Bandaríski leikarinn Jason Momoa segist nú heimilislaus eftir að skilnaður hans og leikkonunnar Lisu Bonet gekk í gegn. „Ég á ekki einu sinni heimili núna. Ég er vegbúi,“ sagði hann í viðtali við Entertainment Tonigt.
Leikarinn, sem er líklega best þekktur fyrir hlutverk sitt sem Aquaman, konungur Atlantis, hefur undanfarið unnið að heimildamyndinni „On the Roam“ sem fjallar um kynni hans af handverksmönnum, tónlistarmönnum og íþróttamönnum á ferð hans um Bandaríkin.
„Ég er alltaf á þessum skrítnu stöðum,“ segir Momoa og bætti við að aðdáendur fái stjörnur í augun þegar hann dúkkar upp í smábæjum. „Þetta gerist mjög oft. Fólk er alveg „Hvað í andskotanum ertu að gera í mínum heimabæ?“
Ég elska að hitta venjulegt fólk og vinna að ástríðu minni sem er kvikmyndagerð og síðan að sýna myndirnar mínar.“
Nýjasta mynd Momoa verður sýnd þann 18. janúar á Max.
Momoa sagði að flökkulífsstíll hans muni halda áfram um ókomna framtíð en næst heldur hann til Nýja Sjálands þar sem tökur á Minecraft fara fram.
Momoa og Bonet gengu frá skilnaði sínum á mánudag, stuttu eftir að hún lagði fram pappíra um skilnað. Í skjölunum kom fram að þau hefðu þegar náð samkomulagi um hjúskaparréttindi sín og sameign. Bonet óskaði eftir sameiginlegu forræði barna þeirra, dótturinnar Lola Iolani, 16 ára og sonarins Nakoa-Wolf Manakauapo, 15 ára.
Skilnaður þeirra er skráður sem „ómótmæltur“, (e. uncontested) sem þýðir að hvorugt ætlar að berjast fyrir rétti. Hjónin fyrrverandi tilkynntu um skilnað sinn fyrir tveimur árum og hafa búið sundur síðan, nú í janúar ákvað Bonet að ganga frá skilnaðinum opinberlega. Momoa og Bonet hófu samband sitt árið 2005 og giftu sig á leynd í október árið 2017.