Friðrik tíundi var krýndur konungur Danmerkur á sunnudag, en móðir hans, Margrét Þórhildur tilkynnti í nýársávarpi sínu að hún hugðist afsala sér krúnunni.
Danska konungshöllin sagði í morgun frá því að Danakonungur væri búinn að gefa út bók, á fjórða degi hans í konungsstóli. Bókin ber titilinn Konungsorð (d. Kongeord) og meðhöfundur Friðriks er rithöfundurinn Jens Anderson, sem skrifaði ævisögu Friðriks, sem kom út árið 2017. Anderson hefur einnig skrifað ævisögur Kim Larsen, Astrid Lindgren og H. C. Andersen, auk fjölda annarra bóka.
Konungsorð er 112 blaðsíður að lengd og í henni deilir Friðrik hugleiðingum um líf sitt og tilveru með lesendum, auk þess að líta til fortíðar sinnar. Friðrik fjallar einnig um samband sitt við aðra meðlimi konungsfjölskyldunnar, fjölskylduna, hjónabandið, kristindóminn og sögu Danmerkur og samband Danmerkur, Færeyja og Grænlands.
Útgáfa bókarinnar var ekki auglýst og kom hún Dönum skemmtilega á óvart, en danskir lesendur hafa bókstaflega rifið bókina úr hillum verslana í dag eða pantað hana á netinu, og hefur bókin slegið sölumet strax á útgáfudegi.