Miðlar vestanhafs loga nú vegna nýrra vendinga í deilu fyrrum leikarahjónanna Angelina Jolie og Brad Pitt. Ástarsamband þeirra, hjónaband og fjöldi barna vakti athygli heimsbyggðarinnar á sínum tíma, en ekki síður skilnaður þeirra og ítrekaðar harðvítugar deilur þeirra, sem flestar ef ekki allar hafa ratað fyrir dómstóla.
Í nýjum gögnum sem lögfræðingar Jolie lögðu fram fyrir dómstóla í gær hæðist hún miskunnarlaust að sínum fyrrverandi.
Í gögnunum hrekur Jolie fullyrðingar Pitt um að hafi byggt upp franska víngerð þeirra með þrotlausri vinnu, en hún segir hann í mesta lagi hafa heimsótt víngarðanna í þeim tilgangi að dást að vinnu franskra verkamanna sem sáu um uppbyggingu fyrirtækisins.
Pitt hefur sagt sig eins konar stórbónda síðustu ár og stært sig af víngerðarlandareigninni Château Miraval „Ég er bóndi núna,“ sagði hann í viðtali við Wine Spectator árið 2014, „Ég elska að læra um landið og hvaða akur er hentugur fyrir hvaða þrúgu, erfiðleikana þegar september og október renna upp: Erum við að tína í dag? Hvar er sykurmagnið? Hvernig er sýrustigið? Ætlar það að rigna? Þetta hefur mikill skóli fyrir mig. Mér finnst gaman að þrífa skóginn og ganga um landið.“
Hjónin keyptu víngerðina árið 2011, en þau skildu árið 2016 og hafa síðan rifist fyrir dómstólum, meðal annars um víngerðina. Lögfræðingar Pitt höfðu áður lagt fram gögn um að ákvörðun Jolie um að selja hlut sinn í fyrirtækinu leggi verkefnið, sem Pitt hefur lagt svo mikla persónulega vinnu í og byggt upp af eigin verðleikum, í hættu.
„Pitt er leikari, ekki víngerðarmaður. Hann fæst við blekkingar, ekki óhreinindi og vínber,“
segir í gögnum Jolie. „Á þeim árum sem hann var sagður „byggja“ upp fyrirtækið, tók hann upp og kom fram í tugum kvikmynda, svo ekki sé minnst á óteljandi kynningarframkomur, flug fram og tilbaka um allan heim fyrir frumsýningar kvikmynda og sótti fjölmargar Hollywood veislur. Þó hann hafi eflaust heimsótt vínekrurnar til að dást að verkum frönsku verkamannanna sem í raun gerðu viðskiptin farsæl, er Pitt enginn víngerðarmaður.“
Í þessum nýju gögnum heldur Jolie því fram að Pitt hafi „rænt“ fyrirtækinu og eytt milljón dollara hagnaði í léttvæg verkefni, þar á meðal í endurnýjun hljóðvers í hans eigu. Er hann sagður hafa hagað sér eins og „pirrandi barn“ eftir að Jolie seldi hlut sinn í víngarðinum árið 2021. Lögfræðingar Jolie halda því fram að fyrirtæki Pitt skuldi hennar eigin eignarhaldsfélagi 350 milljónir dala. Pitt heldur því fram að Jolie hafi selt sinn hlut í fyrirtækinu eingöngu af hefnigirni við Pitt eftir skilnað þeirra, með sölunni hafi hún brotið gegn samkomulagi sem þau gerðu meðan þau voru enn gift og allt lék í lyndi.