Douglas Lazickirk var að fljúga með flugfélaginu Jetstar frá Ástralíu til Suður-Kóreu á sunnudaginn síðastliðinn. Tveimur tímum fyrir lendingu bað hann flugfreyju um að fá lánaðan penna, svo hann gæti fyllt út upplýsingablað fyrir komu.
Hann segist hafa verið mjög hissa þegar flugfreyjan neitaði og sagði að hann gæti keypt penna fyrir 700 krónur.
„Ég fór til flugfreyjunnar og spurði: „Ertu með penna sem ég get fengið lánaðan? Ég þarf að svara þessum fimm spurningum snöggvast,“ segir hann í myndbandi á samfélagsmiðlum.
„Hún sagði: „Nei, þú getur ekki notað minn penna en þú getur keypt penna fyrir 700 krónur, eða beðið þar til við lendum og notað penna á flugstöðinni.““
Hann segir að svar flugfreyjunnar hafi komið honum í opna skjöldu og hann hafi spurt aftur. „Ég spurði: „Ætlarðu í alvöru ekki að lána mér penna?“ Og hún harðneitaði að lána mér penna. Hún sagði: „Ég þarf ekki að láta þig fá pennann minn.““
Hann segir að flugfreyjan hafi viðurkennt að hún væri með penna á sér en sagði að það væri hennar réttur að neita að lána honum hann.
Douglas fór þá til annarrar flugfreyju sem sagði strax já þegar hann bað um að fá lánaðan penna.
„Ég var í áfalli. Ég hef flogið yfir þúsund sinnum og hef aldrei lent í þessu.“
Douglas var ekki hættur þarna og talaði við þriðja flugþjóninn sem sagði að „samkvæmt lögum“ þyrftu þau ekki að lána farþegum penna.
Hann endaði með að kaupa penna á 700 krónur en þegar hann var kominn á áfangastað tók hann eftir því að flugfélagið hafi rukkað hann tvisvar sinnum fyrir sama pennann.
„Og ég hugsaði með sjálfum mér, hversu margir hafa lent í þessu?“