Samkvæmt nýlegri rannsókn er eldra fólk tvisvar sinnum líklegra til að deyja næstu tíu árin ef það getur ekki staðið á öðrum fæti í tíu sekúndur.
Niðurstöðurnar voru birtar í British Journal of Sports Medicine í fyrra og kemur fram að jafnvægisskyn fólks geti veitt innsýn í heilsufar þess.
Niðurstöður fyrri rannsókna hafa bent til að það að eiga í erfiðleikum með að standa á öðrum fæti geti tengst auknum líkum á að fá heilablóðfall. Einnig hafa rannsóknir sýnt að fólk með lélegt jafnvægisskyn stendur sig verr á prófum er varða andlega hnignun og þykir það benda til tengsla við elliglöp.