Sjónvarpsþættirnir vinsælu Friends fjalla eins og alþjóð veit um sex vini búsetta á Manhattan sem standa þétt saman í leik og starfi. Þáttaraðirnar sem urðu alls tíu nutu gríðarlegra vinsælda á árunum 1994 – 2004 og enn í dag eiga þættirnir og vinirnir sér gríðarstóran aðdáendahóp sem horfir á þættina aftur og aftur og aftur og lifir sig inn í vináttu og daglegt líf vinanna.
Patty Lin, sem starfaði sem einn handritshöfunda þáttanna, ljóstrar því upp í nýrri endurminningabók sinni, End Credits: How I Broke Up with Hollywood, að samstarfið við aðalleikarana sex hafi verið strembið og þeir alls ekki jafn vinalegir bak við tjöldin, eins og þeir voru á skjánum.
Lin sem unnið hafði við þáttaraðirnar Freaks and Geeks, Desperate Housewives og Breaking Bad, fékk símtal þar sem hún var beðin um að vinna við sjöundu þáttaröð Friends. Segir hún að tilboðið hafi verið of gott til að hafna því, enda hafði hún bara verið í bransanum í tvö ár á þessum tíma, en Lin starfaði við Friends árin 2000 til 2001.
„Það kom í ljós strax í fyrsta ritarastarfinu mínu að hugmyndir mínar um bransann voru rangar. Ég vann síðan við Freaks and Geeks, sem var mjög jákvæð reynsla,“ segir Lin. Þegar Friends kallið kom var hún afar spennt að hitta slíkar stórstjörnur í návígi, en sú tilhlökkun varð strax að engu.
„Leikararnir virtust óánægðir með að vera fastir í vinnu við gamla þreytta þáttaröð í stað þess að geta unnið við önnur nýrri verkefni og mér fannst þeir vera stöðugt að velta því fyrir sér hvernig sérhvert handrit myndi þjóna þeim sérstaklega,“ segir Lin Hún heldur því fram að þegar einhverjum sexmenningana líkaði ekki brandari sem viðkomandi átti að fara með, hefðu þeir vísvitandi eyðilagt hann og þannig neytt handritshöfundana til að endurskrifa viðkomandi þátt.
Lin segir að „tugum góðra brandara hafi verið hent út“ einfaldlega vegna þess að einhver leikaranna hafi farið illa með sína setningu eða talað „með munnfylli af beikoni“.
Vinirnir aldrei með jákvæðar athugasemdir
Hún segir að eftir fyrstu endurskrif handrits hafi leikarar og handritshöfundar setið í settinu sem var íbúð Monicu og Chandler til að ræða endurskrifin, nýja handritið, og segir hún sexmenningana aldrei hafa komið með jákvæðar athugasemdir.
„Þetta var fyrsta tækifæri leikaranna til að koma skoðunum sínum á framfæri, sem þeir gerðu af hörku. Þeir höfðu sjaldan neitt jákvætt að segja og þegar þeir báru upp vandamál gáfu þeir ekki til kynna raunhæfar lausnir,“ segir hún.
„Hver og einn passaði fyrst og fremst upp á sinn karakter og héldu leikararnir því fram að sinn karakter myndi aldrei gera eða segja svona og svona. Það var stundum gagnlegt, en á heildina litið fóru þessar handritsyfirferðir fram á skelfilegan og árásargjarnan hátt sem er í mótvægi við þann anda sem þú myndir halda að væri í gangi við gerð gamanþátta.“
Lin var ein af 14 handritshöfundum þáttanna sem flestir voru karlkyns og hún var einnig í minnihlutahópi, segist hún hafa fundið fyrir svikaheilkenni (e imposter syndrome) daglega.
„Ég lærði ekki svo mikið, nema að mig langaði aldrei aftur að vinna við gamanþætti. En ég tel mig hafa valið rétt á þessum tíma. Og þegar öllu er á botninn hvolft þá verður Friends alltaf það þekktasta á ferli mínum.“