fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

„Má færa rök fyrir því að þetta verkefni hafi bjargað lífi krakka“

Fókus
Sunnudaginn 15. október 2023 12:00

Skjáskot-Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Fylkisson starfar sem lögreglumaður hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hefur undanfarin ár sérhæft sig í að leita að börnum og unglingum sem hafa lent á refilstigum í lífinu, t.d. vegna fíkiniefnaneyslu, og strokið að heiman. Fyrir þessi störf sín er Guðmundur orðinn landsþekktur. Hann er nýjasti gestur hlaðvarpsins Götustrákar þar sem hann segir frá þessum störfum sínum og því sem hann hefur upplifað þeim tengdum.

Kynningarstikla með broti úr þættinum er aðgengileg á Youtube-síðu efnisveitunnar Brotkast, sem Götustrákar eru hluti af.

Í upphafi stiklunnar er Guðmundur spurður hvort hann hafi í leit sinni að börnunum komið inn í hús eða íbúðir þar sjá megi „ógeðslegar aðstæður“:

„Að sjálfsögðu.“

Er hann þá beðinn um að lýsa þeim nánar:

„Þið getið bara í raun og veru ímyndað ykkur aðstöðu hjá einhverjum sem glímir við mikla fíkn. Þar sem allt er í rusli og neysluáhöldum. Sprautunálar, óhreinindi, matarleifar og annað slíkt.“

Guðmundur heldur síðan áfram og fer meðal annars yfir þetta verkefni sitt í víðara samhengi:

„Svo náttúrulega hafa komið tilfelli þar sem að má færa rök fyrir því að þetta verkefni hafi bjargað lífi krakka. Við höfum verið að finna þau meðvitundarlaus og allar líkur á að ef við hefðum ekki fundið þau þá hefði það endað með dauða. Það var kannski sérstaklega þessi morfínhópur. Ég er nú að reyna að rifja upp nafnið á lyfinu sem þau voru að nota þar sem þau í raun og veru bara sofnuðu.

Stundum sofnuðu þau í sitjandi stöðu. Þá dettur hausinn fram og lokast. Það er engin endurnýjun á súrefninu heldur endar með því að þau verða heiladauð eða eitthvað slíkt. Við vorum kannski að finna þau við slíkar aðstæður. Þá var bara að bruna með þau á spítala en við vitum ekki hvort það hefði getað endað með dauða ef þetta ferli hefði ekki verið rofið.“

Fimmtán ára með kókaín í vasanum

Guðmundur er þá spurður hvort hann sé þarna að lýsa áhrifum ofneyslu á verkjalyfinu oxíkontín. Hann er ekki viss um hvaða lyf var nákvæmlega að ræða en telur það hafa verið tengt morfíni og farið að breiðast út meðal fíkla áður en oxíkontín fór að verða algengara meðal þess hóps. Guðmundur heldur síðan frásögn sinni áfram af aðstæðum meðal barna og unglinga í fíkniefnaneyslu og hvaða efna þessi hópur hefur verið að neyta:

„Það er alveg með ólíkindum það sem maður er búinn að sjá í þessum hópi. Eitt árið voru 15 ára krakkar með nokkur grömm af hreinu kókaíni í vasanum. Hvernig stendur á því? Það virtist vera nóg af kóki í umferð. Þau voru farin að kokka það. Breyta því í kristalla. Hvern andskotann voru þau með? Það var einhver vökvi sem þau kokkuðu í til að breyta þessu í kristalla.

Síðan kemur þessi oxí-faraldur eða þessi lyfseðilsskyldu lyf sem alveg flæddu yfir. Kannabis hefur náttúrulega alltaf verið til staðar. Það hafa komið svona tímabil og  sýran. Mér fannst rosalega skrýtið þegar ég var með 14, 15, 16 ára krakka sem var að taka sýru. Hvað er í gangi? Hvernig stendur á þessu?“

Um helmingur fer strax heim

Guðmundur er næst spurður um hversu mörgum börnum og unglingum hann sé að leita að um þessar mundir. Hann svarar því að leitarbeiðnir það sem af er þessu ári séu 140. Þær hafi þó verið tvöfalt fleiri á einu ári:

„Þær hafa farið upp í 285 þegar hæst var. Yfirleitt eru þetta 80-100 einstaklingar. Tölurnar eru reyndar lægri það sem af er þessu ári. Ég man þær ekki alveg. Helmingurinn sirka kemur einu sinni fyrir. Þetta eru krakkar sem láta reyna á heima. Mamma og pappi eru alltaf að segja: ég hringi í lögguna ef þú kemur ekki heim. Svo gerist það ekki. Svo allt í einu er það gert. Þau fá sms: hæ, ég heiti Gummi lögga það er komin leitarbeiðni. Þau fara bara beint heim og ég sé þau aldrei aftur.“

Hann segir því næst frá þeim hópi sem hann þarf að hafa meira fyrir að finna og þá oftar:

„Sirka 25 prósent af þeim er ég að leita að fjórum sinnum á ári eða oftar og 10 prósent er ég að leita að kannski 10 sinnum eða oftar.“

Guðmundur segir hins vegar að á þessu ári hafi þeim börnum og unglingum sem hann þarf að leita að svona oft fækkað.

Hann rifjar því næst upp dæmi um einstaklinga sem hann hefur þurft að leita að margsinnis á einu ári eða jafnvel einum mánuði:

„Eitthvert árið leitaði held ég 25-26 sinnum að sama einstaklingnum. Ég man eftir einum mánuði þar sem ég leitaði 15 sinnum í sama mánuði að sama einstaklingi.“

Í slíkum tilfellum sé þó ekki alltaf um einstakling að ræða sem eigi við fíknivanda að stríða heldur geti ástæðan verið hegðunarvandi.

Notar símann mikið við leitir

Guðmundur segir að þótt að ítrekaðar leitarbeiðnir berist vegna sama einstaklingsins sé leitað í hvert einasta skipti. Traust skapist á endanum milli hans og viðkomandi:

„Ég vinn mjög mikið í gegnum símann. Hringi og sendi sms. Þau vita það orðið þessi sem maður er með aftur og aftur. Þau vita alveg ferilinn. Hér áður fyrr þurfti maður að hafa virkilega mikið fyrir því að finna þau. Þá er það auðveldara. Maður á auðveldara með að ná einhverju samkomulagi við þau. Ég get kannski ekki sagt að foreldrar séu alltaf ánægðir með það en ég vil meina það að það endar betur.“

Guðmundur fer í lok kynningarstiklunnar yfir hversu mörgum einstaklingum hann hefur leitað, síðan hann hóf að sérhæfa sig í að leita að börnum og unglingum, hversu margar leitarbeiðnir hann hefur fengið vegna þessara einstaklinga og hversu margir þeirra hafa á endanum látist.

Stikluna í heild sinni má sjá hér fyrir neðan:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta