Um er að ræða ferskt íslenskt gellupopp en Katrín segir að lagið sé fyrir „gellur sem nenna ekki lengur að bíða eftir að hlutirnir lagist, heldur taka sjálfar stjórnina, snúa við blaðinu og fara til baka til sjálfs síns.“
„Mig langar að halda áfram að fara mín eigin leið og finnst gaman að hrista upp í íslenskri tónlist. Það er stutt síðan ég gaf út lagið VBMM? með tónlistarkonunni Klöru Einarsdóttir og fannst tilvalið að henda í annað gellupopp lag. Lagið vann ég og samdi með upptökustjóranum Dagbjarti,“ segir Katrín.
„Mér finnst gaman að leika mér og prufa mig áfram með mismunandi genres í tónlist og hef haft gaman af því að færa mig yfir í gellu poppið. Það er mjög mikilvægt fyrir mig búa til tónlist sem hreyfir við mér og hlustendum, hvort sem það láti mann vilja dansa eða díla við djúpa hluti. Ég er ekki hrædd við að víkka minn eigin hljóðheim og flakka á milli stemningar, frá innilegum lögum yfir í kraftmikið popp með gellu-attitúdi.“
„Ég hef aldrei passað inn í eitt box hvort sem það er tengt samfélaginu, vinnu eða tónlist. Ég hef alltaf þurft frelsi og ef ég fæ ekki ákveðið frelsi í lífi mínu líður mér eins og hamstri í búri. Mér finnst mikilvægt að vera forvitin og leyfa lífinu að gerast með því að eltast við þessa forvitni, læra nýja hluti og vera með opin huga, það gerir allt svo meira spennandi og skemmtilegra,“ segir Katrín.
Katrín horfir út fyrir landsteina.
„Framhaldið hjá mér er soldið óljóst, hugur minn hefur verið að leitast svolítið erlendis, að ferðast meira um heiminn og mögulega byrja að semja tónlist á ensku, en ég hef ekki tekið neinar ákvarðanir. Það er allt hægt og ég finn að innsæið mitt er að leitast í eitthvað algjörlega nýtt, ég elska Ísland en stundum finnst mér við vera kannski aðeins of kassalöguð,“ segir hún.
View this post on Instagram
„Ég fór í sjálfboðastarf til Portúgal núna í maí á þessu ári þar sem ég var að vinna á Rescue Animal Farm, lærði að vinna með verkfæri sem ég hef aldrei unnið með áður og kynntist mögnuðum konum sem kenndu mér margt. Ég hef ekki hætt að hugsa um þennan tíma sem ég átti þarna síðan ég kom heim. Þetta umhverfi heillaði mig svo, náttúran, dýrin, jarðtengingin og kvenorkan þarna var svo mikil. Mér finnst mjög mikilvægt að hvetja konur til þess að trúa á sjálfan sig, nota röddina sína og taka pláss. Hvort sem það er að koma sér úr óheilbrigðum samböndum, ferðast einar eða taka pláss í karlægum störfum.“
Fylgdu Katrínu Myrru á Instagram og TikTok. Þú getur hlustað á tónlistina hennar á Spotify.