Breska rokksveitin Killing Joke sló í gegn á níunda áratug síðustu aldar og helgaði sig tónlist sem flokkast sem post-pönk, en þó með þyngri áherslum en sambærilegar sveitir tóku. Hljómsveitin átti eftir að hafa áhrif á þekktast sveitir sem síðar komu svo sem Metallica, Nirvana, Nine Inch Nails og Soundgarden.
Hljómsveitin var þekkt fyrri svartan húmor og fyrir að veigra sér ekki við að vera umdeild. Það vakti svo athygli þegar söngvarinn og hljómborðsleikarinn Jaz Coleman sagði skilið við Bretland og hélt til Íslands árið 1982, og fylgdi gítarleikarinn Geordie Walker honum síðar eftir. Hér á landi áttu þeir til dæmis eftir að vinna með tónlistarmönnum úr sveitinni Þeyr að verkefninu Niceland.
Á þessum tíma var svokallað satanista-taugaveiklunin í hámæli, faraldur eyðni og kalda stríð Sovíetríkjanna og Bandaríkjanna. Ástandið varð til þess að margir sannfærðust um að endalok siðmenningarinnar væru í nánd. Coleman lýsti því einmitt svo á sínum tíma að flutning hans til Íslands mætti rekja til slíks ótta, en á Íslandi væru betri líkur á að lifa endalokin af. Óttinn við kjarnorkustyrjöld var mikill og tóku því margir Coleman á orðinu. Nú hefur þó komið á daginn að þessi skýring hans var fyrirsláttur.
„Ísland var hugmynd sem tengdist eyríkjum, litlum sjálfbærum stöðum þar sem hægt væri að láta sig hverfa um hríð,“ sagði Walker í samtali við Uncut. „Við elskuðum að vera þarna, og komast burt frá heiminum. Við ætluðum samt aldrei að flytja þangað alfarið.“
Coleman sjálfur sagði: „Ég sagði öllum að endalokin væru í nánd, en það var bara til þess að fólk hætti að bögga mig. Ég vildi hefja ferðalag inn á við, til að finna minn stað í tilverunni og vildi komast í burtu frá malbikinu því ég hef áhuga á jarðhitaorku. Það var svo á Íslandi, á 22 ára afmælisdaginn minn, sem ég ákvað að gerast tónskáld.“
Coleman segir að þegar betur er að gáð sé Ísland ekkert besti áfangastaðurinn fyrir þá sem vilja lifa af heimsenda. Kjarnorkuvopn geta vel drifið hingað og eins var á þessum tíma bandarískar herbúðir á Íslandi, sem þýddi að landið yrði mögulegt skotmark ef illa færi.
Coleman og Walker ákváðu því að í stað þess að birgja sig upp af dósamat og bíða endalokanna, að stofna plötuútgáfu á Íslandi. Ólíkt öðrum útgáfum sem seldu varning og stunduðu kynningarstarf fyrir flytjendur, seldu þeir fíkniefni. „Við vorum með gaur sem hitti fyrrverandi mína á Heathrow flugvelli. Hún sendi hann svo til baka með kasettur fullar af hassi. Við höfðum fundið gullnámu þarna, og ég fjármagnaði flygil með afrakstrinum.“
Eðli máls samkvæmt var þetta ekki sjálfbær útgáfa, þar sem áhættan var töluverð. Þeir ákváðu því að leggja upp laupana áður en illa færi. Þegar þeir sneru aftur til Bretlands var sagt að þeir hefðu áttað sig á því að heimsendir væri ekki í nánd. Raunin var sú að þeir kærðu sig ekki um að vera teknir að lögreglunni fyrir gervi-plötuútgáfuna sem var í raun yfirskyn fyrir fíkniefnasölu. Coleman sneri þó ekki tómhentur heim. Hann hafði samið sína fyrstu sinfóníu. Jimmy Page sjálfur úr Led Zepplin tók unga tónlistarmanninn svo undir sinn væng og leyfði honum að vinna verkið áfram á heimili sínu, en Page sagði í samtali við Mojo að hann hafi strax tekið eftir því að Coleman væri einstakur.
Hafi íslenska lögreglan hug á að kanna þessa játningu Coleman nánar sló hann þó eftirfarandi varnagla í viðtali við Metal Hammer árið 2022:
„Að sjálfsögðu mun ég neita öllu ef einhver reynir að nappa mig fyrir þetta. Ég mun bara segjast hafa skáldað þetta fyrir fjölmiðla.“
Coleman er nú 40 árum eldri en þegar hann kom til Íslands og er enn þekktur fyrir að fara sínar eigin ótroðnu leiðir. Árið 2021 var hann sæmdur heiðursdoktorsgráður af háskólanum í Gloucestershire og er því doktor Coleman í dag.