fbpx
Mánudagur 06.maí 2024
Fókus

Var í stöðugum ótta við að lögreglan myndi koma og taka þá þegar þeir voru að halda athafnir

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 20. september 2023 13:30

Brynjúlfur Jóhannsson Mynd: Skjáskot YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynjúlfur Jóhannsson segist hafa róast mikið með aldrinum eftir að hafa ítrekað komist í kast við lögin og vakið athygli með alls kyns gjörningum í gegnum tíðina. Brynjúlfur, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar segist hafa verið kominn á endastöð eftir áföll, flogaveiki og fleira og hann hafi þurft að fara alla leið inn í hreinsunareldinn til að koma til baka:

„Ég leyfði mér að brenna og vaxa með nýjan feld. En ferðalagið hefur oft verið þyrnum stráð. Ég kem úr mjög erfiðum aðstæðum með mikið af áföllum og var lengi háður örvandi efnum og var virkur alkóhólisti. Ég fór í nokkrar meðferðir, en lengi vel gekk ekki vel. Ég var með flogaveiki og var málhaltur og hafði gengið í gegnum mikla erfiðleika. Það var erfitt að vera alltaf að fá flogaköst og vera með stanslausa spennu í líkamanum. Í gegnum árin byrjaði það að taka mikinn toll, svo stamaði ég líka mikið og það bættist ofan á hitt. Svo komu áföll og óregla ofan á það og ég var kominn á einhvers konar endastöð. Árið 2012 notaði ég í fyrsta skipti sveppi með virðingu og ég fann hvað það gerði fyrir mig. Ég gat í fyrsta sinn horfst í augu við eigin vanlíðan og fengið að mæta henni en ekki flýja hana. Það varð algjör breyting þegar ég gat horfst fyrir alvöru í augu við þetta allt saman og byrjað að takast á við það fyrir alvöru. Það sem ég áttaði mig á er að lífið er eitt stórt meistaraverk og að það er líka meistaraverk að líða illa,“ segir Brynjúlfur, sem segja má að hafi verið vel á undan sinni samtíð í að opna á umræðu um hugvíkkandi efni.

„Það sem var erfitt á þessum tíma var að vera í stöðugum ótta við að lögreglan myndi koma og taka okkur þegar við vorum að halda athafnir. Umræðan á þessum árum var virkilega neikvæð. Ég ákvað á einverjum punkti að skora sjálfan mig á hólm og fara bara alla leið í að tala um þetta opinberlega og láta dæma mig. Ég auglýsti mig til þjónustu reiðubúinn við að hjálpa fólki og nota sveppina. Ég var eiginlega alveg viss um að mannorð mitt myndi hrynja og ég sá það sem hluta af minni vegferð að stíga inn í þann ótta. Að skapa mér eld sem ég vissi að yrði erfiður. Það voru allir lokaðir og skíthræddir og ég ákvað að ég vildi það ekki lengur. Þetta var á köflum skrýtið. Að kunningjar þorðu ekki lengur að heilsa mér á opinberum stöðum og ég var kallaður öllum illum nöfnum eftir umfjallanir í fjölmiðlum. Ég var í raun alveg klár í að yfirgefa Ísland og fara bara inn í einhvern skóg með indjánum ef mér yrði alveg útskúfað. En viðhorfið er gjörbreytt í dag og þetta er allt orðið miklu heimilislegra.“

Brynjúlfur segist ekki lengur hafa þörf fyrir að taka inn hugvíkkandi efni, enda sé hann búinn að skilja hvað sér var ætlað að sjá:

„Á sínum tíma tók ég bæði tekið átta grömm og einu sinni tíu grömm. Það var mjög hressandi. Ég hefði það ekki í mér núna að gera þetta, en á þessum tíma langaði mig að læra og varð að fara alla leið. Það var mikil orka í mér og ég sé það núna að ég þurfti að fara í gegnum þetta á ferðalaginu mínu. Þetta var örugglega að einhverju leyti ákveðin manía lika, en allt var þetta hluti af því sem átti að vera. En ég hef róast mikið með árunum og í dag hef ég ekki þessa sömu þörf. Ég er fyrst og fremst upptekinn af því að hlúa vel að mér núna og kunna að setja mér mörk og finn að við það hefur orkan risið og lífið sífellt að verða ríkara.“

Handtekinn fyrir utan Alþingi

Brynjúlfur var fyrir nokkrum árum handtekinn og dæmdur fyrir að mæta með sveppi og kannabisefni fyrir utan Alþingi.

„Ég var þarna að mótmæla ofbeldi bannstefnunar og taldi rétt að upplýsa um ofbeldið og hjálpa til við að vekja fólk til umhugsunar. Það hafa verið ólög í landinu í langan tíma og ég var dæmdur fyrir að bjóða upp á fallegt og heilbrigt umhverfi. Ég var dæmdur fyrir það að vera fyrir utan Alþingishúsið búinn að breiða út dúk og setja púða undir rassinn. Var með lítið borð, sitthvoru megin við það voru reykelsi brennandi. Ofan á borðinu voru tvær rauðar rósir og tvær krukkur. Kannabis í annarri og sveppir í hinni. Ég var í raun dæmdur fyrir að bjóða upp á fallega hluti og góða stemningu,“ segir Brynjúlfur og heldur áfram:

„En þetta var hluti af tímabili í mínu lífi þar sem ég vildi upplýsa fólk, láta reyna á hluti og ögra kerfinu. Það var mikið sprell á mér á þessum árum og mikil orka í mér. Þeir voru mjög almennilegir við mig lögreglumennirnir sem handtóku mig. Þeir héldu á mér inn í bíl og svo var mér sagt að ég yrði að greiða sekt eða fara annars í fangelsi. Ég mætti svo í indverskum klæðum í dómssalinn og ákvað að gera smá leikhús úr þessu. Ég leit vel út í indverska sloppnum þegar ég benti dómaranum að ég hefði ekki skaðað neinn. Mér var tjáð að ég yrði að greiða ákveðna sekt og málskostnaðinn, sem ég gerði ekki. Í mínum huga var þetta bara gjörningur sem á endanum skapaði umræðu. En það er ennþá handtökuskipun á mig sem hefur hangið yfir mér í meira en ár.“

Segist hafa róast með árunum

Brynjúlfur segist hafa haft gaman að því að ögra í gegnum tíðina, en hann hafi róast mikið með árunum:

„Það er mjög margt í kerfinu sem er mikilvægt að upplýsa fólk um og stundum þarf einhver að taka það á sig að láta dæma sig. Ég fann lengi hjá mér þessa þörf fyrir að ögra, en finn hana ekki lengur. Það hefur komið meiri ró yfir mig með árunum og nú leyfi ég lífinu að hafa sinn gang án þess að ég þurfi að vera að skipta mér mikið af því hvaða farveg hlutirnir fara í. Það sem ég hef lært í gegnum ferðalagið mitt er að óttinn er lygi og við erum umvafin ást.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Brynjúlf og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Alexandra Helga og Gylfi eiga von á öðru barni

Alexandra Helga og Gylfi eiga von á öðru barni
Fókus
Í gær

Svona líta svíturnar í skemmtiferðaskipunum út – Skópússun og einkabrytar

Svona líta svíturnar í skemmtiferðaskipunum út – Skópússun og einkabrytar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjónvarpssería um ævintýralegan feril Jósafats Arngrímssonar

Sjónvarpssería um ævintýralegan feril Jósafats Arngrímssonar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín og Vilhjálmur að „ganga í gegnum helvíti“

Katrín og Vilhjálmur að „ganga í gegnum helvíti“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hin raunverulega Martha úr Baby Reindeer hótar Stephen King

Hin raunverulega Martha úr Baby Reindeer hótar Stephen King
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég geri mér 100 prósent grein fyrir því hvernig ég lít út“

„Ég geri mér 100 prósent grein fyrir því hvernig ég lít út“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gypsy Rose frumsýndi nýtt nef og ljóst hár eftir fegrunaraðgerð

Gypsy Rose frumsýndi nýtt nef og ljóst hár eftir fegrunaraðgerð
Fókus
Fyrir 4 dögum

Manowar halda tónleika á Íslandi – Eitt af stærstu þungarokksböndum sögunnar

Manowar halda tónleika á Íslandi – Eitt af stærstu þungarokksböndum sögunnar