Sara Magnúsdóttir Hammond orgelleikari og tónskáld hefur seinustu ár fest sig í sessi í jazz tónlistarsenunni á Íslandi og hefur einnig verið að koma sér á framfæri í Bandaríkjunum þar sem hún hefur átt heima síðustu fimm árin.
Hún gaf út sitt fyrsta lag sem heitir „Heima“ á föstudaginn síðastliðinn. Innblástur lagsins er tilfinningin að hafa fest rætur í nýju landi eða nýjum stað, og línur óskýrast um hvar nákvæmlega sé „heima“.
„Fólk sem hefur rifið sig upp með rótum og sest að nýju landi mun tengja við þessa tilfinningu. Að vera hálf leitt en samt þakklátt fyrir það að eiga mörg heimili. Að vera með heimþrá heima hjá sér er ljúfsárt.”
Hafandi búið erlendis lengi, átt mörg heimili og alltaf verið með mikla útþrá þekkir Sara þá tilfinningu vel.
“Ég elska að hafa fundið mig í New York. Ég hef líka upplifað þessa tilfinningu á stöðum sem ég hef eitt minni tíma á. Eftir bara einn mánuð í Kólumbíu ber ég mjög sterkar tilfinningar til þess lands, til dæmis.”
Sara spilar á Hammond orgel sem er frekar óalgent hljóðfæri. Í tónlistinni sinni blandar Sara sínum jazz bakgrunni við grípandi laglínur, oft undir norrænum áhrifum. Blús og soul áhrif eru heldur aldrei langt undan, sem verður augljóst á komandi plötu. Með henni spila nokkrir albestu jazz tónlistarmenn Íslands, Jóel Pálsson á tenór saxófón, Andrés Thor Gunnlaugsson á gítar og Einar Scheving á trommur.
Sara ólst upp á Hellu, en á menntaskólaárunum lá leið hennar til Reykjavíkur í Menntaskólann við Hamrahlíð og Tónlistarskóla FÍH. Árið 2019 flutti hún til Bandaríkjanna. Sara lauk BM námi við William Paterson University í jazz píanó og orgelleik, og seinna mastersnámi í jazz tónsmíðum og útsetningum við sama háskóla. Hún hefur einnig starfað mikið við big band útsetningar og meðal annars samið og útsett fyrir Stórsveit Reykjavíkur.
Plata Söru „A Place to Bloom“ kemur út í Ágúst og verður fagnað með útgáfutónleikum á Jazzhátíð Reykjavíkur í Hörpu, laugardaginn 30. ágúst kl. 20.