Póstburðarmaður hefur slegið í gegn í íbúahópi Vesturbæjar á Facebook eftir að íbúi á Hagamel póstaði mynd af honum í hópnum.
„Pósturinn í Vesturbænum einstaklega hjálpsamur. Hjálpaði fullorðinni konu að skafa bílinn,“ skrifar konan í færslunni, sem yfir 400 manns hafa látið sér líka við.
„Þessi maður hjálpaði mér líka að losa bílinn minn sem var pikkfastur, yndislegur maður,“ skrifar kona í athugasemd. „Það er ekki af honum skafið,“ skrifar karlmaður.
Lagt er til að senda Póstinum ábendingu þar sem fyrirtækið þurfi að vita hvað það er með gott starfsfólk. Annar ræður þó frá því því þá muni yfirmenn bæta á hann fleiri verkefnum.
Kannski hefur DV með þessari frétt valdið því að verkefnum verði bætt á póstburðarmanninn, en eitt er víst að við mættum öll vera jafn hjálpsöm og hann.