Ástin virðist flóknari í dag en áður í heimssögunni. Einkum sökum Internetsins og samfélagsmiðla. Það er erfitt að standast freistinguna að vera sífellt að bera sig saman við aðra enda skortir ekki á að fólk sé að deila sigrum og raunum ástarinnar á opinberum vettvangi. Sérfræðingar ráða fólki þó frá því að festast á hamstrahjóli samanburðar. Þess í stað ætti fólk að vera vakandi fyrir því hvort makinn sé ekki að uppfylla tilteknar lágmarkskröfur ástarsambanda. New York Post fjallar um málið.
Sálmeðferðarfræðingurinn Charisse Cooke segir Internetið fullt af ýktum og dramatískum sögum af rómantískum mökum sem tjalda öllu til fyrir ástina sína. Þetta geti orðið til þess að Gunna og Gunnar úti í bæ fari að líta sína eigin órómantísku maka hornauga. Cooke bendir á að það séu ekki þessar stóru og íburðarmiklu ástarjátningar sem skipti máli í stóra samhenginu heldur litlu hlutirnir sem okkur hættir við að taka ekki eftir. Litlu hlutirnir eru til dæmis eiginleikar á borð við áreiðanleika, athygli og gagnkvæma virðingu. Aðilar í heilbrigðu sambandi eru jafnir sem þýðir að það á ekki að vera undir öðrum þeirra komið að halda rómantíkinni á lífi. Það er lágmarkskrafa að báðir aðilar sýni frumkvæði hvað varðar að skipuleggja stefnumót eða ferðalög.
„Að segja: Ég keypti miða á þessa tónleika, eða: Ég ætla að elda þennan mat, skiptir máli því það sýnir að þú ert vikur þátttakandi í sameiginlegu lífi ykkar en ert ekki bara farþegi.“
Hugulsemi skiptir líka máli. Cooke segir að hugulsemi felist meðal annars í því að spyrja makann hvernig honum gekk með tiltekinn hlut í vinnunni frekar en almenna spurningu um hvernig dagur hans hafi verið.
„Það sýnir að þér annt um að muna hlutina sem skipta hann máli. Forðaðu að hljóma eins og spjallmenni eins mikið og þú mögulega getur.“
Cooke segir að hegðun á samfélagsmiðlum og afstaða til þeirra skipti einnig máli. Fólk sé misvirkt á samfélagsmiðlum. Sumir birta myndir af hverjum viðburði eða jafnvel á hverjum degi á meðan aðrir kæri sig ekki um að hleypa öðrum svona nærri sér.
„Að læka myndir af hálfnöktum áhrifavöldum á hverjum degi en birta aðeins mynd af maka þínum einu sinni í mánuði? Allir gætu sagt þér að það sé ekki í lagi og þeir hafa rétt fyrir sér. Það er lágmarkskrafa að hafa makann þinn sýnilegan í stafrænni tilvist þinni.“
Næst nefnir Cooke það að gera hlutina án þess að vera beðinn um það. Það sé jákvæð og æskileg hegðun í ástarsambandi. Fæstum þyki gaman að þurfa að sinna öllum þessum hversdagslegu verkefnum sem lífið krefst. Það sé enn verra þegar aðeins annar aðilinn í sambandinu þarf að sjá um verkstjórnina því hinn gerir aldrei neitt nema vera beðinn um það.
Svo er það lykilatriði í ástinni – að kunna að rífast. Cooke segir marga reikna með því að fullkomið par rífist aldrei. Raunveruleikinn sé þó að í góðu ástarsambandi geti fólk rifist án þess að allt springi í loft upp. Stundum kemur upp ágreiningur og í heilbrigðu sambandi geta aðilar tekist á við hann saman. Það sé styrkur að geta gengist við því að hafa rangt fyrir sér, að hafa brugðist of harkalega við eða að hafa verið óþarflega hvass. Það sé eðlilegt að rífast en óeðlilegt að draga rifrildið á langinn með því að beita þagnarbindindi eða kulda.
„Það er lágmarkskrafa að geta greitt úr slíku saman, að minnsta kosti í sumum tilvikum. Að senda skilaboð á borð við: Ég var hvass áðan, getum við talað saman? endurheimtir traust á meðan langdregin þögn og tilfinningalegur kuldi getur virkilega skaðað sambandið.“