fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Allt sem þú þarft að vita um kvennaverkfallið

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 18. október 2023 10:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá 1975 hafa konur lagt niður störf sín sex sinnum til að mótmæla kynbundnu misrétti. Næsta þriðjudag verður í sjöunda skipti sem það verður gert. Þann 24. október eru allar konur og kvár sem geta hvattar til að leggja niður launuð og ólaunuð störf.

Nú styttist óðum í verkfallið og hefur mikil umræða skapast á samfélagsmiðlum, sér í lagi kvennahópum á Facebook eins og Mæðra tips.

Ein færsla hefur vakið mikla athygli og hafa hátt í níu hundruð konur líkað við hana.

„Konur! Mér er ekki orða bundist. Djók. Ég hef nóg að segja! En eru konur í alvöru bara með það viðhorf að mennirnir þurfa ekki að taka upp hanskann í verkfallinu. Engin ástæða fyrir þá að vera heima? Ég er með nokkrar spurningar fyrir ykkur að hugleiða.

Hver sendi inn umsókn í leikskólann? Frístund? Fimleikana? Tónlistarskólann? Hver pantaði tíma fyrir barnið til tannlæknis? Hver fór á læknavaktina? Hver gerði verðsamanburð fyrir lego settið sem krakkinn fékk í jólagjöf? Hver fann afmælisgjöf fyrir tengdamömmu þína? Hvað hugsuðuð þið fyrir mörgum jólagjöfum? Hver sá um að barnið mætti í afmæli hjá bekkjasyskini sínu? Hver hugsaði fyrir hvort þurfti að endurnýja utifatnað fyrir veturinn? Hvað heitir deildarstjórinn eða umsjónakennarinn? Hvað á að vera í matinn? Hvenær var klósettið þrifið síðan? Er þvottaefni búið? Þegar þið klárað vinnu, hvað er eftir? Hver skipuleggur það? Færðu að pissa í friði? Þarftu að tilkynna sturtuferðirnar þínar til annarra heimilismanna?

Ég ætla gefa mér að 95% af þeim sem þetta lesa sjá um amk 80% af þessum spurningum á sínu heimili. ÞETTA ERU BARA 3JU VAKTAR hlutir. Þarna eru öll húsverk eftir sem er álíka ósanngjörn skipti á líka. ERUÐ ÞIÐ EKKI ÞREYTTAR? Þetta er samhliða fullri vinnu hjá mörgum. I vinnum sem eru lægra borgaðar í of mörgum tilfellum en hjá mönnum.

Hættum þessarri helvitis meðvirkni. Við erum allar sem ein að brenna út í heimili og starfi.“

Konur virðast einnig hafa margar spurningar varðandi kvennvaverkfallið, eins og hvað þær eigi að gera við börnin.

Hér er allt sem þú þarft að vita:

Vefsíðan Kvennafrí.is svarar öllum helstu spurningum. Um ástæðu verkfallsins í ár segir:

„Það eru 48 ár liðin frá fyrsta kvennafrídeginum og verkfallið 2023 verður það sjötta í röðinni. Konur verða enn fyrir kerfisbundnu launamisrétti og kynbundnu ofbeldi verður að útrýma. Við ætlum ekki að bíða lengur eftir aðgerðum.“

Er þetta verkfall eða frídagur?

„Kvennaverkfallið 2023 er hvorki verkfall í skilningi vinnulöggjafarinnar né frídagur launafólks. Kvennaverkfallið er baráttudagur fyrir jafnrétti á vinnumarkaði og tekur launafólk þátt á eigin forsendum og samkvæmt eigin ákvörðun. Konur og kvár eru í ólíkri stöðu á vinnumarkaði og við hvetjum öll sem geta til þess að taka þátt.“

Af hverju er verkfallið heill dagur í ár?

„Fyrstu tvö Kvennafríin, 1975 og 1985, voru boðuð sem heilsdags viðburðir. Síðan þá hefur verið gengið út á ákveðnum tíma dags til að vekja athygli á launamisrétti kynjanna. Verkfallið er boðað í heilan dag að þessu sinni til þess að undirstrika mikilvægi framlags kvenna og kvára til samfélagsins alls, í launuðum og ólaunuðum störfum, ásamt því að krefjast aðgerða vegna faraldurs ofbeldis.“

Hvernig tekur þú þátt í kvennaverkfalli?

„Konur og kvár sem geta leggja niður störf, hvort sem um er að ræða launaða eða ólaunaða vinnu, líkt og umönnun barna, að sinna heimilinu eða þriðju vaktina svokölluðu. Svo eru þau hvött til að mæta á útifundi á Arnarhóli eða í sinni heimabyggð og sýna samstöðu í verki.“

Hvað ef ég get alls ekki farið í verkfall?

„Konur og kvár vinna fjölmörg störf þar sem þjónusta getur ekki með nokkru móti dottið niður, svo sem í heilbrigðisgeiranum, í þjónustustörfum við fatlað fólk, aldrað fólk eða annað jaðarsett fólk. Þessar konur og þessi kvár eru #ómissandi. Við hvetjum þetta #ómissandi fólk til að sýna stuðning sinn í verki með því að fá vinkonu eða fjölskyldumeðlim til að mæta fyrir sig eða með því að setja mynd af sér á samfélagsmiðla á deginum undir myllumerkinu #ómissandi og auk aðalmerkisins #kvennaverkfall.“

Þarf ég að láta vita á vinnustaðnum mínum ef ég ætla að taka þátt?

„Konur og kvár eru í mismunandi stöðu á vinnustöðum. Ef þú treystir þér til og getur mætir þú ekki. Einhver vilja láta vita fyrir kurteisissakir og önnur telja rétt að fá leyfi.“

En hvað ef launagreiðandinn minn leyfir mér ekki að fara eða ætlar ekki að greiða mér laun ef ég tek þátt?

„Sögulega hafa atvinnurekendur stutt, eða að minnsta kosti ekki staðið í vegi fyrir, að konur leggi niður störf á Kvennafrídeginum. Atvinnurekendur hafa nægan tíma til að haga skipulagi sínu þannig að konur og kynsegin fólk þurfi ekki að mæta til vinnu 24. október. Í sumum tilfellum geta atvinnurekendur verið andsnúnir þátttöku eða gefið til kynna að dregið verði af launum starfsfólks sem ekki mætir til vinnu vegna verkfallsins. Í slíkum aðstæðum er það val hvers og eins hvort þau treysti sér til að leggja niður störf og hætta á afleiðingar á sínum vinnustað. Hægt er að senda ábendingar um atvinnurekendur sem hamla þátttöku kvenna og kvára í verkfallinu hér.“ https://docs.google.com/forms/d/e/1FAIpQLSfsIBKZWI8hiMyOgRUpYHcVjOtx8XU-812ORA5PduoL7htwWw/viewform

Ég er karlmaður. Á ég líka að taka þátt?

„Karlmenn leggja ekki niður störf þann 24. október en þeir geta sýnt stuðning sinn í verki með því að taka á sig aukna ábyrgð heima fyrir t.d. við umönnun barna og í vinnu með því að taka að sér verkefni eða vaktir til að liðka fyrir og hvetja til þátttöku samstarfskvenna og -kvára í verkfallinu. Líklegt er að einhverjir skólar verði óstarfhæfir þar sem meginuppistaða vinnuaflsins verður í verkfalli, og því munu feður þurfa að gera ráðstafanir þennan dag.“

Hvað á ég að gera við barnið mitt á meðan?

„Það er líklegt að margar menntastofnanir munu loka eða hafa skerta starfsemi á meðan að Kvennaverkfallinu stendur. Þau sem geta, þurfa að treysta á að feður eða aðrir karlkyns ættingjar taki ábyrgð á barninu þennan dag og sinni því. Það eiga auðvitað ekki öll börn feður og ekki allir feður eru inni í myndinni. Börn eru velkomin á útifundi og aðra samstöðuviðburði þennan dag, sama af hvaða kyni þau eru, nema annað sé tekið fram. Ef þú getur ekki fært ábyrgð á barni þínu yfir á karlkynsaðila þennan dag, þá hvetjum við þig til að taka þátt í baráttunni með samfélagsmiðlapósti merktum #ómissandi.“

Af hverju má ég ekki sinna börnunum mínum?

„Það má auðvitað allt. Það er einfaldlega verið að hvetja til þess að samfélagið staldri við og hugsi um hvar önnur og þriðja vaktin lendir. Hver er það sem framkvæmir verk tengd heimilishaldinu og hver er það sem sér um hugrænu byrðina sem fellst í því að verkstýra þeim, muna eftir þeim og útdeila þeim. Konur sinna þessum ólaunuðu störfum í mun meira mæli en karlar.“

Fleiri spurningar og svör má sjá á Kvennafrí.is ásamt meiri upplýsingum um verkfallið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Skothelt vetrarráð: „Framrúðan mun þiðna miklu hraðar“

Skothelt vetrarráð: „Framrúðan mun þiðna miklu hraðar“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hefur búið á Íslandi í 5 ár en það er eitt sem kemur henni alltaf á óvart

Hefur búið á Íslandi í 5 ár en það er eitt sem kemur henni alltaf á óvart