

Knattspyrnukappinn fyrrverandi David Beckham birti skemmtilegt myndband á Instagram-síðu sinni um helgina.
Á myndbandinu mátti sjá Beckham sitja á stól á meðan Harper, 12 ára dóttir hans, farðaði á honum andlitið. Feðginin voru stödd í París þar sem hin árlega og fjölsótta tískuvika hefur farið fram síðustu daga.
Í lok myndbandsins sást Beckham teygja sig fram og kyssa Harper á munninn og er óhætt að segja að skoðanir netverja á kossinum hafi verið skiptar eins og New York Post fjallar um.
„Fallegt augnablik á milli föður og dóttur en það er eitthvað rangt við að kyssa hana á munninn. Hún er ung dama í dag en ekki smábarn,“ sagði til dæmis í einni athugasemd. Fleiri tóku í svipaðan streng en flestir voru þeirrar skoðunar að ekkert athugavert væri við kossinn.
„Allar stúlkur þurfa svona föður í líf sitt,“ sagði einn á meðan annar bætti við: „Frábær faðir og góð fyrirmynd.“
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Beckham er gagnrýndur fyrir að sína börnum sínum umhyggju með þessum hætti. Árið 2020 birti Victoria Beckham myndband af David kyssa Harper, þá tíu ára, á munninn.
Beckham svaraði þeirri gagnrýni á þann veg að svona hefði hann einfaldlega verið alinn upp. „Ég kyssi öll börnin mín á munninn. Kannski ekki Brooklyn sem er 18 ára. Honum þætti það kannski skrýtið,“ sagði hann.