fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

„Ég á ekki að þurfa að skammast mín fyrir að segja margir Íslendingar en ekki „mörg Íslendingar“

Fókus
Mánudaginn 3. júlí 2023 10:23

Mynd/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Ernir Rúnarsson fjölmiðlamaður segir rétt að leggja niður auglýsingadeild RÚV. Sigmundur, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar, segir rangt að ríkisstofnun sé með söludeild á sterum sem reyni að sópa til sín tekjum sem annars færu til einkarekinna miðla.

„Staða einkarekinna fjölmiðla á Íslandi er mjög bágborin og fer sífellt versnandi. Ætli það séu ekki um 15 dagblöð sem hafa lagt upp laupana á undanförnum áratugum og þá eru ótaldir héraðsmiðlarnir. Hluti af þessu hefur auðvitað með RÚV að gera. Ég er ekki endilega á því að það eigi að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði, en það á að leggja auglýsingadeildina niður og hafa þess í stað bara auglýsingamóttöku. Þannig myndi þessi agressífa sölumennska leggjast af. Það er ekki réttur bragur af ríkisstofnun að hafa söludeild á sterum og fara um landið eins og senuþjófur. Ríkisútvarpið er á fjárlögum og aukafjárlögum og þess vegna getur ríkið ekki hagað sér með þeim hætti að sópa til sín eins miklum auglýsingatekjum og hugsast getur,“ segir Sigmundur Ernir og heldur áfram:

„RÚV á að sinna sínu hlutverki, en ekki seilast sífellt lengra í að sópa til sín fleiri hlutverkum. Þjóðleikhúsið er ekki í því að reka veitingastaði upp eftir allri Hverfisgötunni. Hlutverk þess er að sýna góð leikverk. Það er nógu erfitt fyrir einkamiðlana að keppa við erlenda miðla og kröfu um að allt eigi að vera ókeypis án þess að framganga RÚV komi þar ofan á. Það eru sífellt færri sem gera blaðamennsku að ævistarfi og það er hætta á því að fagmennska þynnist út. Krafan er sú að koma út sem mestu efni á sem hraðastan hátt með fáu fólki. Það hlýtur að hafa áhrif á gæðin.“

Rétttrúnaðurinn

Í þættinum ræðir Sigmundur einnig um rétttrúnaðinn og er á því að hann megi ekki ganga of langt. Það sé til að mynda ekki rétt að breyta tungumálinu án umræðu, bara af því að fólk sé hrætt.

„Það þarf að taka umræðuna, þó að það geti verið viðkvæmt. Það er til dæmis orðin lenska í dag að afkynja tungumálið. Í fréttum RÚV má ekki lengur segja margir séu komnir saman, heldur verður að nota orðið mörg í staðin. Mörg hver? Af hverju má ekki nota margir eða margar? Það er verið að afkynja tungumálið hratt og ég er á því að fjölmiðlar verði að standa í lappirnar og gjalda varhug við því að tungumálið sé ekki gelt á methraða. Menn eru með kurteisum hætti að færa sig í þá átt að kynin séu fleiri en tvö, en ég er ekkert endilega á því að við eigum að fara í þá átt. Það eru reglur í íslensku sem við eigum að fara eftir. Ef reglurnar eiga bara að fara út um gluggann verðum við að taka alvöru umræðu um það. Það getur ekki verið þannig að maður sé bara karlremba og vond manneskja ef maður vill ræða hluti. Ég á ekki að þurfa að skammast mín fyrir að segja margir Íslendingar en ekki „mörg Íslendingar“,” segir Sigmundur og heldur áfram:

„Við höfum dæmi um það að múgsefjun hafi farið of langt á Íslandi og það er mikilvægt að spyrna við fótum en ekki bara vera vitur eftir á. Til dæmis í bæði hruninu árið 2008 og heimsfaraldrinum varð til ákveðin múgsefjun sem var ekki góð. Hæstiréttur missti sig til dæmis í hruninu og fór langt út fyrir verksvið sitt, bara út af stemmningunni í samfélaginu.“

Óttast að allt verði leyfilegt

Sigmundur sem hefur unnið við fjölmiðla í áratugi segir allt gjörbreytt í landslagi fjölmiðla með tilkomu snjallsíma og samfélagsmiðla. Það sem hann óttast mest er að allt verði leyfilegt í fjölmiðlun nútímans.

„Ég óttast að með þeirri þróun sem er í gangi muni fjölmiðlun verða óritstýrðari og miskunnarlausari. Við höfum um langt skeið haft ritstýrða fjölmiðla sem fylgja ákveðnum verklagsreglum, þar sem mörgu er ekki hleypt í gegn. Þó að auðvitað hafi oft verið gerð mistök hefur þessum fjölmiðlum verið stýrt af kunnáttufólki sem hefur reynslu og menntun í því sem það er að gera. En núna getur nánast hver sem er birt hvað sem er og það býr til mun miskunnarlausari umræðu. Ég óttast þá þróun að með óritstýrðri fjölmiðlun verði einfaldara að ráðast bara á hvern sem er með símann að vopni,“ segir hann.

Sigmundur segir eðlilegt að fjölmiðlar og fjölmiðlafólk sé gagnrýnt og þannig eigi það að vera. En hins vegar megi líka stundum ræða um það sem vel er gert í fjölmiðlum og þátt þeirra í að breyta samfélaginu til hins betra.

„Það gleymist oft í umræðu um fjölmiðla að ræða þátt þeirra í því sem hefur batnað í samfélaginu. Samfélagið okkar var gríðarlega einsleitt og mikið af hlutum átti bara að stinga ofan í skúffu og ekki ræða þá. Þegar ég var strákur á Akureyri var kallinn bara fullkomin fyrirvinna og konan æðisleg húsmóðir og ásýndin út á við var að allt væri mjög einsleitt. Það átti ekki að vera til neinn hommi eða lesbía, það var enginn þunglyndur, ekkert sjálfsvíg hafði verið framið og það var engin fyllibytta til. Þegar Dagblaðið var stofnað byrjaði alvöru blaðamennska á Íslandi og við byrjuðum að afhjúpa samfélagið og sýna það eins og það var í raun og veru. Fram að því hafði meira og minna allt verið þaggað niður. Ég verð alltaf stoltur af því að hafa tekið þátt í að breyta þessari þróun og byrja að opna á hluti sem sannarlega þurfti að ræða.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Sigmund og öll viðtöl og alla hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Skothelt vetrarráð: „Framrúðan mun þiðna miklu hraðar“

Skothelt vetrarráð: „Framrúðan mun þiðna miklu hraðar“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hefur búið á Íslandi í 5 ár en það er eitt sem kemur henni alltaf á óvart

Hefur búið á Íslandi í 5 ár en það er eitt sem kemur henni alltaf á óvart