

Breska Hollywood stjarnan Florence Pugh segist sjá eftir að hafa leikið í kvikmynd sem leikstýrð var af íslenskum leikstjóra. Hún segist hafa verið ung á þessum tíma og hafa tekið hlutverkið út af peningunum.
Hin 29 ára Pugh, sem hefur leikið í bíómyndum á borð við Black Widow, Little Women, Oppenheimer og Dune II, var nýlega í viðtali í hlaðvarpi heimildarmyndargerðarmannsins Louis Theroux. Þar lýsti Theroux ást sinni á hryllingsmyndum en Pugh sagði að það væri ein slík sem hún sæi eftir að hafa leikið í. Það er myndin Malevolent eftir íslenska leikstjórann Ólaf de Fleur Jóhannesson.
„Ég var ung og vantaði pening,“ sagði Pugh. Myndin kom út árið 2018, þegar hún var 22 ára gömul.
Myndin fjallar um systkini sem þykjast leysa yfirnáttúruleg mál en rekast á mál sem reynist vera raunverulegt.
„Ég elska hryllingsmyndir,“ sagði Theroux og vísaði til þess að hafa séð Malevolent. „Það er sennilega eina myndin sem ég vildi að ég hefði aldrei leikið í,“ sagði Pugh þá. „Ég held að allir eigi eina slíka mynd.“