Þóra Hjörleifsdóttir rithöfundur er tilnefnd á langlista Bókmenntaverðlauna í Dublin, Dublin Literary Award, fyrir bók sína Kviku, í enskri þýðingu Meg Matich.
Verðlaunin eru bókmenntaverðlaun almenningsbókasafna um víða veröld, 84 bókasöfn frá 31 landi tilnefna bækur og eru 70 bækur tilnefndar að þessu sinni, þar af 14 bækur sem eru frumraun höfundar, líkt og bók Þóru.
„OMG!! Kvika hefur verið tilnefnd til bókmenntaverðlauna Dyflinnar. Pælið í öllum þeim hafsjó af titlum sem koma út á ensku og svo er bara frumraun mín sigtuð út og flokkuð til rjómans, ég er í skýjunum með þetta og er þýðanda mínum Meg Matich innilega þakklát.
Kv höfundur sem þótti ekki þess fallinn að fá listamannalaun í ár,“ segir Þóra kampakát í færslu á Facebook.
Kvika er fyrsta skáldsaga Þóru, hún kom út á Íslandi árið 2019 hjá Forlaginu og í enskri þýðingu sem Magma í júlí 2021 bæði í Bandaríkjunum og Kanada hjá útgáfunni Black Cat. Þóra er í hópi Svikaskálda og voru þær tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í fyrra fyrir bókina Olía.
Kvika/Magma er sögð í fyrstu persónu af ungri konu, Lilju, og er sláandi frásögn af andlegu og kynferðislegu ofbeldi í nánu sambandi árið 2007 í Reykjavík. Sagan er tileinkuð þeim sem hafa rofið þögn um ofbeldi og sagt frá. Hún vekur athygli á veruleika sem hefur verið þagað yfir og hversu mikilvægt er að uppræta þá skömm sem þolendur ofbeldis geta upplifað, en skömmin þrífst best í þögn og einangrun.
Skáldsagan er knöpp og vel eimuð. Brotakennt frásagnarformið er stór hluti af sögunni, eykur slagkraftinn og heldur lesanda föngnum í eyðandi vef aðalpersónunnar sem talar sterkt inn í samtímann, um myrkar hliðar ástarsambanda, um ofbeldi í nánum samböndum, um þráhyggju og sjúka ást.
Sjá einnig: Kvika – Örþunn lína ástar og ofbeldis
Þess má geta að spjallþáttadrottningin Oprah mælti með bókinni í fyrra og var Magma á meðal 20 þýddra verka á lista Oprah Daily, þar sem reglulega eru birt bókameðmæli.
Hér má lesa um Bókmenntaverðlaunin í Dublin og hvaða bækur eru tilnefndar. Í mars verður styttri listi tilkynntur með 6 tilnefndum bókum og að lokum verða verðlaunin veitt einum höfundi og þýðanda (ef bókin er þýðing) í maí 2023.
Þetta er í 28. sinn sem verðlaunin eru haldin af Borgarbókasöfnum í Dublin og styrkt af borgarstjórninni í Dublin ásamt Dublin bókmenntaborg. Tilnefndar bækur eru frá ýmsum löndum og í ár eru þær upprunalega skrifaðar á meðal annars ensku, arabísku, búlgörsku, hindí, kóresku, slóvensku, japönsku og íslensku.