fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Dugnaðarkvíði er samfélagsmein

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 19. maí 2023 17:00

Ragga nagli Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, fjallar í sínum nýjasta pistli á Facebook um dugnaðarkvíða, sem Ragga segir vera samfélagsmein og hinn þögla skaðvald samtímans.

Að vera lúsiðin hverja sekúndu eins og hermaur í maurabúi þykir vera hin mesta hetjudáð en er í raun sinubruni sem brennir okkur út ansi hratt.

Baka glúteinlausar.bollur á sunnudögum skreyttar lífrænum graskersfræjum.

Og pósta á Instagram.

Taka þátt í Landvættunum og Blálónsþrautinni og Reykjavíkurmaraþoni og á gönguskíðum á veturna, títanhjóli á sumrin og í CrossFit og í jóga.

Njóta gríðarlegrar velgengni í starfi og ná öllum skilafrestum.

Vinna yfirvinnu. Skutla krökkunum. Skila skýrslu. Mæta á réttum tíma.

En líka á námskeiði í Núvitundarsetrinu.

Stunda jóga og drekka grænt Macha te.

Vera á ketó og fasta og glúteinlaus og sykurlaus.

Gróðursetja tré til að kolefnisjafna Teneferðina.

Stunda kæliböð.

Hitta vinina í drykk eftir vinnu.

Mæta á öll fótboltamót og fimleikakeppnir barnanna.

Og auðvitað alltaf í nýjustu tískuspjörinni.

Heimilið eins og uppstillingarbás í IKEA.

Epalsófi tignarlegur í mínímalískri stofu.

Hin klassíska spurning 

Þegar við erum spurð: „Hvernig hefurðu það? “

„Jú allt bara toppnæs “ er kastað fram á hátíðninni.

En streitan er gjörsamlega að buga okkur.

Ragga fer yfir hvaða áhrif þetta hefur á okkur líkamlega.

Streitukerfið í bullandi yfirvinnutaxta við að seyta út streituhormónunum kortisóli og adrenalín allan daginn.

Með tímanum verða kortisólvakarnir ónæmir fyrir streituhormónum stöðugt svamlandi í kerfinu og dægursveiflurnar riðlast.

Krónísk streita veldur ójafnvægi í HPA ásnum (HPA dysregulation), samspil heiladinguls, undirstúku í heila og nýrnahettna.

Heilinn skynjar ógn í umhverfi og sendir skilaboð á nanósekúndu í nýrnahettur sem seyta út adrenalíni og kortisóli til að gera okkur klár í bardaga.

Krónísk streita veldur því að kortisól verður hátt og lágt á röngum tíma dags.

Í stað þess að vera í hámarki á morgnana og gefa fítonskraft til að takast á við daginn, er það miður sín þegar við nuddum stírurnar svo við þurfum nokkra bolla af bleksvartri iðnaðaruppáhellingu til að komast í gang.

Síðan getum við verið í jafn miklu stuði seinnipartinn og miðaldra húsmóðir í sumarbústaðaferð með Sigga Hlö í botni.

Kortisólið uppi í rjáfri en á þessum tíma viljum við að kortisól sé lágt til að hleypa svefnhormóninu melatónin í partýið og gera okkur þreytt.

Langvarandi kortisólstreymi veikir ónæmiskerfið og við verðum eins og svampur á allar pestir í umferð og sífellt með kvef og hor því það má ekki kjaftur hnerra í kringum okkur.

Svefninn verður algjört kaos. Sefur ekki heilu næturnar og valsar um stofuna á nóttunni á náttfötunum.

Dagleg verkefni verða okkur ofviða

Kvíði kviknar yfir minnstu verkefnum. Að ryksuga er á pari við að skipuleggja leiðtogafund í Hörpu.

Að sækja börnin í skólann eins og að draga blóð úr steini.

Ákveða kvöldmatinn jafn flókið og að læra mandarínsku á hraðnámskeiði.

Undir miklu álagi upplifum við að greindarvísitalan hafi lækkað og við getum ekki tekið þátt í samræðum á kaffistofunni.

Þurfum að gúgla hver er forseti Tékklands og hver vann Júróvisjón.

Rannsókn í Journal of Applied Psychology sýndi að starfsmenn sem upplifðu kröfur um að vinna langan vinnudag og vera ínáanleg utan vinnutíma voru líklegri til að upplifa kulnun og andlega örmögnun.

Að sögn Röggu er því ærin ástæða að finna hið gullna jafnvægi í hvíld og sjálfsrækt áður en allt fer í óefni í maskínunni.

„Við eigum aðeins eina heilsu og ef þú leyfir svefnleysi, streitu að sliga okkur geturðu átt á hættu að kulnun banki á dyrnar með heimsendingu frá Stress.is.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma
Fókus
Fyrir 3 dögum

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood
Fókus
Fyrir 3 dögum

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“