fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Ekki fjölskylda heldur fyrirtæki og dýrmæt tekjulind Breta

Fókus
Laugardaginn 6. maí 2023 16:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru ekki margar konungsfjölskyldur í heiminum í dag. Kennum auknum jöfnuði og kröfum um lýðræði um þá hneisu. Hin eðalbornu hafa ekki lengur vald sem talið er nánast guðlegt heldur sitja þau á hásæti sínu fyrir náð almenningsins sem lítur á þau sem sameiningartákn þjóðar, merki um fornar dáðir og ríkulega sögu.

Greinin birtist fyrst 2021 en hefur nú verið uppfærð og er endurbirt í tilefni dagsins, en Karl var í dag formlega krýndur konungur. 

Fyrirtæki, ekki fjölskylda

Frægasta konungsfjölskyldan er óumdeilanlega sú breska. En það er engin hefðbundin fjölskylda. Lífi konungsfjölskyldunnar mætti heldur líkja við fyrirtækjarekstur, enda hafa margir fjölskyldumeðlimir einmitt vísað til fjölskyldunnar sem Fyrirtækisins (e. The Firm). Nú síðast hertogaynjan af Sussex, Meghan, í eftirminnilegu viðtali við fjölmiðladrottninguna Opruh.

Fyrir okkur hér á Íslandi væri nærtækara að líkja bresku konungsfjölskyldunni við opinbert hlutafélag, enda rekstur hennar að miklu kostaður til af almannafé og hún hefur skyldum að gegna gagnvart almenningi í landinu

Vissulega eru meðlimir konungsfjölskyldunnar efnaðir einstaklingar, enda hafa þau setið við völd öldum saman og það væri fremur vandræðalegt að ná ekki að skrapa saman nokkrum auðæfum til hliðar, svona til að drýgja tekjurnar.

Á launum hjá skattgreiðendum

En fjölskyldan fær líka greitt úr ríkissjóði. Þau fá það sem kallast fullveldisstyrk, sem er hlutfall af þeim arði sem fæst af gífurlegum eignum krúnunnar, en krúnan á þær eignir en ekki konungsfjölskyldan. Meðal þeirra eigna er sjálf Buckingham-höll. Þessi styrkur á að standa undir kostnaði við opinberar skyldur konungsfjölskyldunnar. Undir þetta fellur meðal annars rekstur og viðhald á húsakosti konungsfjölskyldunnar, starfsmannakostnaður, ferðalög, opinberar móttökur, opinberir viðburðir og opinberar skyldur

Síðan er sjóður sem kallast Duchy of Lancaster, en það heldur utan um eignir einvaldsins, sem nú er Karl III Bretakonungur. Karl á þó ekki rétt á að ráðstafa sjóðnum að vild, heldur fær hann aðeins árlega ávöxtun í formi eins konar vasapeninga sem nefnist á ensku The Privy Purse

Álíka sjóður er rekinn fyrir arftaka konungs, elsta son hans – Vilhjálms Bretaprins. En sá sjóður kallast The Duchy of Cornwall. Þaðan fær Vilhjálmur sínar tekjur og ráðstafar hann hluta þeirra til afkomenda sinna fyrir þeirra opinberu störf. Eins hafa vissir meðlimir fjölskyldunnar fengið árlegan vasapening beint úr ríkissjóði.

Seldu snekkjuna

Þrátt fyrir þetta kom fyrir að Elísabet drottning, þegar hún var á lífi, þurfi að leita til breska þingsins eftir eftir aukafjármagni. Árið 2009 bað drottningin um rúmlega 700 milljóna króna hækkun á fullveldisstyrknum til að standa undir kostnaði vegna framkvæmda við Buckingham-höll. Eins varð frægt árið 1969 þegar eiginmaður drottningar, Filippus Bretaprins, greindi kanadískum fjölmiðlum frá peningavandræðum fjölskyldunnar. „Til dæmis áttum við litla snekkju sem við urðum að selja og ég þarf líklega að hætta að spila póló í nánustu framtíð

Þó að einveldi eigi í vök að verjast í heiminum í dag er meirihluti Breta þó hlynntur því að hafa konungsfjölskylduna. Meira að segja er stuðningur við konungsveldi meiri heldur en stuðningurinn er við íslensku ríkisstjórnina í dag, eða 55 prósent árið 2023 á móti þeim 38 prósentum sem ríkisstjórnin mældist með í síðasta Þjóðarpúls Gallup. Engu að síður telst stuðningur við konungsveldið nú vera í sögulegu lágmarki.

Elísabet Bretadrottning var við völd í sjötíu ár, lengst allra einvalda í sögunni, og hvílíkir tímar sem hún fylgdi þjóð sinni í gegnum. Hún var þó í reynd ekki með nein eiginleg völd heldur var meira virðingartákn, í anda við forseta Íslands. Raunveruleg völdin eru í höndum ríkisstjórnarinnar, enda má konungsfjölskyldan ekki viðra pólitískar skoðanir eða taka þátt í stjórnmálum. Þau hafa heldur engan kosningarétt. Karl er nú tekinn við völdum, en hann er 74 ára gamall og því hæpið að hann muni ríkja jafn lengi og móðir hans gerði.

Vinsæll vinnustaður

Í kringum konungsfjölskylduna starfa rúmlega þúsund manns og eru störf í Buckingham-höll meðal þeirra eftirsóttustu í Bretlandi, þó launin séu ekki alltaf góð. Margir þeirra fá þó frítt fæði og húsnæði sem gerir grasið grænna. Alls 188 herbergi í Buckingham-höll eru fyrir starfsmenn. Þar eru líka 92 skrifstofur og 78 baðherbergi. Meira að segja hundar drottningar eiga sinn eigin bryta. Það eru þó ekki bara þjónar, þernur, kokkar og brytar í höllinni. Nei, líkt og góðu fyrirtæki sæmir er þar að finna heilu deildirnar. Meðal annars mannauðsskrifstofu, almannatengsladeild, öryggisdeild og fjármáladeild.

Síðan má finna þar hirðina, til að mynda aðstoða hirðmeyjar drottninguna við að klæðast og afklæðast en það hlutverk fær ekki hver sem er og hirðmeyjarnar koma nánast alltaf af aðalsættum sjálfar.

Meira að segja systir Díönu prinsessu var um tíma hirðmey drottningar. Æðst hirðmeyja er persónulegur stílisti drottningar og sú er nánast undantekningarlaust hertogaynja,

Reksturinn er mjög formfastur og hefðir og venjur eru í hávegum hafðar. Einn heimildarmaður hefur sagt að áður en drottningin fékk kaffið sitt í bolla sinn þurfti það að ganga á milli fjölda starfsmanna. Fyrst var það manneskjan sem helti upp á kaffið og helti því yfir í silfurkaffikönnu, því þannig vildi drottningin það. Næst kom starfsmaðurinn sem bar silfurkönnuna til annars starfsmanns. Sá starfsmaður gekk svo örfáa metra sjálfur og helti beint í bolla drottninga

Starfsmenn eru meira að segja með ítarlega kortlagningu á því hvernig skuli raða morgunverðinum nákvæmlega eftir þörfum hvers og eins fjölskyldumeðlims og að sjálfsögðu er notuð reglustika þegar lagt er á borð. Annað væri villimannslegt

Skyldur konungsins

Konungsfjölskyldan sjálf hefur nóg fyrir stafni. Daglega þarf konungurinn að taka við fræga rauða kassanum sem inniheldur alls konar skýrslur og skjöl frá þinginu. Eini dagurinn sem hann fær ekki slíkan kassa er jóladagur. Hann þarf að taka á móti gestum, sendiherrum og öðrum embættismönnum, vera viðstaddur athafnir, afhenda verðlaun, heimsækja sjúkrahús, góðgerðarsamtök og margt fleira. Svo eru það opinberar heimsóknir erlendis.

Elísabet drottning sinnti hundruðum opinberra skuldbindinga á ári hverju. Hún gat þó ekki verið alls staðar og þar komu aðrir fjölskyldumeðlimir inn og taka við keflinu. Hún þurfti líka að vera fyrirmynd í öllu sem hún gerði, fylgja ströngum reglum og hefðum og vera þjóð sinni til sóma. Dagskrá hennar var  þéttskipuð og að baki dagskránni er gífurlegur fjöldi starfsmanna. Hún var forstjóri fyrirtækisins og andlit þess út á við. Nú er Karl tekinn við og bíða hans væntanlega allar þessar sömu skyldur.

Skilar meiru en hún kostar

Auðvitað kostar allt þetta umstang pund eða tvö. Árið 2020 fóru um 11 milljarðar af skattpeningum Breta í krúnuna. Þar er ekki talinn með kostnaður vegna öryggisgæslu. En hins vegar telja Bretar þetta ekki eftir sér því konungsfjölskyldan stendur undir kostnaðinum, og gott betur en það, með því að vera góð landkynning og ríkulegt aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

The Sunday Post áætlaði árið 2018 að konungsfjölskyldan aflaði Bretum 77 milljarða í tekjur, umfram kostnað þeirra. Kannski að Íslendingar ættu að taka það sér til fyrirmyndar. Taka buffið af Guðna Th. Jóhannessyni forseta, smella á hann kórónu og bíða eftir hagnaðinum.

Á tímum byltinga í nafni mannréttinda var ofríki einvalda kastað á bálið. Konungsfólk var gert útlægt og jafnvel höfðinu styttra. Breska krúnan ákvað fremur að nútímavæðast. Krýning hennar var fyrsta slíka athöfnin sem var sjónvarpað og hún sendi sinn fyrsta tölvupóst árið 1976 þegar flest okkar vissum ekki að Internetið væri til, hvað þá tölvupóstur.

Til að halda í við strangar kröfur almennings þurfa fjölskyldumeðlimir og starfsmenn þeirra stöðugt að vera á tánum. Bæði eru gerðar kröfur um að hefðir séu í hávegum hafðar sem og um að fjölskyldan aðlagi sig að breyttum þankagangi nútímans. Það getur vissulega verið snúið og konungsfjölskyldan er inn við beinið mannfólk eins og við hin og skrikar fótur við og við. Enda kemur það fyrir á bestu bæjum, og í besta fyrirtækjarekstri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Skothelt vetrarráð: „Framrúðan mun þiðna miklu hraðar“

Skothelt vetrarráð: „Framrúðan mun þiðna miklu hraðar“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hefur búið á Íslandi í 5 ár en það er eitt sem kemur henni alltaf á óvart

Hefur búið á Íslandi í 5 ár en það er eitt sem kemur henni alltaf á óvart