fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

Tuttugu og sex börn, á aldrinum fimm til fjórtán ára, voru grafin lifandi í sextán klukkustundir

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Miðvikudaginn 24. maí 2023 22:03

Jodi var 8 ára, hópmynd tekin rétt fyrir ránið og flutningabíllinn niðurgrafni. Myndir/48 hours.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrír vopnaðir menn sitja fyrir skólabíl, með 26 börnum á aldrinum 5 til 14 ára, og ráðast inn með nælonsokka yfir höfðinu. Þeir munda byssu að höfði bílstjórans.

Því næst draga þeir hann úr bílstjórasætinu og einn hinna vopnuðu manna tekur við stýrinu.

Og skólabílinn hverfur af yfirborði jarðar. Svo og börnin.

Þetta hljómar eins handrit að hryllingsmynd en staðreyndin er sú að þessi atburður raunverulega gerðist í Bandaríkjunum þann 15. júlí árið 1976.

Mynd af hópnum, tekinn nokkrum timum fyrir ránið. Mynd/48 hours

Það var um klukkan 16 sem bílstjórinn, Ed Ray, var aka skólabörnum heim úr árlegri sumarferð skólans í vatnsskemmtigarð í 20 þúsund manna bæ, Chowchilla, í Kaliforníu. Ray var að fara á eftirlaun, hann hafði ekið skólabílnum það lengi að hann hafði jafnvel ekið ömmum og öfum barnanna er nú voru í bílnum, og þá sem börnum.

Ray við skólabílinn. Mynd/48 hours

Ruku inn með byssur

Ray var um það bil hálfnaður þegar að hann sá sendiferðabíl lagðan þvert fyrir veginn og voru rúður hans málaðar svartar. Ed stöðvaði skólabílinn og um leið ruku þrír vopnaðir menn inn í bílinn, allir með nælonsokka yfir andlitinu.

Svona eins og í bíómyndum, og það frekar lélegum bíómyndum.

Einn maðurinn tók við akstri skólabílsins, annar hélt byssu að höfðu Rey sem hafði verið látinn leggjast á gólf bílsins og sá þriðji elti skólabílinn í sendiferðabílnum sem lagt hafði verið á miðjum veginum.

Um var að ræða stærsta mannrán í sögu Bandaríkjanna.

Annar sendibilanna. Mynd/48 hours

Mannræningjarnir voru þeir Frederick Woods, 24 ára, og bræðurnir Richard og James Schoenfeld, 24 og 22 ára, nágrannar og vinir frá barnsaldri.

Skólabílnum var ekið að nálægri á, þar sem öðrum sendibíl hafði verið lagt og var sá einnig með svartmálaðar rúður og með viðarklæðningu að innanverðu. Ray og börnin voru neydd inn í sendibílana og var skelfingu lostnum börnunum og bílstjóranum síðan ekið í 11 klukkustundir, eða allt þar til þeir komu að námu.

Var gíslunum þá skipað út úr bílnum og niður stiga sem lá að niðurgröfnum flutningabíl sem innihélt nokkrar dýnur og smáræði af mat.

Síðan mokuðu ræningjarnir mold og sandi yfir flutningabílinn. Börnin og Ray höfðu í orðsins fyllstu merkingu verið grafin lifandi.

Michael Marshall Mynd/48 hours

Sextán klukkutíma hryllingur

Það er ekki hægt að ímynda sér þann hrylling sem börnin og Ray upplifðu næstu 16 klukkustundirnar.

Ray gerði sitt besta til að halda börnunum rólegum og fór strax að leggja á ráðin um flótta.

Ray þótti sýna af sér einstaka hetjudáð. Mynd/48 hours

Með hjálp eldri barnanna raðaði Ray dýnunum upp svo unnt væri að komast að lofti flutningabílsins. En ræningjarnir höfðu ekki aðeins mokað yfir bílinn, þeir höfðu einnig sett stálplötur á þak hans. Ekki nóg með það, ofan á stálplötunum voru tvær iðnaðarrafhlöður, hvor þeirra 50 kíló að þyngd.

Loftæstikerfið var frumstætt. Mynd/48 hours

Klukkustund eftir klukkustund reyndu Ray og elsta barnið, Michael Marshall, að komast í gegnum loft fangelsisins sem börnin voru föst i. Þeim tókst að brjóta upp þak bílsins og eftir margra klukkustunda erfiði tókst þeim að ýta frá rafhlöðunum.

Því næst hófu þeir að moka burtu moldina með höndunum einum og eftir sextán klukkustundir tókst Ray og Michael að koma sér upp á yfirborðið og draga börnin út, hvert á fætur öðru.

Úrvinda gekk síðan barnahópurinn, ásamt Ray, að skrifstofu námunnar sem var í nokkurra kílómetra fjarlægð.

Fórnarlömbin voru líkamlega að mestu heil á húfi en áfallastreituröskun ásækir mörg þeirra enn þann dag í dag.

Börnin hýrðust niðurgrafin í 16 tíma í bílnum. Mynd/48 hours

Allir elska börn

Mannræningjarnir þrír, Frederick, Richard og James voru æskuvinir. Og þótt ótrúlegt megi virðast voru þeir af stórefnuðu fólki komnir og átti meðal annars faðir Frederick námuna þar sem þeir grófu bílinn.

En ólifnaður, sukk og svínarí hafði gert það að verkum að foreldrar ungu mannanna höfðu sagt hingað og ekki lengra og stöðvað allt peningaflæði til þeirra. Voru þeir stórskuldugir vegna fíkniefnaneyslu og fjárhættuspila og datt því þetta snjallræði í hug.

Hin svonefnda salernisaðstaða barnanna. Mynd/48 hours

James Schoenfeld sagði síðar í viðtali að á sínum tíma hefði þeim þótti hugmyndin frábær.

„Við þurftum að ræna sem flestum til að geta krafist sem hæstrar fjárhæðar, marga milljóna dollara. Og allir elska börn, þau eru verðmætust af öllu, auk þess sem það er auðvelt að yfirbuga þau. Við vorum vissir um að hið opinbera myndi greiða næstum hvað sem var til að fá þau til baka á lífi.“

Frederick, James og Richard. Mynd/48 hours

„Ég hugsaði með mér að ríkið ætti meira en nóg til að borga fyrir krakkana og ég ætlaði ekki að taka þá áhættu að vera settur í fangelsi fyrir neitt minna en nokkrar millur. Við íhuguðum bankarán en það hefði aldrei gefið jafn mikið í aðra hönd. Við pældum líka í dópsölu en hún var einnig ekki jafn gróðavænleg. Okkur fannst þetta langbesta hugmyndin. Þetta virtist vera hinn fullkomni glæpur.“

Ákváðu þeir að fara fram á 5 milljón dollara lausnargjald sem á núvirði eru 28 milljónir dollara, eða um 4 milljarðar íslenskra króna.

Náman. Mynd/48 hours

Fundust í hvelli

En þessi snilldarhugmynd var dauðadæmd frá upphafi.

Á þessum tíma voru að sjálfsögðu engir farsímar og þegar þremenningarnir voru búnir að grafa börnin og farnir heim til að hringja inn lausnargjaldið til lögreglu, náðu þeir ekki sambandi.

Allar línur voru uppteknar þar sem símtölum rigndi inn frá áhyggjufullum foreldrum og forráðamönnum í leit að börnum sínum.

Örvæntingarfullir foreldrarnir biðu barna sina. Mynd/48 hours

Á endanum gáfust þeir upp og fóru að sofa. Þeir vöknuðu að kvöldi 16. júlí, daginn eftir ránið og kveiktu á sjónvarpinu. Allir fréttatímar voru undirlagðir af fréttum af mannráninu en það sem mest kom þeim á óvart var að gíslarnir hefðu sloppið og væru allir heilir á húfi.

Það tók lögreglu aðeins nokkra klukkutíma að finna þremenningana og handtaka þá.

Breytti meðferðarúrræðum til framtíðar

Allir voru þeir dæmdir í lífstíðarfangelsi en Richard Schoenfeld fékk reynslulausn árið 2012 og bróðir hans, James, þremur árum síðar.

Frederick Woods fékk reynslulausn í fyrrahaust þrátt fyrir gríðarleg mótmæli almennings, enda almennt talinn höfðupaurinn.

Í áfalli og uppgefin en loksin frjáls. Mynd/48 hours

Rannsóknir sem síðar voru gerðar á fórnarlömbunum leiddi í ljós að mikið að fólkinu þjáðist af kvíðaköstum, martröðum, þunglyndi og ofsahræðslu. Mörg þeirra voru gríðarlega myrkfælin svo hrædd við sendiferða- og flutningabíla. Mörg þeirra eru enn í sálfræðimeðferð og sum leituðu í áfengi og fíkniefni.

Forldrarnir fögnuð börnum sinum mjög. Mynd/48 hours

Eini ljósi punkturinn er að sérfræðingar hafa öðlast mikla þekkingu á hvað áfall sem þetta getur gert ungum börnum, og í kjölfarið var meðferðarúrræðum breytt.

Ray var með börnunum allt þar til þau voru kom í fang foreldra sinna. Mynd/48 hours

Árið 2016 fóru þau 25 börn sem eftir lifðu – Ray var löngu látinn – í mál gegn mannræningjunum. Foreldrar ræningjanna voru þá látnir og sagt er að að minnsta kosti  Frederick Woods hafi fengið veglegan arf. Þau unnu málið og var þeim úthlutaður arfurinn.

Fred Woods var látinn laus i fyrra. En er eignalaus. Mynd/48 hours

Það hefur ekki verið gefið upp hvað hvert fórnarlamb fékk mikið í sinn hlut en eitt þeirra er fjölmiðlar ræddu við sagði það ,,nógu mikið til að borga sálfræðingum en ekki nógu mikið til að kaupa fasteign.“  Upphæðin væri einhver staðar þar í milli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt