fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Hrefna hleypur í minningu föður síns – „Voru það bestu árin í okkar sambandi“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 4. júlí 2023 08:28

Feðginin Hrefna og Daði Mynd: Samhjálp

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þegar ég var fjögurra ára skildu foreldrar mínir. Pabbi átti eftir að fara oft í meðferð og ég heimsótti hann oft til dæmis á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti. Þegar ég var í menntaskóla náði hann þremur árum edrú og voru það bestu árin í okkar sambandi,“ segir Hrefna Daðadóttir. 

„Þegar ég tók ákvörðun um að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrsta sinn langaði mig að styrkja samtök sem voru til staðar fyrir pabba minn, en ég hleyp í minningu hans. Hann lést 26. janúar 2011 þá 49 ára gamall. Pabbi minn glímdi við alkóhólisma og heimsótti ég hann oft í gegnum árin á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti. Pabba fannst gott að vera þar og ég veit að hann sótti mikið til samtakanna. Ég fór því að lesa mér frekar til um Samhjálp og hvaða úrræði þau reka“ segir Hrefna í viðtali á vef Samhjálpar.

Hrefna Daðadóttir
Mynd: Samhjálp

Meðfylgjandi brot úr sögu Daða föður hennar má lesa á síðu Hrefnu:

„Snemma árs 1988 féllst ég á að fara í meðferð en ég man að ég fór með hálfum huga. Ég held að ég hafi farið til að friða konu mína og foreldra. Upphaflega ætlaði ég aðeins að vera í 10 daga en AA maður sem ég þekki, og varð síðar trúnaðarmaður minn, taldi mig á að fara í heila meðferð enda held ég að ég hafið verið orðinn nokkuð heill í því sem ég var að gera. Það var úr að ég fór á Staðarfell í apríl og að fjórum vikum liðnum fannst mér að ég myndi aldrei drekka framar, en ég er ekki viss um að innst inni hafi ég verið alveg sáttur við það. Ég fór á 3 eða 4 AA fundi í einni deild einu sinni í viku og fannst mér þeir leiðinlegir. 2 1/2 mánuði seinna fékk ég mér í glas á meðan konan lá á fæðingardeildinni og þó það væri lítið þá var það nóg til að setja boltann af stað. Nokkrum vikum seinna dett ég í það eftir vinnu og með mjög slæma líðan hringi ég í konuna og bið hana að sækja mig sem hún gerir. Á leiðinni heim brotna ég gjörsamlega niður og geri mér grein fyrir hvað ég var búinn að gera.“

Byrjaði að hlaupa á þessu ári

Hrefna byrjaði að hlaupa í janúar á þessu ári og ætlar að hlaupa 10 km fyrir Samhjálp í Reykjavíkurmaraþoninu 19. ágúst.

„Ég byrjaði í rauninni að hlaupa í byrjun ársins. Mágkona mín bauð mér í hlaupahópinn, Hugurinn fer hærra, sem er hópur ungra kvenna sem hittast einu sinni í viku. Þar er mikið glens og gaman og til að mynda erum við nýbúnar að hlaupa með forseta Ísland, Guðna Th. Jóhannessyni, á afmælisdegi hans 26. júní. En fyrst ég var nú byrjuð í hlaupinu fannst mér sjálfsagt framhald að skrá mig loksins í Reykjavíkurmaraþonið en ég stefni líka á að hlaupa í Copenhagen Half Marathon í september næstkomandi,“ segir Hrefna, en bæði undirbúningurinn fyrir hlaupið og söfnunin hefur gengið vel.

Hrefna ásamt hlaupahópnum
Mynd: Samhjálp

Heita má á Hrefnu hér.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Skothelt vetrarráð: „Framrúðan mun þiðna miklu hraðar“

Skothelt vetrarráð: „Framrúðan mun þiðna miklu hraðar“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hefur búið á Íslandi í 5 ár en það er eitt sem kemur henni alltaf á óvart

Hefur búið á Íslandi í 5 ár en það er eitt sem kemur henni alltaf á óvart