
Hin rómaða skáldævisaga Bjarna Bjarnasonar, Andlit, hefur nú verið endurútgefin með viðaukum. Í bókinni rekur Bjarni ævi sína frá æsku og þar til hann var ungur maður með skáldadrauma. Æska Bjarna var afar sérstök og má segja að hann hafi alið sig upp sjálfur.
Ein af mörgum sérkennilegum og skemmtilegum frásögnum úr bókinni er sagan af því þegar Bjarni og vinur hans, Guðlaugur, struku að heiman úr Skerjafirðinum og fór alla leið til Hvalfjarðar, þar af fótgangandi upp í Mosfellsbæ. Þetta gerðist árið 1976 og drengirnir voru tíu ára.
Þessi ævintýraferð drengjanna rataði inn á baksíðu dagblaðsins Vísis þar sem birt var viðtal við Bjarna. „Það er nú soldið langt síðan við ákváðum þetta. Svo skrópuðum við bara í skólanum í gær og fórum upp í Hvalfjörð. Við vorum svo búnir að labba lengra en upp í Mosfellssveit, þegar við fengum far með vörubíl upp í Hvalfjörð,“ sagði 10 ára gamall Bjarni við Vísi árið 1976.
Vinirnir höfðu ákveðið að fara alla þessa leið, annaðhvort fótgangandi eða á puttanum, og ferðin varð blanda af hvorutveggju. Í Mosfellsbæ börðu þeir að dyrum hjá fólki sem þeir þekktu og fengu þar að borða. Þeir fengu síðan far með vörubíl til Hvalfjarðar. Í Hvalfirði var síðan annar vörubílstjóri sem ók þeim til lögreglunnar á Akranesi.
Bjarni lét vel af framkomu lögreglunnar við sig. „Löggan talaði við okkur og gaf okkur snúð,“ sagði hann en áður höfðu drengirnir fengið ókeypis pylsur í Hvalfirði. Aðspurður sagið hann að þeir hefðu ekki orðið svangir í ferðinni.
Eftir að hafa borðað snúð hjá lögreglunni á Akranesi var þeim skilað í Akraborgina sem sigldi með þá til Reykjavíkur. Feður drengjanna biðu þar eftir þeim á bryggjunni.
Bjarni sagðist ekki vera þreyttur eftir ferðina en svaf þó lengur morguninn eftir en vanalega.