Söngkonan Laufey Lín Jónsdóttir hefur slegið rækilega í gegn á heimsvísu undanfarna mánuði. Í febrúar hlaut hún sín fyrstu, en eflaust ekki seinustu, Grammy-verðlaun fyrir plötuna sína Bewitched og um nýliðna helgi var hún meðal þeirra stórstjarna sem mættu á hinn árlega Met Gala-kvöldverð í New York. Nokkrum dögum síðar mætti hún svo öðru sinni í spjallþátt Jimmy Fallon og heillaði áhorfendur, nær og fjær, upp úr skónum með flutningi sínum á laginu Goddess.
Laufey Lín er studd með ráðum og dáð af tvíburasystur sinni, Juniu Lín Jónsdóttur, sem einnig er upprennandi tónlistarmaður. Systurnar eiga ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana en móðir þeirra, Lin Wei, er 1. fiðla hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Faðir þeirra, Jón Þ. Sigurgeirsson var einnig talsvert í fréttum nýlega vegna aðkomu sinnar að bankageiranum. Jón var skipaður formaður bankaráðs Landsbankans á nýlegum aðalfundi bankans en áður hafði hann starfað sem efnahagsráðgjafi Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra. Jón hefur mikla reynslu af bankastarfsemi en hann starfaði um árabil hjá Seðlabanka Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.