fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

„Skrýtin lífsreynsla að einhver vilji drepa þig”

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 19. september 2023 10:00

Sólveig Anna Jónsdóttir Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar segir það undarlega lífsreynslu að vita af því að einhver vilji drepa sig. Sólveig, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar segir síðustu ár hafa tekið mikið á. Það hafi svo náð ákveðnu hámarki þegar upplýsingar láku um að ungir menn hefðu hug á að fremja hryðjuverk og lífláta Sólveigu Önnu:

,,Þetta gerðist á mjög sérstökum tímapunkti þar sem margt annað hafði gengið á. Mér hafði verið hótað og því hótað að það yrði komið á heimili mitt. Og ég tilkynnti það til lögreglu. Þannig að þegar að það komu upplýsingar um óra þessarra drengja sem sögðust ætla að fremja hryðjuverk og ég væri ein þeirra sem ætti að drepa var ég búin að vera á frekar klikkuðum stað. Ég var hálfflissandi þegar ég sagði fjölskyldunni minni frá þessu, en áttaði mig á sama tíma á því að þetta væri ekkert fyndið. Svo átti ég sérstakt augnablik þegar ég var í viðtali nokkrum dögum síðar. Fréttakonan spurði mig út í þetta og allt í einu var ég við það að fara að gráta. Ég harkaði af mér og þegar hún var elskuleg við mig fór ég aftur næstum því að gráta. En þetta fór inn í alla þessa hrúgu af atburðum sem höfðu átt sér stað á svipuðu tímabili,” segir Sólveig, sem segir þetta tímabil hafa tekið talsverðan toll.

,,Ég var hressari og það var meiri fíflagangur og grín í mér áður en ég fór í þessa baráttu og sérstaklega fyrir þetta erfiðasta tímabil. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér hversu yfirgengilega stórt þetta verkefni yrði. Ég hugsa stundum til baka og skil ekki alveg hvernig ég hef farið að þessu. Ég veit að það þarf oft að færa fórnir í pólitískri baráttu, en sumt af þessu var hálfhræðilegt þegar ég lít til baka,” segir Sólveig, sem segist hafa þurft að brynja sig í öllum átökum undanfarinna ára. Það hafi tekið hana tíma að átta sig á því að hún yrði að finna leiðir til að verja sjálfa sig:

„Ég hafði enga brynju til að byrja með nema mína pólitísku sannfæringu. Ég hef með tímanum þurft að brynja mig, en maður má heldur ekki ganga of langt í því og láta eins og hlutir snerti mann ekki. Ég get aldrei látið eins og ekkert sé og er í raun friðlaus þangað til ég er búin að koma frá mér upplýsingum sem ég tel að fólk verði að heyra.”

Lærði að meta hreyfingu eftir að hún tók við formannsstarfinu

Sólveig segist hafa þurft að læra að finna leiðir til að draga úr streitu eftir að hún tók við sem formaður Eflingar. Eitt af því sé að hún hafi í fyrsta sinn á ævinni lært að meta hreyfingu.

,,Mér finnst frábært að hjóla eða labba. Ég reyni að vera sem mest á hjóli og ef ég get farið í og úr vinnu á hjóli eða gengið á milli staða vil ég helst gera það. Það er frábær leið til að hreinsa til eftir erfiða daga og ná streitunni niður. Það er eins og heilinn nái að flokka hlutina betur þegar maður hreyfir sig og er úti í fersku lofti. Ég er loksins byrjuð að kunna að meta hreyfingu eftir öll þessi ár. Mér fannst íþróttir og öll hreyfing hrikalega glötuð lengi,” segir Sólveig, sem segist hafa verið antisportisti sem unglingur.

,,Ég var svona ,,counter culture” unglingur og las mikið sem barn. Ég var ung þegar mér var farið að finnast leiðinlegt að fara í skólann og þar byrjaði ég að finna óráðþægnina í mér. Ég var stillt og prúð að mestu, en það var erfitt að fá mig til að gera hluti sem ég vildi ekki gera. Smám saman byrjaði að virkjast í mér þessi uppreisnarandi, þar sem mér féll mjög illa í geð að láta undan pressu um hvernig ég átti að vera. Ég passaði illa inn í skólakerfið og fannst agalegt að fara í skólann. Það sem gekk vel, það gekk mjög vel, en það sem ég vildi ekki læra gekk illa. En ég lenti aldrei í átökum við kennara eða var ókurteis. En ég tilheyri þeim hópi fólks sem horfir til baka á tímann í skóla og sér að það passaði ekki inn. Ég þóttist oft vera veik og fleira í þeim dúr.”

Sýn á samfélag og stjórnmál breyttist við bandaríska búsetu

Sólveig Anna bjó um tíma í Bandaríkjunum og segir að þar hafi sýn hennar á samfélög og stjórnmál breyst mjög mikið.

„Eftir því sem ég fylgdist meira með stjórnmálunum í Bandaríkjunum og stríðsrekstrinum þar fékk ég meiri og dýpri áhuga. Ég hafði verið róttæk manneskja og sósíalisti, án þess að hafa farið mikið ofan í hvað það nákvæmlega þýddi. Ég varð á þessum tíma mjög andkapítalísk og andheimsvaldasinnuð og kom miklu róttækari heim en ég hafði verið áður en ég fór út,” segir Sólveig og heldur áfram:

„Þegar ég fór að fá skýrari sýn á samfélagið sá ég að það þyrfti að breyta miklu á Íslandi. Skert kjör setja fólk í hlekki og eru aðför að heilsu þess. Viðvarandi fjárhagsáhyggjur hafa alvarleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks og þeir sem ekki þekkja að vera í þessari stöðu eiga mjög erfitt með að skilja hversu alvarlegt þetta er. Ég fékk staðfestingu á þessu þegar ég hóf störf hjá Eflingu og fékk fyrir alvöru sýn inn í líf láglaunafólks.”

Sólveig segir lykilatriði í baráttunni að vera umvafin góðu fólki og það sé eitt það stærsta í að halda baráttuandanum á lífi.

,,Ég er mjög stolt af árangri okkar og því sem við höfum náð að gera. Það er mikil hughreysting að vita af frábæru fólki sem treystir mér og kýs að starfa með mér. Það er ómetanlegt og engin manneskja kæmist í gegnum svona ein síns liðs.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Sólveigu og öll viðtöl og hlaðvörp Sölva Tryggvasonar á solvitryggva.is

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda