

Síðan kvikmyndin Die Hard, eða „Á tæpasta vaði“ á íslensku, kom út árið 1988 hefur verið hart deilt um hvort hún sé jólamynd eða ekki. Nú hefur verið úr þessu skorið og niðurstaðan er sú að Die Hard er ekki jólamynd.
Málið var útkljáð í Bretlandi eftir að stofnunin British Board of Film Classification gerði könnun sem birt var fyrr í mánuðinum. Var þar spurt hvort fólk teldi Die Hard vera jólamynd eða ekki.
Samkvæmt könnuninni segja 44 prósent að Die Hard sé ekki jólamynd en 38 prósent segja að hún sé það. Reyndar segja 5 prósent að Die Hard sé uppáhalds jólamyndin sín. 17 prósent ákváðu að standa utan við deiluna og segjast ekki vera viss. Líklega er það fólk sem hefur ekki séð myndina, man lítið eftir henni eða hefur litla skoðun á henni.
Eins og segir í frétt bresku sjónvarpsstöðvarinnar Sky um málið þá hefur aðalleikarinn Bruce Willis tjáð sig um deiluefnið áður. Það er árið 2018 þegar hann sagði að hún væri ekki jólamynd.
„Die Hard er ekki jólamynd. Hún er grábölvuð Bruce Willis mynd!“ sagði hann með þjósti.
Macauley Culkin, sem lék eftirminnilega aðalhlutverkið í Home Alone, einni rómuðustu jólamynd fyrr og síðar, tók í sama streng.
„Þetta er bara mynd sem gerist um jólin. Ef hún hefði gerst á degi heilags Patreks þá hefði þetta verið nákvæmlega sama myndin. En ef þú myndir færa Home Alone á dag heilags Patreks þá…..,“ sagði Culkin en fékk harða gagnrýni frá minnihlutanum sem telur Die Hard vera jólamynd.
Í könnuninni var einnig spurt hver væri uppáhalds jólamynd svarenda. Niðurstöðurnar koma ekki á óvart.
Home Alone trónar á toppinum með 20 prósent atkvæða, langt á undan Love Actually sem hlaut 9 prósent í öðru sæti. Í þriðja sæti var It´s a Wonderful Life með 8 prósent og Elf í fjórða með 7 prósent.
43 prósent telja að það sé í lagi að byrja að horfa á jólamyndir 1. desember. Aðeins 13 prósent byrja að horfa á jólamyndir í byrjun nóvembermánaðar. 8 prósent horfa á jólamyndir allt árið um kring.