

Blessuð hátíðar og friðar jólin eru á næsta leiti, en það eru þó ekki allir sem upplifa mikinn frið um hátíðirnar. Nú á tímum samfélagsmiðla upplifa margir að þeir þurfi að hlaupa mun hraðar en áður og hafa auk þess öll járn og ömmur þeirra í eldinum samtímis. Við erum stöðugt að bera okkur saman við aðra. Við þurfum að skreyta, henda í átta sortir af smákökum, kaupa gjafir sem gleðja, pakka þeim inn með frumlegum og fallegum hætti, þrífa, halda jólaboð og umfram allt halda í gleðina í gegnum allt þetta stress.
Huffpost veltir því nú fyrir sér hvort fólk ætti almennt að fara að taka Svía sér til fyrirmyndar og þá hefð sem þeir kalla Fredagsmys, eða kósíkvöld á föstudögum.
Miðillinn vitnar í sænska kynlífsfræðinginn Sofie Roos sem telur að þessi siður Svía eigi erindi við alla.
„Á köldum og dimmum vetrarkvöldum er Fredagsmys leið fyrir okkur Svíana til að hanga inni í hlýju og afslöppun, til að tengjast okkar nánustu jafnvel þó við séum þreytt og orkulaus. Þetta er dagur þar sem vellíðan er forgangsraðað ofar en því að stækka tengslanetið eða vera besta útgáfan af okkur sjálfum.“
Unga fólkið hefur margt deilt því undanfarið á TikTok hvernig þau útfæra sín kósíkvöld, eða sín Fredagsmys.
Marta er 34 ára gömul kona frá Bretlandi og hún segir að hennar fredagsmys felist í því að kveikja á arininum klukkan 18, breiða yfir sig þykkt ullarteppi og opna vínflösku. Hún fær sér heimalagað pasta eða pitslu og kemur sér svo fyrir á sófanum þar sem hún horfir á kvikmynd. Uppáhalds snarlið hennar er súkkulaði og ávaxtabaka. Stundum býður hún vinum sínum í heimsókn, en reynir að halda fredagsmys fámennu en góðmennu til að halda í kósíheitin.
Huffpost rekur að fólk geri almennt miklar kröfur til föstudaga. Fólk upplifir ótta við að missa af einhverju spennandi og þykir það þurfa að gera alls konar húllumhæ til að fagna helgarfríinu.
Kiana Shelton hjá Mindpath Health segir að um jólin eigi þessi ótti við að missa af, eða FOMO eins og það er gjarnan kallað, til með að aukast. Fólk upplifir að það þurfi að nýta fríið til hins ýtrasta og að eitthvað sé bara hreinlega að manni ef maður er ekki að ferðast, í veislum eða að gera eitthvað spennandi með sínum nánustu.
„Samfélagsmiðlar hafa ýkt þessa FOMO tilfinningu gríðarlega því við sjáum stöðugt myndir af spennandi samkomum sem fær mann til að líða eins og maður sé að missa af einhverju,“ segir Lienna Wilson sem er bandarískur sálfræðingur.
Samanburður rænir frá manni gleðinni og gleðin er það sem jólin eiga að snúast um. Við teljum okkur kannski vera búin að gera og græja en svo sjáum við myndir frá öðrum sem hafa gert meira og finnst þannig eins við séum ekki að gera nóg.
Wilson segir: „Við eigum það til að setja mikið vægi á framleiðni og fullkomnun sem getur verið mjög lýjandi og getur leitt til kulnunar. Þess vegna er hefð sem snýst um að hægja á sér og draga úr pressunni svona aðlaðandi núna.“
Fredagsmys snýst um einfaldleikann. Allir geta verið með og gert það með sínum einstaka hætti, hvort sem það felst í því að horfa á kvikmynd við kertakjós eða útbúa gott kvöldsnarl. Fredagsmys er fyrir alla, óháð efnahag.
Huffpost bendir á að eftir faraldur COVID séu margir að enn að vinna sig út úr einangruninni. Með því að eiga kósístundir með ástvinum getum við átt innihaldsríkar samræður, eitthvað sem er ekki hægt innan um lætin og kliðinn á veitingastöðum og börum. Eins sé eðlilegt að fólk deili myndböndum um sínar Fredagsmys-útfærslur þar sem það er í eðli manneskjunnar að vilja tilheyra samfélagi, jafnvel þótt við séum hvert í sínu horni að njóta.
Áðurnefnd Marta á TikTok segist ekki upplifa FOMO lengur. Föstudagskvöld snúast núna um afslöppun. Það er hægt að fara snemma í háttinn og lesa góða bók eða hlusta á góða tónlist. Maður þarf ekki alltaf að vera á fleygiferð í gegnum lífið. Það er í lagi að hægja aðeins á sér, slaka á og hlúa að sjálfum sér. Það er í lagi að taka sér kvöld það sem maður hefur það kósí og gerir annað hvort eitthvað afslappandi eða hreinlega ekki neitt.
Wilson bendir á að fólk þurfi heldur ekki að fá móral þegar það afþakkar boð um að gera eitthvað á föstudegi. Fredagsmys sé nefnilega eitthvað og því hægt að svara boðum með vísan til þess að maður sé hreinlega upptekinn.
Kiana Shelton bendir á að Fredagsmys geti hjálpað okkur að fyrirbyggja kulnun. Hún mælir eins með því að við leggjum raftækin til hliðar á þessum kvöldum, kveikjum á kertum, hlustum á tónlist og borðum góðan mat.
Kynlífsfræðingurinn Sofie Roost segir að Fredagsmys afslöppun geti sent heilanum þau skilaboð að vinnuvikunni sé lokið.
„Fullkomið Fredagsmys er ekki flókið eða íburðarmikið,“ segir Roos og bendir á að kósíkvöld snúist um að njóta án væntinga eða ábyrgðar.
Það kemur kannski Íslendingum spánskt fyrir sjónir að enskumælandi lönd séu fyrst núna að uppgötva kósíkvöld eins og að um byltingarkennda hugmmynd sé að ræða, enda fyrirbærið ekki óþekkt hér á landi. Baggalútur orða þetta vel í tæplega 20 árum:
„Sæktu flísteppið og rjómaísinn, það er kósíkvöld í kvöld. Dejligheld, hvað sem það kostar.“