

Tónlistarmaðurinn þjóðþekkti og ástsæli, Valgeir Guðjónsson, greindist með eitlakrabbamein í vor. Meðferð sem hann gekkst undir þá skilaði ekki fullum árangri en þó umtalsverðum, samkvæmt tilkynningu á Facebooksíðu Bakkastofu Culture House.
Þar er fólki þakkaðar yndislegar batakveðjur og umhyggjusamar fyrirspurnir um baráttu Valgeirs við þennan vágest. Pistillinn er eftirfarandi:
„Það er yndislegt að finna hve fólk er umhyggjusamt, því hvert sem við förum, fáum við spurninguna hvernig gengur, hvernig heilsast og það bæði af þeim sem við þekkjum og þeim sem þekkja til hans?
Elsku vinir, þótt Valgeir hafi greinst með kröftugt eitlakarbbamein í vor á sama tíma og hann var spurður hvort hann vildi koma að tónleikum í Hörpu laugardaginn 15.nóvember, hikaði hann ekki við að segja Já! Tilefnið er að fagna fyrstu hljómplötu Stuðmanna fyrir 50 árum, „Sumar á Sýrlandi“.
Þá var hann beðinn um að segja eitthvað sem kom upp í huga hans í sambandi við ákvörðunina að taka þátt og þá vitnaði hann í texta Ómars Ragnarssonar „ Þrjú hjól undir bílnum, en áfram skröltir hann þó“.
Það er yndislegt að finna hve fólk er umhyggjusamt og eins og ég sagði þá fáum við spurninguna hvert sem við förum hvernig gengur, hvernig heilsast?
Valgeir er alltaf brattur í svörum og meira segja núna eftir að meðferðarlotan sem hófst í maí, skilaði honum ekki alla leið í baráttunni, en þó fram á veg.
Nú hefjum við leik á ný í þrjá mánuði með von í brjóstum.
Takk þið öll sem sendið honum baráttukveðjur og hól ykkar fyrir lífsverk hans í tónlist og takk þið góða fólk á LSH.“