

Þann 21. apríl 2024 mun einn þekktasti rokk og blues tónlistarmaður Ítalíu, Zucchero, halda tónleika í Eldborgarsal Hörpu.
Tónleikarnir eru á vegum Tónleiks ehf. en í tilkynningu segir að Zucchero hafi selt yfir 60 milljón platna, spilað í fimm heimsálfum, 69 löndum og 650 borgum en þetta séu fyrstu tónleikar hans á Íslandi.
Sérstakur gestur á tónleikunum verður söngvarinn góðkunni Helgi Björnsson. Segir í tilkynningunni að það sé ekki ólíklegt að þá megi heyra „vinsælasta jólalag Íslendinga frá upphafi“ – Ef ég nenni – sungið á ítölsku en Zucchero hafi einmitt samið þetta lag.
Helgi Björnsson mun þá bætast í hóp heimsþekktra tónlistarmanna sem unnið hafa með Zucchero en í tilkynningunni segir að meðal þeirra séu Sting, Queen, Eric Clapton, Jeff Beck, Stevie Ray Vaughan, Miles Davis, Ray Charles, B.B. King, Bono, Peter Gabriel, Dolores O´Riordan, Luciano Pavarotti og Andrea Bocelli. Segir í tilkynningunni að eitt þekktasta lag Zucchero sé Sensa Una Donna sem hann hafi sungið með Paul Young og orðið gríðarlega vinsælt um heim allan á sínum tíma.