Í gær komu fulltrúar Kiwanishreyfingarinnar saman hjá Berginu, sem er staðsett við Suðurgötu 10 í Reykjavík, og var tilefnið að veita styrk að upphæð 4 milljónum króna sem er hluti afrakstur af söfnuninni Lykill að lífi sem fór fram á síðasta ári. Það var Hjalti Úrsus Árnason, formaður K-dagsnefndar, sem afhenti styrkinn og þakkaði hann m.a. Forseta Íslands, heilbrigðisráðherra og landsmönnum öllum fyrir þátttökuna og stuðning við söfnunina. Það var síðan Sigurþóra Bergsdóttir sem veitti styrknum viðtöku og þakkaði Kiwanishreyfingunni fyrir frábæran stuðning sem kæmi sér vel í því starfi sem Bergið innir af hendi.
Fyrir þá sem ekki vita þá er Bergið stuðnings- og ráðgjafarsetur (headspace) fyrir ungt fólk á forsendum ungs fólks. Ekki þarf tilvísun eða greiningu, það eina sem þarf er að langa til að ræða við einhvern. Ráðgjöfin í Berginu er ókeypis. Bergið er til staðar sama hvað fólk vill ræða. Enginn vandamál eru of stór í Berginu. Hægt er að skrá sig í þjónustu á bergid.is en einnig er hægt að hringja eða senda tölvupóst og er fjarþjónustu í boði ef óskað er.
Bergið hefur verið opið í þrjú og hálft ár og á þeim tíma hafa 1300 ungmenni fengið þjónustu. Hópurinn sem komið hefur í Bergið er fjölbreyttur og á öllum skólastigum, í vinnu eða utan vinnumarkaðar. Ástæðurnar fyrir því að ungmenni koma í Bergið eru margvíslegar. Sumir koma til að ræða samskipti við vini eða fjölskyldu, aðrir til að fá aðstoð við atvinnuleit eða skólaval. Vanlíðan í daglegu lífi er algeng ástæða þess að ungmenni leita í Bergið og svo eru ungmenni sem leita til okksar sem vilja vinna úr ofbeldi og áföllum.Hvað sem býr að baki þá eru öll velkomin í Bergið.