yfir mig. En ég veit það núna. Mér leið svo hrikalega illa andlega. Ég meiddi sjálfa mig til að breiða yfir vanlíðanina.“

Eftir þetta fyrsta skipti hófst feluleikurinn og skömmin sem voru um langt skeið stór hluti af lífi Völu. Allan áttunda bekkinn hélt Vala uppteknum hætti og prófaði sig áfram í sjálfsskaðanum. „Ég drakk eitur. Ég hellti sýru yfir fæturna á mér, því mig langaði að sjá hvað sýran myndi brenna langt inn í húðina. Ég skar mig í lærin, í handleggina og brenndi svæði á innanverðan framhandlegginn með kveikjara. Ég passaði mig samt alltaf að skaða svæði á líkamanum sem ég vissi að ég gæti falið. Þú sérð þessi sár aldrei. Við erum snillingar að fela þetta.“

Foreldrar Völu, sem er alin upp í Vesturbænum, tóku fljótlega eftir því að henni var farið að líða illa í skólanum. Hún hringdi sig sjálf ítrekað inn veika, stóð sig illa í náminu og var þung í skapinu. Vala var því send til sálfræðings og í framhaldinu flutt úr Hagaskóla og í Landakotsskóla þar sem hún lauk 10. bekk vorið 2004. „Mér leið miklu betur í Landakotsskóla. Það var minni skóli og færri krakkar. Eftir að ég skipti hætti ég að skaða mig í nokkur ár.“

Faldi sárin og örin

Vala opnaði sig um sjálfsskaðann við einn sálfræðing, eftir að hafa hitt fleiri sem hún náði engu sambandi við. „Um svipað leyti fluttum við mamma í Laugarnesið. Þar sem ég hafði flutt úr einu póstnúmeri í annað þá mátti ég ekki hitta sálfræðinginn minn lengur þar sem ég var komin í annað umdæmi.“ Í framhaldinu fór hún í viðtal hjá sálfræðingi í „rétta hverfinu“. Vala náði samt ekki að tengjast honum með sama hætti og þeim sem tilheyrði hverfaþjónustunni í gamla hverfinu. „Ég fór í nokkur viðtöl og svo hætti ég. Ég var mjög fúl að geta ekki fengið að tala við konuna sem ég var búin að opna mig fyrir. Ég vona svo innilega að þetta sé öðruvísi í dag. Að þér sé ekki hrint frá sálfræðingi sem þú ert farin að treysta af því að þú flytur í annað póstnúmer.“

Eftir að hefðbundinni grunnskólaskyldu lauk fór Vala í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hún hóf nám á sjúkraliðabraut en í skólanum kynntist hún góðum vinum og kærastanum sínum, en þau eru enn saman í dag. „Hann er búinn að standa með mér í gegnum súrt og sætt og ég veit eiginlega ekki hvar ég væri án hans.“ Vala segir að henni hafi mestmegnis liðið vel á meðan hún var í FB. Hún útskrifaðist stúdent vorið 2009 og fór í framhaldinu að vinna sem sjúkraliði. „Ég hef unnið í heimahjúkrun, á sambýli og á Landspítalanum. Í gegnum alla mína vinnusögu hef ég átt við líkamleg og andleg veikindi að stríða.“

Vala faldi veikindi sín að mestu fyrir sínum nánustu og átti mjög erfitt með að opna sig fyrir fagaðilum sem hún var send til. Móðir hennar hafði til að mynda enga hugmynd um að Vala væri að stunda sjálfsskaða fyrr en árið 2013. „Mamma vissi ekki hvað örin mín og sárin voru fyrr en árið 2013. Í öll þessi ár laug ég að henni og faldi hvað þetta var. Mér tókst það þar til ég var orðin svo veik að ég komst ekki upp með að fela þetta lengur. Þá þurfti ég að leggjast inn á geðdeild vegna sjálfsvígshugsana og andlegra veikinda.

Þetta er ekki athyglissýki

Vala bendir á að þeir einstaklingar sem stunda sjálfsskaða verði sjálfir að standa upp og vekja meiri athygli á sínum erfiðu sjúkdómum. Þannig sé einnig hægt að aflétta skömminni. „Ef við þorum ekki sjálf að tala um þetta þá gerir enginn það. Ef ég væri með sykursýki eða krabbamein þá fengi ég allt öðruvísi viðmót í samfélaginu. Það er ótrúlega sorglegt. Enginn biður um þetta. Það vill enginn stunda sjálfsskaða og í flestum tilfellum gerir fólk þetta vegna þess að það er einhver geðröskun til staðar.“ Þá segir Vala að hún hafi oft heyrt að sjálfsskaði sé ekkert annað en athyglissýki. „Þessu hefur alveg verið kastað framan í mig. En það er auðvitað bara fáfræði. Þess vegna er ég tilbúin að segja frá.“

Húðin er þunn og aum.
Örið markar svæðið sem Vala notar þegar hún skaðar sjálfa sig Húðin er þunn og aum.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Á árunum 2010 og þar til fyrir ári síðan jókst þörf Völu til að skaða sjálfa sig. Ástæðuna má að hluta rekja til nokkurra áfalla sem gerðu að verkum að sjúkdómur hennar ágerðist. Árið 2010 var Völu einstaklega erfitt en það ár lést lítið barn sem hún annaðist sem sjúkraliði. Vala var mjög tengd stúlkunni og tók andlát hennar mjög inn á sig. Einnig varð besta vinkona Völu bráðkvödd í svefni. Hundurinn hennar dó einnig á svipuðum tíma. Þá missti Vala fóstur eftir að hafa lengi reynt að verða barnshafandi. „Áður fyrr trúði ég á guð en eftir að hafa upplifað alla þessa sorg á svona stuttum tíma hætti ég að trúa. Ég var svo reið út í lífið en núna sé ég hvað ég lærði mikið af þessu.“

Árið 2010 leitaði Vala sér fyrst aðstoðar upp á eigin spýtur. Hún fór í samtalsmeðferð hjá geðlækni sem bar ekki tilætlaðan árangur. „Læknirinn var allt of lyfjaglaður. Hann gaf ungu 20 ára stelpunni alltof mikið af róandi og svefnlyfjum. Mér leist ekkert á þetta. Hann hefði hæglega getað gert mig að fíkli. Sem betur fer áttaði ég mig og hætti að tala við hann.“

Vala leitaði sér ekki aftur aðstoðar fyrr en árið 2013 þegar hún var nokkrum sinnum lögð inn. Í eitt skiptið dvaldi hún á geðdeildinni í sjö vikur. Í framhaldinu fékk Vala greiningu. Hún er með jaðarpersónuleikaröskun (borderline Personality Disorder.) Að sögn Völu var búið að leggja hana þrisvar sinnum inn og hún hitt ótal geðlækna þegar hún loksins fann lækni sem skildi hana og hún opnaði sig við. Bataferlið átti þó eftir að verða langvinnt og snúið.

Sársaukinn varir lengur

Það að finna sársauka, með því markmiði að losna undan andlegri vanlíðan, ásækir Völu stöðugt. Þegar talið berst að örunum og aðferðunum dregur Vala upp ermarnar og sýnir handleggina á sér. Þar má sjá ör eftir skurðsár yfir púlssvæðið beggja megin. Þá er hún með nokkur smærri ör á handleggjunum. Á vinstri framhandlegg er Vala með stórt ör sem sker sig nokkuð úr en það er upphleypt og kassalaga.

„Þetta er aðalörið sem ég fer alltaf í. Nota það frekar heldur en að gera ný ör. Ég nota kveikjara, sný honum við til að hita járnið. Síðan legg ég járnið, sem er sjóðandi heitt, við húðina og það heyrist suð þegar það brennur inn í húðina. Þetta geri ég aftur og aftur,“ segir Vala og bætir við að hún finni sársauka en á sama tíma einhvers konar „rush“ sem framkallar vellíðunartilfinningu og í henni felst fíknin. Ástæða þess að hún notar þessa aðferð í stað þess að skera sig í holdið er sú að sársaukinn varir lengur þar sem það tekur lengri tíma að gróa. Þá getur Vala rifið sárið og blöðrurnar upp, aftur og aftur. „Viku eftir að ég er búin að skaða mig er sárið mjög aumt. Það má varla koma við það án þess að ég meiði mig. Þetta geri ég bara þegar ég er að springa úr vanlíðan. Þá byrja ég að hugsa og hugsanirnar verða að nokkurs konar þráhyggju. Að lokum verð ég að láta undan. Á eftir kemur skömmin.“

Síðasta árið hefur Vala tamið sér að nota aðrar aðferðir þegar vanlíðanin verður yfirþyrmandi. „Þá set ég úlnliðinn undir ískalt vatn í langan tíma eða nota teygjur, sem smellast á úlnliðinn, sem bjargráð. Það gefur sömu merki til heilans og ég finn þennan létti. Ef ég myndi ekki gera það væri ég með miklu fleiri ör og sár á líkamanum.“ Líkt og áður hefur komið fram var Vala orðin mjög veik árið 2013. Þrátt fyrir að vera komin með greiningu hefur læknum reynst erfitt að finna þunglyndislyf sem henta henni en að sögn Völu er mjög algengt að lyf virki illa á einstaklinga með þennan sjúkdóm.

„Ég get ekki talið hvað ég hef skaðað mig oft eftir árið 2013. Þegar löngunin hellist yfir mig er það svipað og hvernig alkóhólisti horfir á bjór. Spennan er svo mikil þegar manni líður svona illa.“

Fann ekki sársaukann

Sumarið 2015 reyndi Vala fyrst að svipta sig lífi. „Það var svo mikið vonleysi búið að vera í gangi. Þunglyndi. Ég trúði því virkilega að kærastinn minn og mamma væru miklu betur sett ef þau væru laus við mig. Mér fannst ég svo mikil byrði á þeim.“

Vala reyndi að skera sig á púls. „Ég fór ekki nógu djúpt og blóðið lak ekki nógu hratt. Fyrst sprautaðist það út um allt eins og í bíómyndunum en svo hægðist á blóðflæðinu og það hætti. Ég man að ég bölvaði því að vera ekki með baðkar heima hjá mér svo ég gæti lagst í kalt bað en þá myndi blóðið halda áfram að renna. Ég ýtti hnífnum einfaldlega ekki nógu fast. Ég ætlaði mér að fara í gegnum sinarnar og allt. En það tókst ekki.“

Hún kveðst lítið hafa fundið fyrir sársaukanum þegar hún skar í holdið, þar sem hún fékk sama „rush“ og þegar hún skaðar sig með öðrum hætti.“

Vala var ein heima hjá sér þegar löngunin að fá að deyja helltist yfir hana. „Ég hafði alveg hugsað þetta en aldrei skipulagt nákvæmlega hvar og hvenær. Þá má eiginlega segja að þetta hafi verið stundarbrjálæði en þarna var ég bara komin með nóg. Ég ákvað þetta og framkvæmdi samdægurs.“ Skömmu eftir að blóðið byrjaði að fossa úr sárinu byrjaði kærastinn hennar að hringja. Vala ætlaði í fyrstu ekki að svara símanum en eftir því sem hann hringdi oftar og hún gerði sér grein fyrir því að sjálfsvígstilraunin hefði misheppnast svaraði hún símanum hágrátandi og sagði honum hvað hafði gerst. „Við bjuggum nálægt spítalanum. Ég sagðist ætla að labba þangað og bað hann um að hitta mig þar. Mig svimaði alla leiðina enda búin að missa töluvert mikið blóð.“

Í framhaldi af viðtali á bráðamóttöku geðsviðs var Vala lögð inn. „Ég er með jaðarpersónuleikaröskun. Það er erfitt að gefa þunglyndislyf eða önnur lyf við mínum sjúkdómi. Ég hitti geðlækninn minn einu sinni í mánuði. Við erum alltaf eitthvað að breyta og bæta með lyfin sem ég tek. Það sem skiptir einnig gríðarlegu máli er stuðningsnetið. Í dag er ég með gríðarlega gott net af frábæru fólki sem er tilbúið að styðja við bakið á mér.“

Hræðist eigin hugsanir

Nokkru síðar reyndi Vala aftur að svipta sig lífi. Þá tók hún inn ógrynni af svefnlyfjum. „Ég tók lyfin um klukkan 16 síðdegis. Kærastinn minn var í vinnunni, hann vinnur mikið og oft langt fram á kvöld. Þegar ég vaknaði aftur næsta dag var hann aftur farinn í vinnuna. Hann hafði enga hugmynd um að ég hefði ætlað að stytta mér aldur og ég hafði ekki kjarkinn til að segja honum þetta fyrr en löngu seinna.“

Vala kveðst vera búin að ákveða hvernig hún ætlar að svipta sig lífi ef hún fær þessa óstjórnlegu löngun til að gera það aftur. „Ég myndi fara á hótelherbergi og taka fullt af lyfjum. Ég myndi ekki vilja að kærastinn minn kæmi að mér.“ Þó segist hún handviss um að áætlunin komi aldrei til framkvæmdar þar sem um leið og hún finnur að sjálfsvígshugsanirnar eru farnar að ágerast þá fer hún upp á geðdeild og lætur leggja sig inn á meðan það versta gengur yfir. Það hefur hún gert tvisvar á ári frá árinu 2013, þegar hún leitaði fyrst á bráðamóttöku geðsviðs.

Kærastinn vaktaði hana

Þegar Vala er sem veikust þorir hún ekki að keyra úti á landi en móðir hennar býr á Selfossi svo Vala fer reglulega í heimsókn þangað. „Þegar mér líður illa treysti ég mér ekki til að keyra ein. Hraðinn gerir að verkum að ég byrja að hugsa hvað það þurfi lítið til svo ég keyri út af veginum. Ég treysti ekki sjálfri mér við þessar aðstæður.“

Það sem hefur hjálpað Völu hvað mest í baráttunni við geðsjúkdóminn eru samtökin Hugarafl. Þá gagnrýnir hún heilbrigðiskerfið, en henni finnst það ekki alltaf hafa staðið með sér. „Ég hef verið send heim í mikilli sjálfsvígshættu. Mér var sagt að það væri ekki pláss og beðin um að koma aftur næsta dag. Kærastinn minn vaktaði mig þar til við fórum aftur í hádeginu daginn eftir. Þá komst ég inn.“

Vill rjúfa þögnina.
Segir sjálfsskaða mjög algengan í samfélaginu Vill rjúfa þögnina.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Vala kveðst hafa heyrt sögur, og er fullviss um að einhverjir þeirra sem hafa verið sendir heim í mikilli sjálfsvígshættu, hafi tekist ætlunarverkið. „Þú leitar þangað í mikilli neyð. Þetta er síðasta úrræðið. Ég leita þangað þegar ég er í virkilegri hættu og þarf að komast í bómull. Í burtu frá lyfjum eða tólum sem ég get skaðað mig á.“

Hætt í feluleik

Áður en Vala ræddi fyrst opinskátt um sjúkdóm sinn höfðu fáir hugmynd um hversu veik hún var. „Það er oft sagt að þeir sem glíma við geðræn veikindi séu bestu leikararnir. Það er hárrétt. Út á við leit alltaf út fyrir að allt væri frábært hjá mér. Til dæmis mætti ég í öll fjölskylduboð, brosti, hló og sagði að það væri allt gott að frétta. Síðan fór ég kannski ekki út úr húsi næstu fjóra dagana á eftir og var of kvíðin til að fara niður í þvottahús.“

Í dag finnur Vala fyrir þunglyndi og kvíða. Hún kveðst nokkurn veginn geta stundað daglegt líf en er ávallt viðbúin dýfunum í andlegri líðan sem koma yfirleitt tvisvar sinnum á ári. „Ég fer alla daga vikunnar í Hugarafl. Þar fæ ég félagsskap og stuðning. Það má eiginlega segja að Hugarafl hafi bjargað lífi mínu. Þegar ég hef ekki von fæ ég hana lánaða frá vinum mínum í Hugarafli. Ég væri ekki hérna í dag ef ég hefði ekki kynnst samtökunum fyrir þremur árum síðan.“

Að lokum segir Vala að í dag skammist hún sín ekki fyrir örin sín. „Ég er búin að ákveða að tala um hlutina eins og þeir eru. Hætta þessum feluleik og þannig reyna að taka skömmina af sjúkdómnum. Þetta er svo miklu algengara en fólk gerir sér grein fyrir og það er kominn tími til að samfélagið átti sig á því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Í gær

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“