fbpx
Þriðjudagur 21.maí 2024
Fókus

„Ég er náttúrlega helvítis aumingi eins og Íslendingar að nenna ekki að mótmæla“

Fókus
Þriðjudaginn 30. apríl 2024 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýjasti viðmælandi Mumma í Kalda Pottinum tók eitt sinn þátt í mótmælum í Frakklandi því hann langaði að prófa hvernig það væri að vera gasaður. Honum fannst það lítt gott og lét eitt skipti duga.

Sigurður Ingólfsson skáld, þýðandi og leiðsögumaður féll í frönsku í menntaskóla en lét það ekki aftra sér frá að flytja með fjölskylduna til Frakklands þar sem hann útskrifaðist síðar með doktorsgráðu í frönskum bókmenntum. Sigurður, sem byrjaði að lesa tveggja ára og var orðinn fluglæs fjögurra ára, hefur gefið út 11 ljóðabækur og er þessi misserin að stúdera guðfræði við HÍ með það fyrir augum að vígast til prests síðar. Frakkland togar líka og þar langar hann að verja efri árunum við lestur og skriftir.

Sigurður rennir hratt yfir lífshlaupið í samtali við Mumma og segir lífið hafa einkennst af misgóðum ákvörðunum, fínu línunni á milli þess að vera bóhem eða fyllibytta og reglulegum fíflalátum. Hann fyllist mæðu við að ræða stjórnmál og segir Íslendinga furðulega að sætta sig við að kyssa vöndinn á meðan þeir eru teknir í ósmurt rassgatið.

Eina fíknin sem hann viðurkennir

Þegar Sigurður hafði lokið menntaskóla álpaðist til að ráða sig sem leiðbeinanda í grunnskóla. Þar var honum falið að kenna börnum án þess að hafa endilega kunnáttuna í það. Við tók skólaár þar sem Sigurður þurfti að leggja meira á sig en börnin til að læra það sem honum var ætlað að kenna.

„Það var tekið eftir því að ég var kallaður oftar inn til skólastjórans en nemendurnir. Fyrir fíflalæti. Ég skammast mín ekki vitund fyrir það,“ segir Sigurður og glottir. Honum var falið að kenna í flestum námsgreinum og mann sérstaklega eftir skemmtilegri setningu sem kom frá skólastjóranum:

„Ég sá að þú hefur verið í tónlist þannig við ákváðum að láta þig ekki kenna íþróttir“

Samhliða kennslu reyndi Sigurður að átta sig á því hvað hann vildi sjálfur læra.

„Ég datt niður á bókmenntafræði, sem var eins og sérhönnuð fyrir mig. Ég hef alltaf legið í bókum, bókafíkill. Þetta er eina fíknin sem ég viðurkenndi.“

Að námi loknu uppgötvaði Sigurður alvarlega yfirsjón í sínu lífi. Hann hafði lesið gífurlegt magn franskra bókmennta, en enga þeirra á frummálinu. Frönskunni. Úr þessu varð að bæta og sannfærði hana konuna um að flytja með honum og 9 mánaða syni þeirra til Frakklands.

Rauðvín og alkóhólísk lesbía

Á þeim tíma þótti það ekki sjálfsagt að djöfla sér og sínum milli landa, hvað þá þegar bæði áttu kost á öruggu starfi hér heima og að auki með ungt barn.

„Allir héldu að við værum eitthvað skrítin. Ég fékk að heyra: „Þú ert með kennsluréttindi og konan þín er að vinna á Stöð2, hvað ertu eitthvað brjálaður maður?“

Sigurður svaraði um hæl að hann væri tvímælalaust brjálaður enda átti hann eftir að verja næstu 10 árunum í Frakklandi. Suður Frakkland varð fyrir valinu og lýsir Sigurður því að stíga út úr bílnum sem flutti fjölskylduna frá flugvellinum, sem eins konar opinberun. Hann var kominn heim þó hann hefði aldrei verið þarna áður.

Við tók dásamlegur tími. Kona Sigurðar nam myndlist og hann franskar bókmenntir. Kennarar hans á menntaskólaárunum hefðu líklega orðið hissa að sjá hvað hann náði fljótt tökum á frönskunni, enda hafði hann fallið með þeim vitnisburði að málfræðin hans væri skelfileg.

„Þetta leið mjög hratt, alltof hratt. Þetta var alveg unaðslegt,“ segir Sigurður um Frakklandsárin. Þar týndi hann vínber á vínekrum, lærði undir alkóhólískri lesbíu og drakk nóg af rauðvíni.

Aðspurður hvort hann hefði ekki getað drukkið kóladrykki brosir Sigurður. Hann rifjar upp eina bestu auglýsingu sem hann hefur séð. Það var í Frakklandi á auglýsingaskilti við hraðbrautina. Þar mátti sjá mynd af dýrindis nautasteik og fyrir ofan stóð textinn: „Með þessu ætlið þér að drekka gosvatn með litarefnum og sykri? Samtök vínbænda“

Sigurður segir útbreiddan misskilning að Frakkar séu snobbaðir og hrokafullir.

Að þeir séu snobbaði, til baka og hrokafullir og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er svo dæmalaust kjaftæði. Þeir eru opnir fyrir öllu og stundum með húmor sem Íslendingar fatta ekki alveg. Stundum eru þeir bara að bögga mann því þeim finnst það fyndið og þá iðulega til að gera grín að sjálfum sér“

Þvert á móti kynntust synir Sigurðar ekki rasisma eða fordómum fyrr en fjölskyldan flutti aftur til Íslands.

Guðdómlegt að grafa upp fornleifar

Næst flutti fjölskyldan til Egilsstaða. Þar kenndi kona Sigurðar myndlist og hann frönsku. Hann var einnig með pistla hjá RÚV og starfaði fyrir Stöð 2.

Þegar uppgröftur stóð yfir á Skriðuklaustri kom það sér vel að hafa tengsl við fjölmenna og segir Sigurður að það sé líklega sér að þakka að fornleifarnar fengu meira pláss í umræðunni en alla. Hann lét sér ekki nægja að fylgjast með uppgreftrinum heldur vældi sig beint inn á hann og segir það hreina unun að hafa fengið að verja dögunum moldugur upp fyrir haust með skeið og pensil að grafa í jörðinni í veikri von um að finna eitthvað.

„Þetta er guðdómlegt alveg hreint. Sérstaklega þegar maður er búinn að vera allan veturinn inni í skóla, inni í húsi, að vera allt í einu kominn á kaf í jörðina.“

Sigurður talar um að hafa lifað eins konar bóhem lífi og kom áfengið þar mikið við sögu. Skáldskapur, ástafundir og rauðvín. Það reyndist þó vera fín lína á milli þess að vera bóhemi og hrein og bein fyllibytta. Undir lokin var hann komin öfugum megin við þá línu og það var hreinlega neyðarlegt. Hann var hættur að geta skrifað af viti og tími kominn til að hreinsa til í hausnum. Enn í dag klæðir hann sig þó upp og greiðir sér alla morgna, sama hvort hann sé að fara eitthvað eða ekki, og hefur þar ljóðskáldið Lord Byron sér til fyrirmyndar.

Sigurður hefur skrifað 11 ljóðabækur og telur það nú ekki stórkostlegan árangur í ljósi þess að hann hefur skrifað síðan árið 86. Draumurinn í dag er að geta einbeitt sér alfarið að skriftum. Hann segist hafa reynt við skáldsögur en það gangi ekki upp nema hafa tíma til að vera vakinn og sofinn yfir verkinu.

„Ég er nú yfirleitt ekki mikið að plana lífið. Sem er ekkert voðalega gáfulegt. Ef maður er ekkert að plana alltof mikið þá hefur maður ekki mikið af plönum sem hafa ekki gengið upp.“

Stuttur ferill mótmæla og óskiljanlegt umburðarlyndi Íslendinga

Mummi spurði Sigurð hvort hann hafi tekið þátt í mótmælum þegar hann bjó í Frakklandi, enda Frakkar þekktir fyrir að mótmæla hástöfum þegar gengið er fram af þeim.

„Ég fór einn dag út í göngutúr þegar það voru heavy mótmæli, því mig langaði að upplifa að fá táragas í augun. Maður þurfti að vita hvernig það var. Það reyndist ekki vera gott.“

Sigurður segist hafa tekið sér stöðu með mótmælendum og beðið eftir gasinu. Eftir að hann var beittur táragasi hugsaði hann með sér: Þetta er ekkert voðalega gott, og svo fór hann aftur heim. Þar með hófst og lauk ferli hans sem aktívisti í Frakklandi.

„Ég er náttúrlega helvítis aumingi eins og Íslendingar að nenna ekki að mótmæla. Ég á til að skrifa eitthvað sem kannski fer fyrir brjóstið á einhverjum.“

Þegar talið víkur að íslenskum stjórnmálum verður Sigurður raunamæddur og segist alltaf furða sig á því hvernig Íslendingar kyssa vöndinn.

„Ég skil ekki hvers vegna og hvernig Íslendingar hafa haft lyst á því að kjósa aftur og aftur og aftur yfir sig sömu drulluspaðana sem eru alltaf að taka þá smjörlíkislaust í rassgatið. Ég veit ekki hvað það er.“

Stjórnmálamenn séu stöðugt að reyna að selja fólk að hér sé frábært að búa, allt í blóma, kaupmáttur í hæstu hæðum og allir að kafna úr hamingju.

„Eitt líka – til dæmis – þessi svokallaði leigumarkaður. Hvaða brandari er þetta? Reglulega er trommað upp með að það þurfi að byggja fleiri íbúðir því það er svo mikið af húsnæðisþurfi fólki. Hvað gerist’ Jú einhver slatti af íbúðum. Sama helvítis pakkið kemur og kaupir þetta allt saman, leigir út á einhvern geðveikan pening.“

Sigurður velti því fyrir sér hvort að Íslendingar hafi ekki náð því enn að við erum sjálfstæð þjóð. Séu mögulega enn vanir því að heyra undir Dani og brosa bara og hlýða yfirvaldi sínu.

Sigurður segist enn vera um þrítugt í hjartanu. Hann er háskólanemi og leggur stund á guðfræði sem hann á stutt eftir með að klára. hugmyndin um að vígjast til prests kitlar, en Sigurður kemst þó ekki hjá því að heyra enn kallið frá Frakklandi sælla minninga. Og svo er það skáldskapurinn, enda er Sigurður rómantískur inn að beini og klæðir sig upp á degi hverjum, sama hvort hann ætli út meðal fólks ekki ekki, og sjálfur Lord Byron ætti því að vera stoltur af honum.

Hlusta má á viðtalið við Sigurð og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433FókusSport
Fyrir 2 dögum

Liverpool, Arsenal eða United? – Þetta eru liðin sem forsetaframbjóðendurnir halda með í enska og íslenska boltanum

Liverpool, Arsenal eða United? – Þetta eru liðin sem forsetaframbjóðendurnir halda með í enska og íslenska boltanum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þetta er aldurinn sem við hættum að meðtaka nýja tónlist

Þetta er aldurinn sem við hættum að meðtaka nýja tónlist
Fókus
Fyrir 5 dögum

Fertugsafmælisferð Guðbjargar breyttist í martröð: Kom að kærastanum með annarri konu sem réðst á hana – „Síðan henti hann mér í rúmið og misnotaði mig kynferðislega“

Fertugsafmælisferð Guðbjargar breyttist í martröð: Kom að kærastanum með annarri konu sem réðst á hana – „Síðan henti hann mér í rúmið og misnotaði mig kynferðislega“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vilhjálmur standi í vegi fyrir sáttum og beri nú sjálfur sök á stöðunni

Vilhjálmur standi í vegi fyrir sáttum og beri nú sjálfur sök á stöðunni